Spurning

Hafa þrjú voldugustu ríki Evrópusambandsins farið með friði síðan um aldamótin 1900?

Spyrjandi

Haraldur Ólafsson

Svar

Margir hafa velt fyrir sér spurningum af þessum toga vegna þeirrar ákvörðunar norsku Nóbelsnefndarinnar að veita Evrópusambandinu friðarverðlaun ársins 2012. Vísað er í tilkynningu nefndarinnar í svarinu. Þar kemur fram til dæmis að árið 1945 höfðu Þýskaland og Frakkland háð þrjár styrjaldir á 70 árum, og má bæta því við að styrjaldasagan milli þessara þjóða ásamt Bretlandi hefur staðið um margar aldir. Þá er rakið í tilkynningunni hvernig ESB tengist þróun lýðræðis og mannréttinda á Spáni, í Portúgal og í ríkjum Austur-Evrópu. Þess konar þróun í álfunni var einmitt eitt af meginmarkmiðum Evrópusamrunans allt frá því að hann hófst með stofnun Kola- og stálbandalagsins árið 1952.

Þrátt fyrir jákvæða þróun í átt til friðar og sátta, lýðræðis og mannréttinda í Evrópu er þó því miður enn langt í land að þjóðum heims lærist að leysa ágreiningsmál sín við samningaborð í stað vígvallarins.

Stutta svarið við spurningunni er þetta: Umrædd ríki hafa ekki farið almennt með friði síðan um aldamótin 1900, frekar en mörg önnur ríki í heiminum. Þau fóru ekki heldur með friði sín á milli á fyrri helmingi 20. aldar, heldur háðu þá tvær af mannskæðustu styrjöldum mannkynssögunnar. En eftir að Evrópusamruninn hófst upp úr 1950 hafa þau farið með friði sín á milli og núna virðist styrjöld þeirra á milli óhugsandi.

***

Upphaflegar spurningar voru sem hér segir, í heild:

Þrjú voldugustu ríki Evrópusambandsins hafa ekki alltaf farið með friði.

1. Hversu marga menn hafa stjórnvöld í þessum ríkjum drepið frá árinu 1900?

2. Í hvaða tilvikum hafa stjórnvöld beðist afsökunar á manndrápum eða sýnt merki um iðrun og yfirbót, til dæmis með fégjöldum?

3. Hafa stjórnvöld almennt notið stuðnings alþýðu í sláturtíð?

Ríkin þrjú sem spyrjandi hefur í huga eru trúlega Þýskaland, Frakkland og Bretland sem eru nú nokkru voldugri og fjölmennari en önnur ríki Evrópusambandsins. Munar þó ekki miklu, til dæmis í íbúafjölda, að Ítalía standi jafnfætis Frakklandi og Bretlandi, en hún er jafnframt eitt af stofnríkjum sambandsins. Aðild Bretlands hefur heldur ekki verið eins öflug eða eindregin og hinna ríkjanna tveggja, né heldur í samræmi við önnur umsvif Breta á alþjóðavettvangi. Því er ekki ljóst að Bretland ráði meiru í ESB en til dæmis Ítalía eða önnur ríki sem ganga næst henni.


Thorbjørn Jagland formaður norsku Nóbelsnefndarinnar tilkynnir ákvörðun nefndarinnar um að veita Evrópusambandinu friðarverðlaun Nóbels árið 2012.

Spurningar í ætt við þá sem hér um ræðir hafa eðlilega kviknað hjá mörgum eftir að tilkynnt var að Evrópusambandið hlýtur friðarverðlaun Nóbels á þessu ári en um ástæður þess er fjallað í svari við spurningunni Fyrir hvað fær Evrópusambandið friðarverðlaun Nóbels? Þar er að finna íslenska þýðingu á tilkynningu Nóbelsnefndarinnar frá 12. október 2012 en enskur frumtexti hennar er hér. Þar kemur fram að ríki Evrópusambandsins hafa einmitt alls ekki alltaf farið með friði sín á milli. Þvert á móti hafa stríð milli ríkja verið daglegt brauð í álfunni allar götur frá því að þjóðríki komu til sögu og fram til ársins 1945 þegar seinni heimsstyrjöldinni lauk. Eins og kunnugt er lauk vopnabraki heldur ekki með öllu á því ári, samanber Júgóslavíustríðin 1991-1999, en ríkin sem þar áttu í hlut voru þá ekki i Evrópusambandinu.

Glöggt kemur fram í nokkrum svörum á Evrópuvefnum, til dæmis við spurningunni Af hverju var Evrópusambandið stofnað? – 2. Aðdragandinn, að eitt af yfirlýstum meginmarkmiðum frumkvöðla Evrópusamrunans kringum 1950 -- manna eins og Jean Monnets og Roberts Schumans -- var einmitt það að koma í veg fyrir að stofnríkin, einkum Frakkland, Þýskaland og Ítalía, héldu áfram að berast á banaspjót í grimmilegum styrjöldum. Þetta atriði hefur allar götur síðan endurspeglast í samningum Evrópusambandsins og fyrirrennara þess, samanber 1. tölulið 3. greinar Lissabon-sáttmálans þar sem segir orðrétt: „Markmið Sambandsins er að stuðla að friði … .“

Höfundi þessa svars er ekki kunnugt um annað en að þetta markmið hafi náðst með fullum sóma að því leyti að engin styrjaldarátök hafa orðið milli aðildarríkja Evrópusambandsins eftir að viðkomandi ríki gengu í það. Ef lesendur vilja ræða það nánar er þeim velkomið að setja fram nýja spurningu þar um.

Spyrjandi miðar spurningu sína við aldamótin 1900 og hún er sett fram eins og þau þrjú ríki ESB sem nú eru voldugust í ESB hafi verið óbreyttar heildir allar götur síðan þá. Það má rétt vera um Evrópuhluta Bretlands sem er þokkalega afmarkað eyríki, en nýlenduveldi Breta hefur tekið gífurlegum breytingum á þessum tíma og nánast horfið af yfirborði jarðar. Sama má segja um nýlenduveldi Frakka auk þess sem landamæri Frakklands hafa breyst nokkuð á tímabilinu. Mestar hafa þó breytingarnar verið á Þýskalandi sem hefur gerbreyst nokkrum sinnum á þessum tíma, bæði varðandi stjórnarfar, landamæri og ríkjaskipan. Þannig getur Þýskaland dagsins í dag varla talist sama ríki og þau sem voru á sama svæði á tímabilinu 1949-1990 (Vestur- og Austur-Þýskaland) eða 1933-1945 (oft kallað Þriðja ríkið, einræðisríki sem náði í byrjun talsvert lengra til austurs en Þýskaland núna). Er til dæmis (sem betur fer) vandséð að hegðun stjórnvalda í Austur-Þýskalandi eða í Þýskalandi Hitlers hafi neitt forsagnargildi um Þýskaland 21. aldar.


Særðir breskir hermenn og þýskur herfangi ganga til sjúkrabúða af vígvelli orrustunnar um Somme í fyrri heimsstyrjöldinni.

Mannfall í styrjöldum er oft gríðarlegt og um leið hörmulegt. Þannig er talið að alls hafi fallið tæplega 17 milljónir manna í fyrri heimstyrjöldinni sem fór að miklu leyti fram í Evrópu, þannig að reikna má með að bróðurparturinn af hinum föllnu hafi tilheyrt þeim þjóðum sem hér um ræðir. Mannfall hjá þeim er talið hafa verið á bilinu 2-4,5% af íbúum hvers ríkis. Í seinni heimsstyrjöldinni er mannfall talið hafa verið um 60-80 milljónir manna, þar af 7-9 milljónir í löndum Þjóðverja og 25-29 milljónir í Sovétríkjunum. Í Þýskalandi nam mannfallið kringum 10% af íbúum en í Bretlandi og Frakklandi kringum 1% (um hálf milljón í hvoru landi).

Síðari heimsstyrjöldin er samkvæmt Wikipediu talin hafa verið mannskæðasta styrjöld mannkynssögunnar, og sú fyrri er í öðru sæti af þeim sem orðið hafa í Evrópu. Sumir hafa raunar viljað líta á þessar tvær styrjaldir sem eina og má vel vera að það verði viðtekið þegar fram líða stundir. -- En vert er einnig að taka eftir því að fjórar styrjaldir í Asíu, að mestu án þátttöku Evrópumanna, eru í 2.-5. sæti á fyrrnefndum lista Wikipediu, á undan fyrri heimsstyrjöldinni sem er í 6. sæti.

Auk styrjalda milli Evrópuríkja, ásamt öðrum þátttakendum, hafa nýlenduveldi Evrópu – lönd eins og Bretland, Frakkland, Holland, Belgía, Portúgal og fleiri – einnig háð stríð í nýlendum sínum, þar til svo var komið að nær allar nýlendur höfðu fengið sjálfstæði. Enn má nefna önnur stríð sem Evrópuríki og bandamenn þeirra hafa háð utan Evrópu, eins og í Víetnam, Afganistan og Írak. Ýmsar af þessum styrjöldum hafa verið umdeildar og hér verður ekki haldið uppi vörnum fyrir þær, en þær breyta þó ekki því sem sagt hefur verið hér á undan um styrjaldir í Evrópu. -- Sé litið á töflur um þekktar styrjaldir sögunnar, samanber tengil sem áður var vísað til, þá virðist þó þurfa meiri rökstuðning ef menn vilja álykta að Evrópubúar séu eða hafi í aldanna rás verið stríðsþyrstari en gengur og gerist. Reyndar er kannski þrautin þyngri að skilgreina slíkt þannig að óyggjandi svar fáist. Evrópuvefnum hefur borist sérstök spurning um þetta og við munum birta svar við henni ef við náum viðunandi tökum á svo erfiðu úrlausnarefni.

Hvað sem því líður er enn alllangt í land að friður ríki um alla jörð þó að talsvert hafi orðið ágengt í Evrópu í að leysa ágreiningsmál þjóða við samningaborð í stað vígvallarins.


Um það bil 8,4 milljónum manna og kvenna var haldið í nauðungarvinnu í seinni heimsstyrjöldinni. Á myndinni má sjá austur-evrópska konu í þrælkunarbúðum nasista í Auschwitz.

Annar liður spurningarinnar snýst um afsökun á manndrápum og merki um iðrun eða yfirbót, til dæmis með fégjöldum. Þó að tjón fólks af styrjöldum verði oft ekki bætt að fullu með fé hefur stundum verið reynt að bæta skaðann, svo langt sem það nær. Dæmi um slíkt eru svokallaðir Versalasamningar frá 1919, eftir fyrri heimsstyrjöldina. Þar var Þjóðverjum gert að gangast einhliða við ábyrgð á því að hafa byrjað stríðið, láta af hendi veruleg landsvæði og greiða Bandamönnum („sigurvegurum“ stríðsins) mjög verulegar stríðsskaðabætur. Margir málsmetandi menn vöruðu við óhóflegri upphæð þeirra og töldu þær mundu verka gegn tilgangi sínum – og nú telja líklega enn fleiri að það hafi komið á daginn með uppgangi nasista og seinni heimsstyrjöldinni. Eftir hana hafa ekki verið gerðir sérstakir friðarsamningar á borð við Versalasamningana, og kann það að stafa af slæmri reynslu frá Versölum. Hins vegar hafa þýsku ríkin þrjú (Vestur- og Austur-Þýskaland og síðan Þýskaland) að eigin frumkvæði greitt ýmiss konar skaðabætur til fólks um allan heim sem varð fyrir tjóni af völdum nasista og Þjóðverja í tengslum við seinni heimsstyrjöldina og aðdraganda hennar (sjá tengla í lok svarsins). -- Hér viljum við einnig vekja athygli á kanadískri vefsíðu þar sem safnað er saman upplýsingum um iðrun stjórnvalda, skaðabætur og fleira slíkt sem tengist styrjöldum.

Um styrjaldir gildir yfirleitt að sjaldan veldur einn þá tveir deila. Því er engan veginn augljóst hvernig ætti að haga því sem almennri reglu að greiða fégjöld af hálfu styrjaldaraðila til fórnarlamba styrjalda. Til dæmis vaknar sú spurning hvort allir aðilar þyrftu ekki að taka þátt í slíkum greiðslum. Engu að síður má vel vera að slíkt gæti orðið til góðs.

Síðasti liður spurningarinnar beinist að stuðningi alþýðu við stjórnvöld „í sláturtíð“, það er að segja í stríðsrekstri. Í einræðisríkjum liggur auðvitað ekkert skýrt fyrir um slíkt þó að því miður hafi oft verið vísbendingar um nokkuð almennan stuðning alþýðu, enda gæta stjórnvöld þess oft að tryggja sér hann áður en lagt er af stað. Í lýðræðisríkjum er svarið því miður svipað; alþýðan hefur yfirleitt stutt stríðsreksturinn, að minnsta kosti meirihluti hennar og eftir að út í hann er komið, en undantekningar frá þessu hafa að vísu verið að stinga upp kollinum í seinni tíð eins og margir vita.

Þrátt fyrir þessa reynslu er engan veginn augljóst eða sjálfgefið að alþýða manna í tilteknu ríki styðji stríðsrekstur sem stjórnvöld ákveða og beinist í raun gegn alþýðu manna í öðrum ríkjum. Þetta var til dæmis mikið rætt í samtökum sósíalista um aldamótin 1900 með þeirri niðurstöðu að sósíaldemókratar, sem þá voru orðnir talsvert áhrifamiklir í Evrópu, einsettu sér að taka ekki þátt í styrjöldum. Forystumenn þýskra sósíaldemókrata gengu ekki síst fram fyrir skjöldu í þessu en flokkur þeirra var þá mjög að eflast. En þegar til kastanna kom árið 1914 gleymdist þetta algerlega, menn sneru við blaðinu og studdu stríðsreksturinn eins og flestir aðrir stjórnmálamenn.

Höfundur þakkar þeim Þórhildi Hagalín og Haraldi Ólafssyni yfirlestur og góðar ábendingar um efni svarsins.

Lesendum er einnig bent á svar Haraldar Ólafssonar við sömu spurningu, sjá Hafa þrjú voldugustu ríki Evrópusambandsins farið með friði síðan um aldamótin 1900? – Viðbrögð lesanda

Tenglar:

Myndir:
Við þetta svar er engin athugasemd Fela