Spurning

Hagstofa Evrópusambandsins

Spyrjandi

Evrópuvefur

Svar

Hagstofa Evrópusambandsins (e. Eurostat) er staðsett í Lúxemborg og var stofnuð árið 1953 á tímum Kola- og stálbandalagsins. Stofnunin er samstarfsvettvangur Evrópuþjóða í hagskýrslumálum og heldur stofnunin utan um margþættar hagtölur aðildarríkja ESB, umsóknarríkja ESB og EFTA-ríkjanna á fjölmörgum sviðum efnahags-, félags og umhverfismála. Hagtölurnar liggja til grundvallar stefnumótun og ákvarðanatöku í stofnunum ESB en þær eru jafnframt aðgengilegar almenningi.

Meginmarkmið stofnunarinnar er að allar hagtölur, sem innlendar hagstofur samstarfsríkjanna safna saman og senda Eurostat, séu sambærilegar svo hægt sé að gera raunhæfan samanburð milli ríkja og ríkjahópa. Hagstofur samstarfsríkjanna starfa því samkvæmt sameiginlegum reglum ESB um flokkanir, aðferðir, skýringargreiningu og vinnubrögð við söfnun hagtalna.

Þeim hagtölum sem stofnunin safnar er gróflega hægt að skipta niður í eftirtalda flokka:
  • Stefnuviðmið ESB
  • Atvinnulíf og fjármál
  • Atvinnugreinar, viðskipti og þjónusta
  • Utanríkisviðskipti
  • Umhverfis- og orkumál
  • Hagtölur eftir landsvæðum
  • Mannfjölda og félagsmál
  • Landbúnaður og sjávarútvegur
  • Samgöngur, vísindi og tækni

Ísland tekur þátt í samstarfi á vettvangi evrópska hagskýrslusamstarfsins í samræmi við 6. gr. EES-samningsins og Hagstofa Íslands sinnir gagnaöflun frá innlendum stofnunum og annast afhendingu gagna til Eurostat í samræmi við löggjöf ESB. Þá starfrækir EFTA sérstaka skrifstofu sem stýrir samstarfi og hagsmunagæslu gagnvart Eurostat en EFTA-ríkin koma fram sem ein heild gagnvart stofnuninni.
Við þetta svar er engin athugasemd Fela