Spurning

Hvenær var heiminum fyrst skipt upp í heimsálfur?

Spyrjandi

Ritstjórn

Svar

Elsta dæmið um skiptingu heimsins í álfur er hjá Hekataiosi frá Míletos á 6. öld f.Kr. en hjá honum voru álfurnar tvær, Evrópa og Asía.1 Á dögum Heródótosar sagnaritara var hins vegar heiminum skipt í þrennt, Evrópu, Asíu og Líbýu.2 Líklega hafði Heródótos nokkur áhrif á að þrískiptingin varð ríkjandi til að lýsa álfuskiptingu heimsins í ljósi þess að stundum var rætt um tvær eða fjórar álfur. Sjálfum þótti föður sagnfræðinnar skiptingin þó órökrétt þar sem lönd þessara hluta væru í rauninni ein heild og óljóst hvernig flokka ætti Egyptaland. Eigi að síður lýsir hann skiptingu sem virtist hafa unnið sér nokkurn hefðarrétt þó að því færi fjarri að allir höfundar landalýsinga væru á einu máli.

Samkvæmt Heródótosi mynduðu Evrópa og Asía andstæður með svipuðum hætti og Grikkir og Persar. Skýring hans á táknsögunni um brottnám Evrópu setur þessa tvíhyggju í langt sögulegt samhengi þar sem rakinn er óslitinn þráður frá dögum Trójustríðsins og fram til hans eigin daga. Akkear Trójustríðsins verða þá að Grikkjum 5. aldar og Persar að arftökum Trójumanna.


Á myndinni, sem er frá 16. öld, sést gríski landfræðingurinn Strabon halda á hnetti sem sýnir Evrópu og Asíu.

Þessar andstæður taka þó ekki mið af þeim heimi Grikkja sem hafði mótast á 6. og 7. öld f.Kr. Lönd Grikkja voru einnig í Asíu og sjálfur var Heródótos upprunninn þaðan, frá borginni Halikarnassos í Jóníu. Hugmyndin um að Persar telji sig eina eiga að ráða Asíu mótast af stríðum Aþeninga við Persakóngana Dareios og Xerxes á árunum 500-479 f.Kr. þar sem Aþeningar og bandamenn vörðust persneskri heimsvaldastefnu og gerðust þá jafnframt merkisberar sérstöðu Grikkja gagnvart Persum.3 Jafnframt verða til hugmyndir um „asíska eiginleika“ Persaveldis, meðal annars ríkidæmi og viðhöfn en einnig einræði og kúgun, í andstöðu við það sem einkenndi hin ólíku samfélög Grikkja, svo sem meinlæti Spartverja og lýðræðis- og jafnaðarhefð Aþeninga.

Andstæðurnar Evrópa og Asía verða til í þessu tiltekna samhengi og á 4. og 5. öld hafði umræða um þær pólitískt innihald; stuðningsmenn Makedóníukonunga litu til dæmis á veldi þeirra sem mótvægi við hið asíska Persaveldi.4 Þessi tvíhyggja missti alla pólitíska og hugmyndalega merkingu eftir daga Alexanders mikla þegar hellenísk ríki skutu rótum í öllum heimsálfunum þremur. Á meðan grískumælandi arftakar Alexanders ríktu á Grikklandi, í Sýrlandi og í Egyptalandi virtist það sem sameinaði álfurnar vera mun meira en það sem aðgreindi þær. Hellenísku ríkin lutu að lokum í lægra haldi fyrir heimsveldi Rómverja, sem tóku ekki einungis við pólitísku forræði um allt Miðjarðarhaf heldur gerðust einnig vörslumenn hinnar klassísku grísku menningar sem blandaðist hinni rómversku. Stundum er litið á Rómarveldi sem dæmi um evrópskt stórveldi en miðja þess var Miðjarðarhafið (sem Rómverjar kölluðu mare nostrum) og þá ekki síður Afríku- og Asíuhluti þess. Í ritum rómverskra landfræðinga er lítill eðlismunur á Evrópu og öðrum heimsálfum; þeir litu ekki á útþenslu Rómaveldis sem sókn Evrópu enda þótt þeir væru oft tortryggnir á erlenda siði og lifnaðarhætti, þar á meðal austurlenska.5

Tilvísanir:

1 Sjá Peter H. Gommers, Europe. What´s in a Name?, bls. 60-61.

2 Herodoti Historiae, II. 16.

3 Herodoti Historiae, I. 4.

4 Sjá Arnaldo Momigliano, „L´Europa come concetto politico presso Isocrate e gli Isocratei“, Rivista di filologia e d´istruzione classica 61/1993, bls. 477-487.

4 Sjá Pim den Boer, „Europe to 1914: The Making of an Idea“, The History of the Idea of Europe, ritstj. Kevin Wilson og Jan van der Dussen, London og New York: Routledge, 1995 [1993], bls. 13-82, hér bls. 18-19.

Mynd:


Þetta svar er fengið úr greininni „Hugmyndin um Evrópu fyrir 1800“, Ritið 3/2011, bls. 9-23 og birt með góðfúslegu leyfi höfundar.

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur18.11.2013

Tilvísun

Sverrir Jakobsson. „Hvenær var heiminum fyrst skipt upp í heimsálfur?“. Evrópuvefurinn 18.11.2013. http://evropuvefur.is/svar.php?id=66136. (Skoðað 6.10.2024).

Höfundur

Sverrir Jakobssonprófessor í miðaldasögu við HÍ

Við þetta svar er engin athugasemd Fela