Spurning

Hvað er hagvöxtur?

Spyrjandi

Ingólfur Friðriksson, f. 1981

Svar

Eitt af einkennum efnahagslífs flestra ríkja undanfarna áratugi er að framleiðslugetan hefur vaxið frá ári til árs og þá um leið þjóðarframleiðslan. Með þjóðarframleiðslu er átt við heildarverðmæti allrar vöru og þjónustu sem þjóð framleiðir á einu ári. Ástæður vaxandi þjóðarframleiðslu eru margar, tækniframfarir auðvelda framleiðslu, aukið fjármagn safnast fyrir og vinnandi fólki fjölgar og verkkunnátta þess eykst. Mjög er þó misjafnt hversu ört þjóðarframleiðsla vex og mörg dæmi eru um að hún hafi dregist saman um tíma. Vöxtur þjóðarframleiðslu frá ári til árs nefnist hagvöxtur og er hann mældur í hundraðshlutum (prósentum). Ef þjóðarframleiðsla dregst saman er stundum talað um neikvæðan hagvöxt.

Stundum er miðað við landsframleiðslu en ekki þjóðarframleiðslu. Hagvöxtur er þá reiknaður sem vöxtur landsframleiðslu frá ári til árs. Nokkur munur er á þessum tveimur stærðum. Þannig teljast til dæmis tekjur útlendinga af eignum og vinnu á Íslandi ekki til þjóðartekna Íslendinga en til landsframleiðslu Íslands. Á sama hátt teljast tekjur Íslendinga af eignum og vinnu erlendis til þjóðartekna Íslendinga en ekki til landsframleiðslu Íslands.

Mörg álitamál koma upp við útreikning þjóðar- eða landsframleiðslu og niðurstaðan er ekki einhlítur mælikvarði á það hve vel efnahagslíf þjóðar eða lands gengur. Við útreikninginn er til dæmis ekki tekið tillit til vöru og þjónustu sem ekki er seld á markaði, tekjuskipting er ekki skoðuð og ekki er athugað hvort efnahagslífið leggur óhóflegar byrðar á umhverfið.

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur30.11.2000

Tilvísun

Gylfi Magnússon. „Hvað er hagvöxtur?“. Evrópuvefurinn 30.11.2000. http://evropuvefur.is/svar.php?id=1200. (Skoðað 28.3.2024).

Höfundur

Gylfi Magnússonprófessor í hagfræði við HÍ

Við þetta svar er engin athugasemd Fela