Spurning

Hvað bjuggu margir í Evrópu árið 1000?

Spyrjandi

Thelma Dögg, f. 1991

Svar

Aðferðir til að gera sér grein fyrir fólksfjölda á liðinni tíð, áður en skráning hófst, byggjast einkum á mati á vistfræðilegum þáttum ásamt tæknistigi og atvinnuháttum samfélagsins. Samkvæmt þess konar aðferðum er talið að íbúar Evrópu árið 1000 hafi verið um 36 milljónir og um helmingur þeirra hafi búið við Miðjarðarhafið. Í svarinu er einnig lýst búskaparháttum á svæðinu og þróun þeirra.

***

Spurningunni um fjölda íbúa í Evrópu árið 1000 er ekki hægt að svara með vissu. Engum upplýsingum var þá safnað um fjölda íbúa. Á einstaka stað reyndu stjórnvöld að gera sér grein fyrir því hve margir skattgreiðendur væru í landinu og hve marga mætti kalla til að gegna herþjónustu. Um árið 1000 var þetta þó sannarlega engin almenn regla í Evrópulöndum, andstætt því sem til dæmis hafði tíðkast víða í Rómaveldi í fornöld og hafði verið nánast regla í elsta og stöðugasta heimsveldi sögunnar, Kína. Því er aðeins auðvelt að finna góðar mannfjöldatölur fyrir árið 1000 frá Kína.

Eigi að síður hafa margar tilraunir verið gerðar til að giska á það hvernig þróun mannfjöldans hafi gengið fyrir sig um heim allan allt frá upphafi. Þessar tilraunir byggjast á því að athuga vistfræði viðkomandi landa og það tæknistig sem ríkjandi var í atvinnuháttum þeirra, einkum í landbúnaði því þaðan kom maturinn, forsenda þess að fólk gat lifað. Gengið er almennt út frá því að mannfjöldinn hafi yfirleitt náð því hámarki sem ríkjandi vistfræði og tækni í matvælaframleiðslu leyfði, en þó er tekið tillit til fleiri þátta eins og fólksfækkunar vegna drepsótta eða styrjalda. Og svo eru auðvitað þær örfáu skriflegu heimildir sem við höfum um skattgreiðendur og hermenn nýttar til hins ítrasta. Nokkuð er líka um upplýsingar sem við höfum fengið frá fornleifafræði, til dæmis um hvar fólk bjó.


Tilraunir til að giska á hvernig þróun mannfjöldans hafi gengið fyrir sig um heim allan allt frá upphafi byggjast á því að athuga vistfræði viðkomandi landa og það tæknistig sem ríkjandi var, einkum í landbúnaði. Myndin er frá upphafi 14. aldar.

Aðgengilegasta rit sem við höfum um mannfjöldaþróun í heiminum öllum allt frá upphafi, er Atlas of World Population History, sem kom út hjá Penguin Books 1978. Höfundarnir, Colin McEvedy og Richard Jones, fylgdu fyrrnefndum forsendum út í æsar og nýttu raunar reiknað hámark matvælaframleiðslu sem skýlaust leiðarljós um hámarksmannfjölda hverju sinni. En gallinn er að við höfum mjög óljósa þekkingu um hámark matvælaframboðs víða um heim fyrr á öldum. Mesta óvissan í spádómum þeirra er á við um landsvæði eins og Ameríku fyrir árið 1500. Hjá þeim gætir fullmikillar vissu um góð áhrif evrópskrar og kristinnar menningar á kostnað til dæmis menningar múslíma, svertingja sunnan Sahara og frumbyggja Ameríku fyrir 1500; sagnfræðihugmyndir þeirra eru þannig á ýmsan hátt gamaldags. Eigi að síður má styðjast við bók þeirra, einkum ef fyrrgreindir fyrirvarar eru hafðir í huga enda er slíkt oft gert í sagnfræðiumræðu. Mun ég gera slíkt hið sama hér á eftir.

Að mati þeirra McEvedy og Jones voru íbúar Evrópu 36 milljónir árið 1000. Um helmingur þeirra bjó í löndum við Miðjarðarhafið, tiltölulega fátt fólk bjó norðar í álfunni. Þetta var þó mikil breyting frá tímum Rómveldis en að mati McEvedy og Jones bjó um 70% Evrópumanna við Miðjarðarhafið árið 200 e.Kr. Þessar 36 milljónir voru um 13% allra íbúa jarðar um árið 1000. Á þessum tíma bjuggu um 66 milljónir manna í Kínaveldi og að mati þeirra félaga um 79 milljónir í Indlandi (hér eru þrjú ríki nútímans talin til Indlands, Pakistan, Bangladess og hið eiginlega Indland), samanlagt í Kína og Indlandi þannig um 54% alls mannkyns árið 1000. Um 39 milljónir bjuggu þá í Afríku norðan Sahara og í Vestur-Asíu, eða um 15% alls mannkyns. 82% alls mannkyns bjó þannig á fjórum svæðum á jarðarkringlunni, í Evrópu, löndum sunnan og austan Miðjarðahafs, Indlandi og Kína.

Akuryrkja, helsta forsenda matvælaframleiðslu á þessum tíma, var í Evrópu einkum rekin á tvennan hátt fram eftir öldum. Annars vegar, við Miðjarðarhafið og í Vestur-Asíu, var sama landið plægt reglubundið, einkum á haustin, ár hvert, og sáð þá í akrana. Aðeins léttur plógur eða hlújárn var notað við plæginguna enda jarðvegur að mestu leyti létt eldfjallaefni. Vaxtartími sáðjurta var um veturinn þegar næg úrkoma var á þessum slóðum. Þessi tækni hafði þegar nýst til fullnustu á tímum Rómaveldis og ekki var hægt að auka matvælaframleiðslu þar að ráði meðan þetta tæknistig hélst svo til óbreytt, sem það gerði allt fram á 18. öld.

Norðar í Evrópu höfðu allt frá ísöld, fyrir 8.000-10.000 árum, vaxið miklir skógar sem höfðu mótað jarðveginn þannig að hann var þykkur og þungur. Mikið verk var að ryðja skóg og raunar réðu íbúarnir lengi vel ekki við að plægja þennan þunga jarðveg. Algengast var að skógur væri brenndur og askan síðan notuð sem áburður fyrir nytjajurtir. Samtímis þessari akuryrkju var rekinn talsverður húsdýrabúskapur enda gnægð beitilands. Einnig lifðu íbúarnir mjög á veiðum. Akuryrkja þessi nefndist brunaruðningsræktun og var ríkjandi í vestur-, austur- og norðurhlutum Evrópu langt fram eftir öldum. Þegar landið var orðið næringar- og áburðarlaust, var nýr skógur brenndur þannig að bændur fluttu sig stöðugt um set. Þessi frumstæða gerð landbúnaðar hafði í för með sér dreifða byggð og fámenna.


Fyrstu dráttardýrin fyrir þunga plóga í evrópskum landbúnaði voru uxar. Seint á miðöldum fóru hestar að leysa þá af hólmi og voru mun hentugri til verksins.

Um og eftir 800-1000 var farið að taka í notkun nýja og fullkomnari tækni í landbúnaði á fyrrgreindum svæðum Evrópu. Smíðaður var þungur margblaða plógur sem gat plægt þennan forna jarðveg og var venjan að beita fyrir slíkan plóg átta uxum. Þetta gjörbreytti evrópskum landbúnaði. Bændaþorp mynduðust því að bændur þurftu að vinna saman við plæginguna vegna dýrra atvinnutækja. Samtímis stórjókst framleiðni og framleiðsla í landbúnaði. Þó tók sinn tíma að koma þessari tækninýjung á; þeir sem ruddu brautina voru íbúar Norður-Frakklands og Þýskalands. Í kjölfarið, um og skömmu eftir 1100, komu íbúar Bretlandseyja, sunnanverðra Norðurlanda og Austur-Evrópu.

Í framhaldi af þessari tæknibyltingu átti sér stað mikil fólksfjölgun í Evrópu utan Miðjarðarhafssvæðisins. Á árunum 1000-1350 fjölgaði íbúum álfunnar úr 36 milljónum í 80 milljónir. Íbúar Evrópu voru 1350 um 22% af öllum áætluðum fólksfjölda heimsins í stað 13% árið 1000 og voru orðnir jafnfjölmennir og Kínverjar og Indverjar hvorir um sig. Mest var fjölgunin í Austur-Evrópu, meðal Rússa og Pólverja. Sú fjölgun hélt áfram eftir 1350 þegar tímabundin stöðnun kom á fólksfjölgun annars staðar í álfunni.

Mynd:

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur 2.7.2003

Tilvísun

Gísli Gunnarsson (1938-2020). „Hvað bjuggu margir í Evrópu árið 1000?“. Evrópuvefurinn 2.7.2003. http://evropuvefur.is/svar.php?id=3548. (Skoðað 12.10.2024).

Höfundur

Gísli Gunnarsson (1938-2020)prófessor emeritus í sagnfræði við HÍ

Frekara lesefni á Evrópuvefnum:

Við þetta svar er engin athugasemd Fela