Hvenær varð Evrópa til?
Spyrjandi
Elín Kristjánsdóttir
Svar
Þessari spurningu er hægt að svara á nokkra vegu. Ef við lítum til jarðsögunnar má segja að Evrópa hafi myndast einhvern tíma frá lokum trías-tímabilsins, fyrir um 200 milljónum ára, fram til krítar-tímabilsins, fyrir um 65 milljónum ára. Hægt er að sjá ágæta skýringarmynd af myndun meginlandanna í svari við spurningunni Af hverju brotnaði Pangea upp? Hugmyndin um Evrópu og heiti álfunnar varð þó vitanlega til miklu seinna. Eins og fram kemur í svörum Sverris Jakobssonar við spurningunum Hvað merkir orðið Evrópa? og Hvaða fornu heimildir segja frá goðsögunni um Evrópu? var upprunalega vísað í hugtakið Evrópa í grískum goðsögum. Talið er að orðið Evrópa hafi hugsanlega merkt „meginland“ hjá Forn-Grikkjum en elsta dæmið um notkun Evrópu sem álfu er hjá Hekataiosi frá Míletos á 6. öld f.Kr. Forngríski sagnaritarinn Heródótos frá Halikarnassos (f. um 484 f.Kr) skipti svo heiminum í þrjár heimsálfur, það er Evrópu, Asíu og Líbíu (Afríku), en nánar er fjallað um það í svari við spurningunni Hvenær var heiminum fyrst skipt upp í heimsálfur? Þessi þrískipting heimsins var ríkjandi fram til loka 15. aldar þegar könnun Norður- og Suður-Ameríku hófst. Mörk Evrópu héldust þó lengur. Í norðri, vestri og suðri voru mörk Evrópu nokkuð ljós þar sem álfan lá að hafi en málið vandaðist hins vegar þegar kom að afmörkun hennar í austri. Samkvæmt Heródótosi voru mörk Asíu og Evrópu mörkuð af ánni Don í Úkraínu, sem þá var nefnd Tanais. Þessi mörk Evrópu í austri héldust fram til loka 17. aldar. Í upphafi 18. aldar vildi Pétur mikli, þáverandi keisari Rússlands, færa Rússland nær Evrópu og bað landfræðinginn Vassili Tatichtchev að færa mörk Evrópu austar. Tatichtchev ákvað þá að miða mörk Evrópu í austri við Úralfjöllin í Rússlandi.- Sverrir Jakobsson, „Hugmyndin um Evrópu fyrir 1800“, Ritið 3/2011, bls. 9-23.
- Evrópa - Wikipedia, frjálsa alfræðiritið. (Skoðað 19.11.2013).
- Comment délimiter le continent européen?. (Skoðað 18.11.2013).
- Géographie de l´Europe - Wikipédia. (Sótt 19.11.2013).
Um þessa spurningu
Dagsetning
Útgáfudagur29.11.2013
Flokkun:
Efnisorð
Evrópa heimsálfur goðsögur Grikkland meginland Hekataios Heródótos Asía Líbía mörk Don Tanais Úkraína Pétur mikli keisari Rússland Vassili Tatichtchev Úralfjöll
Tilvísun
Brynhildur Ingimarsdóttir. „Hvenær varð Evrópa til?“. Evrópuvefurinn 29.11.2013. http://evropuvefur.is/svar.php?id=11170. (Skoðað 6.12.2024).
Höfundur
Brynhildur Ingimarsdóttiralþjóðastjórnmálafræðingur og fyrrverandi verkefnastjóri á Evrópuvefnum