Spurning

Hver er afstaða ESB til kjarnorkuvopna og hvaða aðildarríki ESB eiga kjarnorkuvopn?

Spyrjandi

Ívar Daði Þorvaldsson

Svar

Evrópusambandið hefur ekki mótað heildstæða stefnu um kjarnorkuvopn þar sem afstaða aðildarríkjanna er mjög mismunandi. Sum aðildarríki treysta á kjarnorkuvopn til að tryggja öryggi sitt á meðan önnur telja kjarnorkuvopn ógna öryggi. Þau ESB-ríki sem einnig eru aðilar að NATO samþykkja að einhverju leyti jákvætt hlutverk kjarnorkuvopna í öryggismálum, þar sem þau styðja sérstaka stefnu NATO í kjarnorkumálum. Önnur ESB-ríki, eins og Írland og Svíþjóð, sem hafa lýst yfir hlutleysi, vilja útrýmingu kjarnorkuvopna í heiminum.

Evrópusambandið hefur beitt sér í þessum málaflokki, meðal annars með því að samþykkja sérstaka öryggisáætlun (e. European Security Strategy) árið 2003 sem skilgreinir hryðjuverk og útbreiðslu gereyðingarvopna sem tvær helstu ógnirnar við alþjóðaöryggi. Margir telja að öryggisáætlunin hafi helst átt að gegna því markmiði að vera einhvers konar tákn um evrópska samstöðu eftir klofninginn sem varð milli ESB-ríkjanna í afstöðunni til hernaðaríhlutunar í Írak, en sambandinu mistókst að koma sér saman um sameiginlega afstöðu í því máli. Evrópska öryggisáætlunin útfærir til að mynda enga sérstaka sýn á hvernig Evrópusambandið geti varist nýjum hættum kjarnorkuvopna eða brugðist við útbreiðslu þeirra.


Franska flugmóðurskipið Charles de Gaulle (til hægri) og bandaríska flugmóðurskipið USS Enterprise (til vinstri) sem bæði eru kjarnorkuknúin.

Tvö aðildarríki ESB, Bretland og Frakkland, eru viðurkennd kjarnorkuveldi. Bretland var þriðja ríkið í heiminum (á eftir Bandaríkjunum og Sovétríkjunum) til að prófa kjarnorkuvopn. Fyrsta tilraunasprenging Breta fór fram 3. október 1952 í Ástralíu. Talið er að Bretland búi yfir 225 kjarnavopnum í dag. Frakkland var fjórða ríkið í heiminum til að þróa og prófa kjarnorkuvopn. Frakkar sprengdu fyrstu tilraunasprengju sína 13. febrúar 1960 í suðurhluta Alsír, við Tanezrouft-eyðimörkina. Talið er að Frakkland búi yfir um 300 kjarnavopnum í dag.

Fjögur NATO/ESB-ríki hýsa þar að auki bandarísk kjarnorkuvopn. Þau eru Belgía, Holland, Ítalía og Þýskaland.

Heimildir og mynd:

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur21.3.2014

Tilvísun

Brynhildur Ingimarsdóttir. „Hver er afstaða ESB til kjarnorkuvopna og hvaða aðildarríki ESB eiga kjarnorkuvopn?“. Evrópuvefurinn 21.3.2014. http://evropuvefur.is/svar.php?id=65966. (Skoðað 21.5.2024).

Höfundur

Brynhildur Ingimarsdóttiralþjóðastjórnmálafræðingur og fyrrverandi verkefnastjóri á Evrópuvefnum

Við þetta svar er engin athugasemd Fela