Spurning

Hvað eru TAIEX-styrkir og hverjir geta sótt um þá?

Spyrjandi

Ritstjórn

Svar

Síðan sumarið 2010 hefur Íslandi staðið til boða svokölluð TAIEX-aðstoð Evrópusambandsins. Hún gengur fyrst og fremst út á að aðstoða umsóknarríki ESB við að undirbúa sig undir þær skuldbindingar sem aðild að Evrópusambandinu felur í sér. TAIEX snýst um að miðla starfsmönnum í stjórnsýslu umsóknarríkja nauðsynlegri þekkingu á löggjöf ESB, án tilkostnaðar fyrir sig eða sinn vinnuveitanda. Aðstoðin getur einnig snúist um að búa til tækifæri fyrir aðila í umsóknarríkjum til að læra af þeim sem best kunna til verka á tilteknum sviðum innan Evrópu. – Kostnaður við þátttöku í TAIEX-viðburðum er að öllu leyti greiddur af framkvæmdastjórn ESB. Stuðningurinn er þó aldrei veittur í formi fjárstyrkja; TAIEX-styrkir eru því í raun rangnefni.

***

Aðstoð ESB við umsóknarríki er margs konar og fellur að mestu undir svokallaða IPA-áætlun (e. Instrument for Pre-accession Assistance), sem byggist á stækkunarstefnu sambandsins. IPA-aðstoð er hægt að sækja eftir tveimur leiðum, annars vegar sem hluta af sérstökum IPA-landsáætlunum og hins vegar í gegnum fjölþegaáætlanir IPA (sjá nánar í svari við spurningunni Hvað eru IPA-styrkir og hverjir geta sótt um þá?). Ein slík áætlun er svokölluð TAIEX-aðstoð (e. Technical Assistance and Information Exchange Instrument).


TAIEX gengur út á að veita umsóknarríkjum aðstoð við að undirbúa sig undir þær skuldbindingar sem aðild að ESB felur í sér. Aðstoðin gengur fyrst og fremst út á að sérfræðingar úr stjórnsýslu aðildarríkjanna veiti starfsbræðrum og -systrum sínum í umsóknarríkjum ráðgjöf og þjálfun á þeim sviðum sem óskað er eftir. TAIEX getur einnig veitt starfsfólki í stjórnsýslu umsóknarríkja tækifæri til að kynnast þeim starfsháttum sem bestir þykja í aðildarríkjunum. Aðstoðin er sérstaklega hugsuð sem stuðningur við þá sem hafa með innleiðingu og framkvæmd löggjafar ESB að gera, svo sem starfsmenn ráðuneyta, stofanana ríkis og sveitarfélaga, samtaka sveitarfélaga, Alþingis, dómstóla og fagfélaga, sem koma fram fyrir hönd vinnumarkaðarins, fulltrúa stéttarfélaga og samtaka vinnuveitenda. TAIEX-aðstoð er ekki ætluð einstaklingum eða fyrirtækjum nema þau heyri undir framangreinda aðila.

Þeir sem vilja sækja um TAIEX-aðstoð á Íslandi gera það hjá skrifstofu landstengiliðs Íslands við Evrópusambandið sem staðsett er í utanríkisráðuneytinu. Þar er umsóknin metin og umsækjendum veitt ráðgjöf ef þörf er á. Síðan er umsóknin send til framkvæmdastjórnar ESB sem tekur endanlega ákvörðun um hvort aðstoð verði veitt. Átta til tólf vikur líða að jafnaði frá því að sótt er um aðstoð þangað til hún er veitt. Enginn skilafrestur er á umsóknum, aðstoðin stendur til boða á meðan umsóknarferlið varir.

TAIEX-aðstoð byggist á eftirspurn, það er að segja enginn fær TAIEX-aðstoð sem ekki hefur óskað eftir henni sjálfur. Aðstoðin þarf öll að tengjast regluverki ESB og eru umsóknir metnar fyrst og fremst út frá því hversu líklegt er að þeir viðburðir sem sótt er um verði til að auka þekkingu á þeirri löggjöf sem vísað er til í umsókninni. Hugmyndafræðin sem unnið er eftir er markmiðamiðuð, sem þýðir að samræmi þarf að vera á milli þeirra óska sem settar eru fram og þess árangurs sem vænst er.


Dæmi um TAIEX-viðburð þar sem sérfræðingar frá Belgíu, Bretlandi, Frakklandi, Írlandi, Litháen og Spáni miðla af reynslu sinni af öruggri meðferð geislavirks úrgangs til úkraínskra þátttakenda í sal.

Þegar Ísland sótti um aðild að Evrópusambandinu í júlí 2009 var hafist handa innan stjórnsýslunnar við að meta hvaða þekking væri þegar til staðar og á hvaða sviðum aðstoðar væri þörf til að geta sem best staðið vörð um hagsmuni Íslands og mætt þeim kröfum sem umsóknarferlið gerir til stjórnsýslunnar. Ljóst var að margir starfsmenn stjórnarráðsins og opinberra stofnana þyrftu að tileinka sér nýtt verklag að einhverju leyti.

Samningahópar sem starfa í tengslum við samningaviðræður Íslands við ESB hafa jafnframt borið saman löggjöf Íslands og ESB í því skyni að kortleggja það sem á milli ber. Framkvæmdastjórn ESB hefur auk þess framkvæmt sitt eigið mat á því á hvaða sviðum líklegast er að óskað verði eftir aðstoð. Það er þó ekki forsenda fyrir því að aðstoð sé samþykkt að hún tengist samningaviðræðunum beint, aðstoðin má einnig styðja við innleiðingu og framkvæmd gerða sem falla undir EES-samninginn.

Á Íslandi skiptist TAIEX-aðstoð annars vegar í skammtímaaðstoð og hins vegar í aðstoð til meðallangs tíma. Skammtímaaðstoðin felst yfirleitt í einum eða fleiri viðburðum eða verkefnum sem vara í einn til tíu vinnudaga. Til að koma til móts við aðstæður á Íslandi var sett á fót svokölluð TAIEX-aðstoð til meðallangs tíma. Hún felur í sér aðgang að sérfræðingi í allt að 120 vinnudaga, sem dreifast mega yfir árs tímabil, eða að raðað er saman nokkrum styttri atburðum, sem geta spannað jafnlangan tíma í heildina.

Aðstoðin fer yfirleitt fram á einhvern eftirfarandi hátt:

  1. Sem málstofa eða vinnufundur þar sem sérfræðingar frá aðildarríkjum ESB kynna fyrir þátttakendum ýmsar hliðar regluverks sambandsins. Misjafnt er hvort einblínt er á efni réttarreglnanna eða hvort sérfræðingarnir miðla af reynslu sinni til að koma á framfæri hagnýtum upplýsingum um framkvæmd þeirra.
  2. Sérfræðingur á tilteknu sviði kemur til landsins og veitir ráðgjöf um fyrirmyndar starfshætti eða leiðbeinir um innleiðingu tiltekinnar löggjafar ESB.
  3. Sérfræðingar sem starfa hjá stjórnsýslu aðstoðarþegans fara til einhvers aðildarríkjanna og kynna sér starfsemi, verklag og reynslu annarra á sínu sviði.


Kostnaður við þátttöku í TAIEX-viðburðum er að öllu leyti greiddur af framkvæmdastjórn ESB. Stuðningurinn er þó aldrei veittur í formi fjárstyrkja (TAIEX-styrkir eru því í raun rangnefni) heldur er greitt fyrir laun sérfræðinga sem leitað er til, ferðakostnað sérfræðinga og þeirra sem sækjast eftir aðstoð og fyrir húsnæði ef þörf er á slíku, hvort sem er til gistingar eða fundarhalda. Eins og öðrum fjölþegaáætlunum er TAIEX-áætluninni úthlutað tilteknu fjármagni til að standa fyrir viðburðum sem mörg ríki geta sóst eftir að taka þátt í. Íslandi hefur því ekki verið eyrnamerkt sérstök fjárupphæð til þátttöku í TAIEX-viðburðum heldur eru allar umsóknir metnar eftir þörfum ríkjanna.

TAIEX-aðstoð hefur staðið Íslendingum til boða síðan sumarið 2010 og hefur eftirspurnin aukist mikið milli ára. Um 1600 TAIEX-viðburðir eru skipulagðir árlega og er hægt að nálgast upplýsingar um þá á vefsíðu TAIEX. Öll ríki sem hafa sótt um aðild að ESB, þykja líkleg til að sækja um aðild eða hafa gert sérstaka samstarfssamninga við ESB geta sótt um TAIEX-aðstoð. 28 ríki hafa í dag aðgang að TAIEX-aðstoð.

Heimildir og myndir:

Við þetta svar er engin athugasemd Fela