Spurning

Ver Evrópusambandið meiru fé til kynningarmála en Coca-Cola?

Spyrjandi

G. Pétur Mattí­asson, Elvar Örn Arason

Svar

Víða heyrist sú fullyrðing að Evrópusambandið verji meiri fjármunum í kynningar á sér en gosdrykkjaframleiðandinn Coca-Cola. Hún á rætur að rekja til skýrslu bresku samtakanna Open Europe frá árinu 2008. Höfundar skýrslunnar halda því fram að kostnaðarliðir sambandsins af ýmsu tagi séu í raun hluti af kynningarstarfinu. Í skýrslunni er til að mynda sagt að mennta- og menningarmál séu hluti af áróðurskostnaði sambandsins til að réttlæta eigin tilvist. Það verður að teljast afar hæpið að leggja kostnað sambandsins við verkefni sem tengjast menntamálum að jöfnu við gosdrykkjaauglýsinar sem hafa það eina markmið að selja meira gos. Styrkur til háskólanema til að stunda háskólanám í öðru landi hefur talsvert fleiri markmið en einungis að réttlæta tilvist Evrópusambandsins.

***

Ætla má að tilefni þess að svo er spurt séu ummæli Gunnars Braga Sveinssonar utanríkisráðherra sem féllu í Kastljósþætti Ríkissjónvarpsins þann 13. janúar 2014. Í viðtali við fréttamanninn Helga Seljan fullyrti Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra:
Evrópusambandið setur meiri fjármuni í kynningar á sér heldur en Coca-Cola, þannig að ég held að Evrópusambandið hefði nú beitt sér af miklum krafti til að ná hér þeirri niðurstöðu sem mundi þóknast því. (16:51)

Eins og rakið hefur verið í fjölmiðlum má gera ráð fyrir því að fullyrðing Gunnars Braga vísi til skýrslu sem gefin var út af bresku samtökunum Open Europe í lok árs 2008. Open Europe eru samtök efasemdamanna um Evrópusamrunann (e. eurosceptics) sem telja samrunann þegar hafa gengið of langt og eru gagnrýnir á stefnu Evrópusambandsins um „stöðugt nánara samband“. Markmið þeirra er ekki að berjast gegn aðild Bretlands að Evrópusambandinu heldur hafa þau þá sýn að sambandið verði í framtíðinni sveigjanlegra, minna að umfangi og opnara.


Auglýsingaskilti frá gosdrykkjaframleiðandanum Coca-Cola í Sanlitun í Kína.

Í umræddri skýrslu samtakanna kemur fram að árið 2008 hafi Evrópusambandið varið 2,4 milljörðum evra hið minnsta til kynningar á sjálfu sér og markmiði sínu um „stöðugt nánara samband“ og að þetta sé meira en Coca-Cola eyði á hverju ári í auglýsingar á heimsvísu.

Fyrir það fyrsta er rétt að þegar skýrslan kom út hafði Coca-Cola aldrei varið meira en 2,4 milljörðum evra í auglýsingar á ári á heimsvísu. Ef marka má heimildir á Netinu nam heildarkostnaður fyrirtækisins við auglýsingar í prentmiðlum, útvarpi, sjónvarpi og á Netinu tæpum 2,2 milljörðum evra (um það bil þremur milljörðum dala) árið 2008. En hvað er það í fjárlögum Evrópusambandsins sem beinlínis er sambærilegt auglýsingakostnaði stórfyrirtækis?

Í skýrslu Open Europe kemur fram að sambandið verji mun meira fé í kynningar á sjálfu sér en því sem beinlínis er úthlutað til kynningar- og útgáfustarfs framkvæmdastjórnarinnar, Evrópuþingsins og annarra stofnana. Meðal fjölmargra annarra kostnaðarliða sem taldir eru upp í skýrslunni eru til að mynda mennta- og menningaráætlanir Evrópusambandsins að mestu eða öllu leyti, samtals 1,3 milljarðar evra eða rúmur helmingur heildarútgjalda til kynningarmála samkvæmt skýrsluhöfundum. Rök höfundanna eru þau að fjárframlög til málaflokka eins og mennta- og menningarmála séu hluti af áróðurskostnaði sambandsins til að réttlæta eigin tilvist. – Athygli vekur að hinir svokölluðu IPA-styrkir, sem í umræðunni á Íslandi hafa stundum verið kallaðir mútur, eru ekki taldir til áróðurskostnaðar sambandsins og er hvergi minnst á þá í skýrslunni.

Óumdeilt er að Evrópusambandið ver háum fjárhæðum á ári hverju til ýmiss konar verkefna, svo sem nemenda- og kennaraskipta, æskulýðsverkefna og margra annarra, sem meðal annars hafa þann tilgang að efla vitund sambandsborgaranna fyrir því sem er samevrópskt og styrkja samstöðu þeirra. Óumdeilt er einnig að samstaða borgara aðildarríkjanna og samkennd þeirra hver með öðrum eru mikilvægar forsendur fyrir „stöðugt nánara sambandi“ aðildarríkjanna. Og eðlilega er ráðstöfun svo mikils fjár til slíkra verkefna umdeild. Þrátt fyrir það er hæpið að leggja kostnað sambandsins við verkefni eins og þau sem styrkt eru af menntaáætluninni að jöfnu við gosdrykkjaauglýsingar. Kókauglýsing í kvikmyndahúsi hefur einn tilgang og aðeins einn: að fá neytendur til að kaupa kók. Styrkur til háskólanema til að stunda nám í eina önn við háskóla í öðru landi hefur hins vegar talsvert fleiri markmið en einungis að réttlæta tilvist Evrópusambandsins.

Að þessu sögðu má ljóst vera að samanburður Open Europe á útgjöldum Evrópusambandsins og Coca-Cola til kynningarmála er villandi og að kostnaður Evrópusambandsins við kynningar á sjálfu sér, sambærilegar við vöruauglýsingar, er ekki hærri en auglýsingakostnaður Coca Cola.

Heimildir:

Mynd:


Höfundur þakkar Jóni Gunnari Þorsteinssyni og Þorsteini Vilhjálmssyni fyrir gagnlegar ábendingar við gerð þessa svars.

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur17.1.2014

Flokkun:

Evrópumál > Stofnanir

Tilvísun

Þórhildur Hagalín. „Ver Evrópusambandið meiru fé til kynningarmála en Coca-Cola?“. Evrópuvefurinn 17.1.2014. http://evropuvefur.is/svar.php?id=66607. (Skoðað 20.7.2024).

Höfundur

Þórhildur HagalínEvrópufræðingur og fyrrverandi ritstjóri Evrópuvefsins

Við þetta svar er engin athugasemd Fela