Spurning

Getið þið sagt mér hvar landamæri Evrópu liggja?

Spyrjandi

Auður Hreinsdóttir

Svar

Skipting þurrlendis jarðar í heimsálfur er ekki náttúrulögmál heldur eingöngu hugmyndir manna sem hafa þróast öldum saman og tekið breytingum í takt við breytingar á heimsmyndinni. Eins og með önnur mannanna verk er þessi skipting langt frá því að vera óumdeild. Það er ekki aðeins deilt um það hvar mörk á milli heimsálfa liggja heldur jafnvel um fjölda heimsálfanna, samanber svar við spurningunni Af hverju eru heimsálfurnar sjö?


Það er ekki til ein opinber og óumdeild skilgreining á því hvar mörk Evrópu liggja. Mörkin á þessu korti eru þó nokkuð almennt viðurkennd í dag. Vekja má athygli á því að landamæri ríkja og mörk heimsálfa falla ekki endilega saman og því getur eitt land tilheyrt tveimur heimsálfum.

Í stórum dráttum fylgja heimsálfurnar meginlöndum jarðar. Evrópa og Asía valda þó nokkrum vandræðum, þar sem Evrópa er ekki sjálfstætt meginland heldur skagi sem gengur út úr meginlandi Asíu. Hins vegar hefur skapast sú hefð að telja Evrópu og Asíu tvær aðskildar heimsálfur.

Á Vísindavefnum hefur þegar verið fjallað um hvaða lönd tilheyra Evrópu. Þar kemur fram að það fer nokkuð eftir því hvort einungis er horft til landfræðilegrar legu þegar Evrópa er skilgreind eða hvort einnig er litið til sögu og menningar þeirra landa sem lenda á jaðrinum, það er þeirra sem eiga land bæði í Evrópu og Asíu. Mörk heimsálfa fylgja ekki endilega landamærum ríkja, eins og lesa má í svari við spurningunni Hversu mörg ríki eru í fleiri en einni heimsálfu? Það sama má segja um eyríki sem eru í nágrenni tveggja heimsálfa, þar ræður hefð, sem grundvallast á sögu og menningu, oft meiru en landfræðileg lega.


Mörk Evrópu og Asíu hafa lengi verið nokkuð á reiki. Rauða línan sýnir þau mörk sem oftast er miðað við í dag. Gulu línurnar sýna önnur mörk sem hefur áður verið stuðst við. Útskýringar á þeim er að finna á Wikipediu ‒ sjá heimildaskrá.
Ef aðeins er horft til landfræðilegra þátta og eyjum sleppt, þá eru mörk Evrópu í norðri, vestri og suðri nokkuð ljós þar sem álfan liggur að hafi. Málið vandast aðeins þegar kemur að afmörkun hennar í austri. Mörk Asíu og Evrópu hafa löngum verið umdeild og er hægt að finna ýmsar útgáfur af þeim á kortum fyrri alda. Á kortinu hér til hliðar má sjá nokkrar útfærslur á þessum mörkum fyrri tíma og eru þau sýnd með gulum línum. Útskýringu á hverri línu fyrir sig er að finna á Wikipediu ‒ sjá heimild fyrir mynd hér að neðan.

Í dag eru þó flestir landfræðingar sammála um að miða mörk þessara tveggja heimsálfa við línu sem dregin er um austurhlíðar Úralfjalla og ána Úral að Kaspíahafi (rauða línan norðan Kaspíahafs á kortinu). Vestan Kaspíahafs hafa mörkin stundum verið sögð liggja um Kuma-Manych-lægðina að Asov-hafi og um Kerch-sund í Svartahaf (gula línan merkt A á kortinu). Miklu algengara er þó að láta mörkin fylgja vatnaskilum í KákasusfjöllumSvartahafi. Frá Svartahafi liggja mörkin svo um Bosporus- og Dardanellasund í Eyjahaf. Þessi mörk eru rauð á kortinu.

Heimildir og kort:

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur24.5.2013

Flokkun:

Evrópumál > ýmislegt

Tilvísun

EDS. „Getið þið sagt mér hvar landamæri Evrópu liggja?“. Evrópuvefurinn 24.5.2013. http://evropuvefur.is/svar.php?id=20755. (Skoðað 17.6.2024).

Höfundur

EDS

Við þetta svar er engin athugasemd Fela