Spurning

Hvernig er gjaldmiðli í ESB-ríki skipt út fyrir evru? - Myndband

Spyrjandi

Ritstjórn

Svar

Ríki Evrópusambandsins þurfa að taka upp evru þegar þau hafa fullnægt ákveðnum efnahagslegum skilyrðum. Þegar tiltekið ríki hefur uppfyllt öll skilyrðin er því veitt leyfi til að taka upp evru. Gengi gjaldmiðils viðkomandi ríkis er þá endanlega fest við evru og tæknilegur undirbúningur fyrir gjaldmiðilsskiptin hefst. Kynningarstarf fer þá af stað í viðkomandi ríki til að upplýsa almenning um hvað sé í vændum. Kynningarbæklingar um sameiginlegu myntina eru sendir á öll heimili, verslanir og fyrirtæki byrja að umreikna verð sín yfir í evrur og tvöföld verðlagning hefst.

Seðlabanki viðkomandi ríkis fær fyrirfram ákveðið magn af evruseðlum að láni frá evrukerfinu og dreifir fénu til innlendra viðskiptabanka sem selja það síðan gegn eldri mynt á fyrrnefndu gengi eða lána það til söluaðila og annarra fyrirtækja þannig að þau geti gefið viðskiptavinum sínum til baka í evrum frá og með deginum sem evran er sett í almenna umferð. Það eru stjórnvöld tilvonandi evruríkis sem ákveða hversu langan tíma þau telja ríkið þurfa til að leggja niður fyrri gjaldmiðil og notast einungis við evru. Ný evruríki miða núorðið yfirleitt við tvær vikur frá því að evran er formlega tekin upp til að taka eldri gjaldmiðil úr umferð.

Einstaklingar geta skipt gamalli mynt og seðlum í almennum viðskiptabönkum innan ákveðins tíma endurgjaldslaust. Seðlabanki ríkisins tekur við gamla gjaldmiðlinum mun lengur.

This text will be replaced

Hægt er að lesa meira um gjaldmiðilsskipti tilvonandi evruríkis í svari við spurningunni Hvernig er gjaldmiðli í ESB-ríki skipt út fyrir evru?

Myndbandið er einnig aðgengilegt á YouTube-síðu Evrópuvefsins

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur 7.12.2012

Flokkun:

Evrópumál > Myndbönd

Tilvísun

Brynhildur Ingimarsdóttir. „Hvernig er gjaldmiðli í ESB-ríki skipt út fyrir evru? - Myndband“. Evrópuvefurinn 7.12.2012. http://evropuvefur.is/svar.php?id=63954. (Skoðað 18.4.2024).

Höfundur

Brynhildur Ingimarsdóttiralþjóðastjórnmálafræðingur og fyrrverandi verkefnastjóri á Evrópuvefnum

Við þetta svar er engin athugasemd Fela