Spurning

Efnahags- og félagsmálaráð SÞ

Spyrjandi

Evrópuvefur

Svar

Efnahags- og félagsmálaráð Sameinuðu þjóðanna (e. United Nations Economic and Social Council, ECOSOC) er skipað fulltrúum 54 ríkja sem valdir eru á allsherjarþinginu eftir landsvæðum til þriggja ára í senn. Afríka hefur fjórtán fulltrúa, Asía ellefu, Austur-Evrópa sex, Suður-Ameríka og lönd í Karíbahafinu hafa tíu og Vestur-Evrópa og önnur lönd þrettán. Ráðið heldur mánaðarlangt þing í júli á ári hverju, til skiptis í New York og Genf. Ákvarðanir ráðsins eru teknar með meirihluta greiddra atkvæða.

Efnahags- og félagsmálaráðið er aðalvettvangur málefna Sameinuðu þjóðanna er viðkoma efnahags- og félagsmálum. Hlutverk þess er að efla lífsgæði, atvinnu og efnahags- og félagslega þróun. Þá á ráðið að leysa alþjóðleg félagsleg, efnahags- og heilbrigðisvandamál og stuðla að virðingu fyrir mannréttindum og frelsi fólks.

Yfirgripsmikið starf efnahags- og félagsmálaráðsins skiptist í nokkrar nefndir eftir málefnum. Þær eru:

  • Mannréttindanefnd.
  • Fíkniefnanefnd.
  • Nefnd um félagslega þróun.
  • Nefnd um mannfjölda og þróun.
  • Nefnd um stöðu kvenna.
  • Nefnd um tölfræðileg málefni.
  • Nefnd um varnir gegn glæpum og réttláta meðferð sakamála.
  • Nefnd um sjálfbæra þróun.
  • Nefnd um vísinda- og tækniþróun.

Á vettvangi efnahags- og félagsmálaráðsins starfa auk þess nokkrar svæðisbundnar nefndir sem fást við mál tengd mismunandi landfræðilegum svæðum.
Við þetta svar er engin athugasemd Fela