Spurning

Hvenær varð Evrópa til?

Spyrjandi

Elín Kristjánsdóttir

Svar

Þessari spurningu er hægt að svara á nokkra vegu. Ef við lítum til jarðsögunnar má segja að Evrópa hafi myndast einhvern tíma frá lokum trías-tímabilsins, fyrir um 200 milljónum ára, fram til krítar-tímabilsins, fyrir um 65 milljónum ára. Hægt er að sjá ágæta skýringarmynd af myndun meginlandanna í svari við spurningunni Af hverju brotnaði Pangea upp?

Hugmyndin um Evrópu og heiti álfunnar varð þó vitanlega til miklu seinna. Eins og fram kemur í svörum Sverris Jakobssonar við spurningunum Hvað merkir orðið Evrópa? og Hvaða fornu heimildir segja frá goðsögunni um Evrópu? var upprunalega vísað í hugtakið Evrópa í grískum goðsögum. Talið er að orðið Evrópa hafi hugsanlega merkt „meginland“ hjá Forn-Grikkjum en elsta dæmið um notkun Evrópu sem álfu er hjá Hekataiosi frá Míletos á 6. öld f.Kr.

Forngríski sagnaritarinn Heródótos frá Halikarnassos (f. um 484 f.Kr) skipti svo heiminum í þrjár heimsálfur, það er Evrópu, Asíu og Líbíu (Afríku), en nánar er fjallað um það í svari við spurningunni Hvenær var heiminum fyrst skipt upp í heimsálfur? Þessi þrískipting heimsins var ríkjandi fram til loka 15. aldar þegar könnun Norður- og Suður-Ameríku hófst.

Mörk Evrópu héldust þó lengur. Í norðri, vestri og suðri voru mörk Evrópu nokkuð ljós þar sem álfan lá að hafi en málið vandaðist hins vegar þegar kom að afmörkun hennar í austri. Samkvæmt Heródótosi voru mörk Asíu og Evrópu mörkuð af ánni Don í Úkraínu, sem þá var nefnd Tanais. Þessi mörk Evrópu í austri héldust fram til loka 17. aldar.

Í upphafi 18. aldar vildi Pétur mikli, þáverandi keisari Rússlands, færa Rússland nær Evrópu og bað landfræðinginn Vassili Tatichtchev að færa mörk Evrópu austar. Tatichtchev ákvað þá að miða mörk Evrópu í austri við Úralfjöllin í Rússlandi.


Evrópa og mörk hennar á þessu korti eru almennt viðurkennd í dag. Flatarmál Evrópu er um 10 milljón ferkílómetrar, nánar tiltekið 10.392.855 km2.

Í dag eru flestir landfræðingar sammála um að miða eystri mörk Evrópu við línu sem dregin er um austurhlíðar Úralfjalla og ána Úral að Kaspíahafi. Nánar er fjallað um landamæri Evrópu í svari við spurningunni Getið þið sagt mér hvar landamæri Evrópu liggja?

Heimildir og mynd:

Við þetta svar er engin athugasemd Fela