Spurning

Er rétt að ekki sé leyfilegt að vera á stærri dekkjum en 35" í ESB?

Spyrjandi

Þorsteinn Stefánsson

Svar

Það er fátt sem bendir til þess að stórir hjólbarðar, sem ætlaðir eru til aksturs utan vega eða í einhvers konar torfæru, verði bannaðir ef til aðildar Íslands að Evrópusambandinu kemur. Tvær ástæður eru fyrir þessu. Sú fyrri er að engar sameiginlegar reglur virðast gilda um stærðartakmarkanir á hjólbörðum innan sambandsins. Seinni ástæðan er að Ísland hefur nú þegar innleitt regluverk Evrópusambandsins á sviði samgöngumála, meðal annars reglur um gerð og búnað ökutækja.

***

Eftir því sem Evrópuvefurinn kemst næst gilda engar sameiginlegar reglur innan Evrópusambandsins um takmarkanir á stærð hjólbarða. Í reglum sambandsins (nr. 661/2009 og 458/2011) er hins vegar mælt fyrir um að stærð og útfærsla hjólbarða skuli vera í samræmi við stærð og gerð felgu og að felgur skuli vera af þeirri stærð, úr því efni og af þeirri gerð sem viðurkennd er af framleiðendum og í samræmi við þær reglur sem gilda um þann iðnað. Þá mega ökutæki ekki hafa hjól sem hafa slæm áhrif á aksturseiginleika þeirra, loftþrýstingur skal vera sem jafnastur, í samræmi við álag og samkvæmt fyrirmælum framleiðanda ökutækis og hjólbarða, svo eitthvað sé nefnt. Það er því fátt sem bendir til þess að stórir hjólbarðar sem gera bílum fært að keyra utan vega og komast yfir torfærur séu bannaðir í Evrópusambandinu.


Sumir hjólbarðar eru stærri en aðrir.

Löggjöf Evrópusambandsins virðist raunar ekki hamla notkun stærri hjólbarða að neinu leyti. Þannig voru hjólbarðar sem ætlaðir eru til aksturs utan vega eða í einhvers konar torfæru sem og hjólbarðar sem eru til tímabundinna nota, svo sem varadekk eða rallýdekk, undanskildir ákvæðum nýlegrar reglugerðar sambandsins (nr. 1222/2009) um merkingu hjólbarða. Reglugerðin, sem innleidd var hér á landi árið 2012, mælir fyrir um ítarlegar merkingar á hjólbörðum til að auðvelda samanburð á eiginleikum þeirra og gæðum. Þær veita upplýsingar um vegviðnám, veggrip í bleytu og veghljóð, sem mælikvarðar á sparneytni og endingartíma, hemlunarvegalengd og hljóðmengun. Ekki þótti nauðsynlegt að láta sömu viðmið gilda um stóra hjólbarða enda tilgangur þeirra og notkun ekki sú sama og hjólbarða af venjulegri stærð.

Löggjöf Evrópusambandsins á sviði samgöngumála hefur nánast undantekningarlaust verið tekin upp í íslenskan rétt á grundvelli EES-samningsins, þar á meðal fjöldi tilskipana um gerð og búnað ökutækja. Þær reglur sem gilda um hjól og búnað hjóla í Evrópusambandinu eru því þær sömu og gilda á Íslandi og mælt er fyrir um í íslenskum lögum (nr. 822/2004).

Heimildir og mynd:
Við þetta svar er engin athugasemd Fela