Spurning

Hvernig mundi verðbólga hafa áhrif á íslenskan efnahag ef Ísland væri aðili að ESB og notaði evru í stað krónu?

Spyrjandi

Ómar Ómarsson

Svar

Áhrifin af verðbólgu yrðu í raun svipuð þeim sem nú eru til staðar með krónuna sem gjaldmiðil. Hins vegar yrði líklega erfiðara að mæta þeim áhrifum ef Íslendingar hefðu ekki lengur yfir eigin gjaldmiðli að ráða. Einmitt þess vegna er mikilvægt að verðbólga á Íslandi lækki, í sögulegu samhengi séð, gefi Íslendingar frá sér þann möguleika að stjórna eigin peningamálum.

Um áhrif aðildar Íslands að ESB og evru á verðbólgu á Íslandi hefur sami höfundur fjallað í svari við spurningunni Hver yrðu áhrif inngöngu Íslands í ESB á verðbólgu?

***

Hagsæld þjóða fer að mestu eftir tvennu: annars vegar getu þeirra til að framleiða vörur og veita þjónustu og hins vegar getu þeirra til að selja framleiðsluna, hvort heldur sem er innan landsteinanna eða utan. Geta þjóða til að selja framleiðslu sína er háð verði þeirrar vöru og þjónustu sem um ræðir. Því lægra sem verðið er þeim mun auðveldari er salan. Verðbólga, það er almenn hækkun verðlags, hefur að því leyti neikvæð áhrif á hagkerfi að hún skerðir getu þjóða til að selja framleiðslu sína vegna þess að hún hækkar í verði. Verðbólga skerðir hins vegar ekki getu þjóðarinnar til að framleiða vörur, að minnsta kosti ekki samstundis.


Verðbólga felur í sér að verðgildi peninga minnkar, það er að segja minna magn vöru og þjónustu fæst fyrir hverja krónu.

Íslendingar hafa eins og er stjórn á eigin peningamálum, það er þeir hafa eigin gjaldmiðil sem ekki er bundinn fastgengi við annan. Þegar verðbólga á sér stað í íslenska hagkerfinu og geta Íslendinga til að selja framleiðslu sína skerðist hafa Íslendingar það val að leyfa krónunni að falla í verði. Tilgangurinn með slíkri gengisveikingu er að lækka verð íslenskrar framleiðslu í erlendum gjaldmiðlum og auka þar með samkeppnishæfni hennar. Hinn kosturinn er að draga úr framleiðslukostnaði með það að markmiði að geta boðið vöruna á lægra verði án þess að nafngengi gjaldmiðilsins veikist. Hluti af þeirri aðgerð getur falist í því að lækka launakostnað, það er að segja upp starfsfólki og/eða lækka nafnlaun þeirra sem starfa við framleiðsluna.

Ef Íslendingar hefðu ekki stjórn á eigin peningamálum, það er ef krónan væri bundin óhagganlegu fastgengi við annan gjaldmiðil eða notast væri við erlendan gjaldmiðil sem lögeyri, þá væri ekki hægt að fella gengi krónunnar til að auðvelda sölu innlendrar framleiðslu.

Ef Íslendingar notuðust við evru og verðlag á Íslandi mundi hækka hlutfallslega meira en í helstu viðskiptalöndum Íslands þá yrði eini kosturinn í stöðunni að draga úr kostnaði við framleiðsluna, meðal annars með nafnlaunalækkun, til að geta boðið vöruna aftur á lægra verði. Slíkt er ekki jafn auðvelt og að leyfa krónunni að lækka í verði því öllu jafna er erfitt að lækka nafnlaun. Ástæðurnar fyrir því geta verið margvíslegar: til að mynda styrkur verkalýðsfélaga og sálfræðileg áhrif þess fyrir launþega að sjá nafnlaun sín lækka, sem hvort tveggja getur leitt til mikillar andstöðu við slík áform.

Hér er þó mikilvægt að hafa í huga þá svörun sem er á milli verðlags, launa og nafngengis gjaldmiðilsins. Falli nafngengi gjaldmiðilsins hækka innfluttar vörur, sem verðlagðar eru í erlendum gjaldmiðli, í verði og við það myndast kostnaðarverðbólga (innflutningsverðbólga). Ef þessar innfluttu vörur eru hluti af grunni svonefndrar verðlagsvísitölu, sem notuð er til að mæla þróun verðlags, veldur hækkun á verði þeirra almennri verðlagshækkun (verðbólgu). Þótt slíkar verðlagshækkanir á innfluttum vörum geti haft þau áhrif að neysla færist frá innfluttum vörum til vara sem framleiddar eru innan hagkerfisins, eins og tilgangurinn sumpart er, myndast einnig þrýstingur á vinnuveitendur að hækka nafnlaun svo þau haldi í við almennar verðlagshækkanir.

Þannig getur „ábatinn“, sem fólginn er í því að lækka verð innlendrar framleiðslu með því að leyfa nafngengi innlends gjaldmiðils að falla, þurrkast út eftir því sem nafnlaunahækkanir eiga sér stað í kjölfar falls nafngengis. Með öðrum orðum er fall nafngengisins í raun aðeins skammtímalausn. Þessi skammtímalausn getur þó verið hagstæð þar sem hún er mun auðveldari og skjótvirkari en handvirk lækkun nafnlauna. Mikill þrýstingur á lækkun nafnlaunakostnaðar getur þar að auki leitt til neikvæðrar verðbólgu (verðhjöðnunar). Stærsta hættan við slíkt ástand er að raungildi nafnskulda hækkar sem aftur getur valdið skuldakreppu.

Áhrifin af verðbólgu eru því almennt séð mjög svipuð hver sem gjaldmiðillinn er: það er erfiðara að selja innlenda framleiðslu innan sem utan landsteinanna og það hefur neikvæð áhrif á hagsæld viðkomandi þjóðar. Hins vegar er erfiðara að mæta því vandamáli ef sá möguleiki er ekki fyrir hendi að leyfa nafngengi gjaldmiðilsins að lækka, þótt slík aðgerð sé ekki varanleg lausn vegna krafna um nafnlaunahækkanir í kjölfarið.

Mynd:
Við þetta svar er engin athugasemd Fela