Spurning

Er ekki rétt skilið að tollar á vörum milli ESB-ríkja falla niður við inngöngu í ESB, til dæmis þegar vara er pöntuð á Netinu?

Spyrjandi

Finnur Pálmi Magnússon, Guttormur Helgi Jóhannesson

Svar

Jú, þetta er rétt skilið. Innflutningstollar á vörum sem fluttar eru inn til landsins frá ESB-ríkjum mundu falla niður við aðild Íslands að ESB, það er að segja þeir tollar sem ekki hafa verið afnumdir nú þegar með EES-samningnum. Þetta gildir hvort sem vörurnar eru pantaðar á Netinu, í gegnum síma eða einstaklingar ferðast með þær sjálfir yfir landamæri. Á vörur frá ríkjum utan ESB yrðu hins vegar lagðir tollar í samræmi við sameiginlega tollskrá ESB.

***

Evrópusambandið er tollabandalag. Í sáttmálanum um starfshætti Evrópusambandsins (SSE) segir að tollar á innflutning og útflutning, svo og gjöld sem hafa samsvarandi áhrif, séu bannaðir milli aðildarríkjanna (30. grein). Meginreglan er því sú að ekki eru lagðir tollar á vörur sem fluttar eru milli ríkja sambandsins en það er grunnforsenda þess að vöruflæði sé frjálst innan sambandsins.



Bannað er að leggja tolla á viðskipti með vörur milli aðildarríkja ESB.

Neytendur í tilteknu aðildarríki ESB geta því keypt til einkanota flestallar vörur frá öðrum aðildarríkjum, hvort sem þær eru framleiddar innan ESB eða ekki, án þess að greiða aðflutningsgjöld (tolla, vörugjöld, virðisaukaskatt heimalands). Þess í stað greiða þeir sömu skatta og gjöld og tíðkast í því landi sem varan er pöntuð frá, þar á meðal virðisaukaskatt sölulands. Um breytingar á fyrirkomulagi virðisaukaskattinnheimtu er fjallað nánar í svari við spurningunni Hvað mundi breytast við aðild að Evrópusambandinu varðandi póstverslun?

Undanþegið þessari almennu reglu er áfengi, tóbak og ökutæki. Söluaðilum áfengis og tóbaks innan ESB er skylt að standa skil á áfengis- og tóbaksgjaldi til ríkissjóðs í samræmi við lög sérhvers aðildarríkis. Hvað bifreiðar varðar eru vörugjöld og virðisaukaskattur greidd við skráningu ökutækja. Einstaklingar þurfa því ætíð að greiða áfengis- og tóbaksgjöld og vörugjöld á bifreiðar til ríkissjóðs síns lands.

Það sama gildir um innflutning í viðskiptatilgangi, það er að segja vörur sem ætlaðar eru til endursölu eða til notkunar við atvinnustarfsemi. Í slíkum tilfellum ber innflytjanda vöru að greiða af henni virðisaukaskatt til skattstjóra þess aðildarríkis sem flutt er inn til, líkt og gengur og gerist í viðskiptum innanlands. Virðisaukaskattsstig er mismunandi frá einu aðildarríki ESB til annars, þó hvergi lægra en 15% né hærra en 27%.

Um tilteknar vörur gildir að þær má aðeins flytja milli aðildarríkja ESB að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, til dæmis að fyrirfram fengnu leyfi eða með því að uppfylla sérstök flutningsfyrirmæli. Þetta á helst við um vörur eins og vopn, skotfæri, flugelda og menningarverðmæti.

Ekki eru gerðar tollskýrslur við flutning sambandsvara á milli aðildarríkja ESB, það er vara sem upprunnar eru innan ESB eða hafa verið tollafgreiddar inn á ESB-svæðið og eru í frjálsu flæði. Gjaldtaka fyrir aðflutningsskýrslur (tollskýrslugjald) vegna innflutnings frá löndum ESB mundi því falla niður með aðild að sambandinu. Af vörum sem keyptar eru frá ríkjum utan ESB yrði hins vegar innheimtur tollur í samræmi við sameiginlega tollskrá Evrópusambandsins. Sá tollur rynni að langmestu leyti (75%) í sameiginlega sjóði Evrópusambandsins en innheimtir tollar aðildarríkja ESB nema tæpum 15% af heildartekjum sambandsins.

Rétt er að taka fram að á grundvelli EES-samningsins, sem er fríverslunarsamningur EFTA/EES-ríkjanna við aðildarríki Evrópusambandsins, njóta Íslendingar nú þegar mikilla tollfríðinda í viðskiptum við aðildarríki sambandsins.

Heimildir og mynd:

Upprunaleg spurning:

Í dag þegar við pöntum af Netinu greiðum við sérstakt tollskýrslugjald og tolla af vörum sem oftar en ekki eru reiknaðir ofan á flutningskostnað. Er það ekki alveg örugglega rétt skilið að við inngöngu í ESB fellur allt þetta niður af vörum sem pantaðar eru innan sambandsins og ég greiði einungis andvirði vörunnar og sendingarkostnað?

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur 3.10.2011

Tilvísun

Þórhildur Hagalín. „Er ekki rétt skilið að tollar á vörum milli ESB-ríkja falla niður við inngöngu í ESB, til dæmis þegar vara er pöntuð á Netinu?“. Evrópuvefurinn 3.10.2011. http://evropuvefur.is/svar.php?id=60141. (Skoðað 9.9.2024).

Höfundur

Þórhildur HagalínEvrópufræðingur og fyrrverandi ritstjóri Evrópuvefsins

Við þetta svar er engin athugasemd Fela