Spurning

Hafa heildaralþjóðaviðskipti einstakra landa aukist eða minnkað við inngöngu í ESB?

Spyrjandi

Egill Almar Ágústsson

Svar

Almennt virðist reyndin vera sú að heildaralþjóðaviðskipti aðildarríkja Evrópusambandsins hafi aukist við inngöngu í sambandið. Sú var raunin í tilviki fjölmargra Mið- og Austur-Evrópulanda sem gengu í sambandið árið 2004. Hið sama má segja um mörg önnur aðildarríki, ef ekki öll.

***

Það er merkilegt að áhrif aðildar að Evrópusambandinu á heildaralþjóðaviðskipti aðildarríkjanna hafa ekki verið rannsökuð mikið á heildina litið, þótt rannsóknir á áhrifunum í einstökum löndum séu vissulega til. Áhrif aðildar ríkja að evrusvæðinu hafa hins vegar verið rannsökuð í þaula. Niðurstöður þeirra rannsókna eru í stuttu máli að innleiðing evrunnar hafi aukið viðskipti milli evruríkja um 10-15%, sem er talsvert minna en það sem fyrirfram var gert ráð fyrir (Frankel, 2008).

Sem dæmi um rannsóknir á áhrifum ESB-aðildar á viðskipti má þó til að mynda nefna Foster, Pindyuk og Richter (2011) sem fundu út að Visegrad-löndin (Pólland, Tékkland, Slóvakía og Ungverjaland) juku mjög viðskipti sín á milli í aðdraganda og í kjölfar Evrópusambandsaðildar árið 2004. Önnur rannsókn sem nefna má er Lejour, Solanic og Tang (2009) sem mátu það svo að viðskipti milli tveggja landa ykjust um 27% ef bæði væru aðilar að Evrópusambandinu.

Í ljósi þess að skortur er á rannsóknum á áhrifum Evrópusambandsaðildar á alþjóðaviðskipti ákvað höfundur að gera litla „rannsókn“ á þeim sjálfur. Notast er við gögn frá OECD um heildarvirði viðskipta landa sem hlutfall af landsframleiðslu (e. trade-to-GDP). Athugað er hvort Evrópusambandsaðild eða opnun markaðar almennt í kjölfar aðildar að Evrópska efnahagssvæðinu hafi haft jákvæð áhrif á heildarviðskipti með því að skoða gögn frá fimm löndum: Íslandi, Noregi, Svíþjóð, Finnlandi og Austurríki.

Kosturinn við að nota þessi lönd er að tiltölulega langt er síðan þau fengu aðild að innri markaðinum. Þau urðu aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu árið 1994, með gildistöku EES-samningsins, en Svíþjóð, Finnland og Austurríki gengu síðan í Evrópusambandið árið 1995. Gögn OECD ná yfir tímabilið 1970 til 2010 (frá 1955 í tilviki Svíþjóðar) og er því hægt að meta það með meiri nákvæmni í þessum ríkjum en flestum öðrum hvort aðild að hinum sameiginlega evrópska markaði hafi skipt einhverju máli.

Á fyrstu myndinni hér að neðan má sjá gögnin í heild. Eins og sjá má virðist hlutfall viðskipta af landsframleiðslu aukast eftir lóðréttu línuna sem er dregin árið 1994.


Mynd 1: Hlutfall heildaralþjóðaviðskipta (summa innflutnings og útflutnings) af landsframleiðslu hvers lands fyrir sig. Gögn frá OECD.

Til að kanna hvort aðild að Evrópusambandinu eða Evrópska efnahagssvæðinu hafi haft áhrif á heildaralþjóðaviðskipti landanna má gera lítið og einfalt próf.

Á mynd 2 hér að neðan hefur verið bætt bestu vísisvaxtar leitnilínum (e. exponential trendline) í gegnum gögnin fram til ársins 1995 og þær síðan framlengdar til ársins 2010. Gróflega má nota línurnar sem nokkurs konar „spá“ um það hvað hefði gerst ef Evrópusambandsaðild hefði ekki átt sér stað í tilviki Finnlands, Svíþjóðar og Austurríkis.


Mynd 2: Samanburður leitnilína og raungagna (Austurríki, Svíþjóð, Finnland).

Ef heila línan, það er gögnin eins og þau koma frá OECD, er fyrir ofan samlitaða brotalínu má draga þá ályktun að Evrópusambandsaðild hafi haft jákvæð áhrif á heildarviðskipti þessara landa. Ef heila línan væri fyrir neðan brotalínuna væri því öfugt farið.

Hið sama má að sjálfsögðu gera í tilviki Íslands og Noregs en þá eru skoðuð áhrifin af aðildinni að EES-samningnum árið 1994.


Mynd 3: Samanburður leitnilína og raungagna (Noregur, Ísland).

Eins og sjá má eru brotalínurnar í öllum tilvikum fyrir neðan heillínurnar. Ályktunin sem draga má af þessari sáraeinföldu rannsókn er því sú að aðild að Evrópusambandinu og Evrópska efnahagssvæðinu hafi haft jákvæð áhrif á heildarviðskipti landanna.

Á hinn bóginn er nauðsynlegt að slá þá varnagla við ályktunina að höfundur hefur ekki gert marktæknipróf á niðurstöðunum né magngert nákvæmlega hversu mikil áhrif aðild að ESB eða EES hafði á heildarviðskipti landanna sem um ræðir.

Heimildir:

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur23.11.2012

Tilvísun

Ólafur Margeirsson. „Hafa heildaralþjóðaviðskipti einstakra landa aukist eða minnkað við inngöngu í ESB?“. Evrópuvefurinn 23.11.2012. http://evropuvefur.is/svar.php?id=60261. (Skoðað 19.3.2024).

Höfundur

Ólafur Margeirssondoktorsnemi í hagfræði við háskólann í Exeter, Bretlandi

Við þetta svar er ein athugasemd Fela athugasemd

Magnús Bjarnason 23.11.2012

Þetta er góður pistill sem sýnir enn einu sinni að sameiginlegt efnahagssvæði og sameiginleg mynt eykur viðskipti alveg eins og Evrópumenn höfðu vonast til.

Ég vil svo gjarnan benda á að aukin viðskipti auka almenna velferð þar sem vörur verða frekar framleiddar þar sem það er hagstæðast. Sjálfsþurftarbúskapur og viðskiptatakmarkanir eru sjaldan til hagsbóta. 10-15% talan er í samræmi við fyrri rannsóknir, enda tekur a.m.k. 20 ár að ná fullum áhrifum myntbandalagsins.