Spurning

Standast heilsuræktarstöðvar sem einungis eru ætlaðar öðru kyninu lög og reglur Evrópusambandsins um jafnrétti kynjanna?

Spyrjandi

N.N

Svar

Jafnrétti kynjanna er grundvallarregla í Evrópusambandinu. Mismunun á grundvelli kyns, hvort sem hún er bein eða óbein, er því almennt bönnuð í aðildarríkjum þess. Evrópusambandið hefur samþykkt ýmsar tilskipanir til að berjast gegn mismunun kynjanna og tryggir ein þeirra meðal annars jafna meðferð karla og kvenna að því er varðar aðgang að þjónustu (sbr. tilskipun nr. 2004/113/EB). Tilskipunin heimilar þó mismunandi meðferð kynjanna í undantekningartilvikum og þá einungis þegar ákveðnum skilyrðum er fullnægt. Heilsuræktarstöðvar sem einungis eru ætlaðar öðru kyninu eru dæmi um þjónustu sem tilskipunin tekur til. Spurningin um hvort slík þjónusta sé brot á jafnréttislögum fer eftir því hvort hægt sé að réttlæta mismununina hverju sinni.

***

Í 21. og 23. gr. sáttmála Evrópusambandsins um grundvallarréttindi er lagt bann við mismunun á grundvelli kynferðis og sú krafa gerð að jafnrétti karla og kvenna sé tryggt á öllum sviðum. Nánar er fjallað um afstöðu Evrópusambandsins í tengslum við jafnrétti karla og kvenna í svari við spurningunni Hver er stefna ESB gagnvart jafnrétti kynjanna?

Í tilskipun ESB um beitingu meginreglunnar um jafna meðferð kvenna og karla að því er varðar aðgang að og afhendingu á vörum og þjónustu (nr. 2004/113/EB) er lagt bann við því að einstaklingum sé mismunað á grundvelli kyns. Í tilskipuninni er þó að finna undanþáguákvæði sem kveður á um að:

Þessi tilskipun skal ekki útiloka mismunandi meðferð ef lögmæt markmið réttlæta að vörur og þjónusta séu eingöngu eða aðallega veittar einstaklingum af öðru kyninu og aðferðirnar til að ná þessu markmiði séu viðeigandi og nauðsynlegar. (5. mgr. 4. gr.)

Til að geta starfrækt þjónustu (svo sem heilsuræktarstöð) sem einungis er ætluð öðru kyninu þarf viðkomandi því að geta rökstutt þá ákvörðun á málefnanlegan hátt og sýnt fram á lögmætan tilgang þess að veita einungis konum eða körlum aðgang að slíkri þjónustu. Þar að auki þurfa aðferðirnar til að mismuna á grundvelli kyns að vera viðeigandi og nauðsynlegar.


Hér æfa karlar og konur saman.

Í ákvæðinu er ekki gert ráð fyrir afdráttarlausu banni við mismunandi meðferð á grundvelli kyns að því er varðar aðgang að eða veitingu þjónustu en slík meðferð verður þá að vera réttlætanleg með framangreindum hætti til þess að teljast ekki mismunun á grundvelli kyns. Rök sem hafa verið notuð til að réttlæta tilvist heilsuræktarstöðva sem einungis eru ætlaðar öðru kyninu hafa til dæmis verið að sérstök líkamsræktartæki ætluð öðru kyninu séu notuð á stöðum sem þessum. Í öðrum tilvikum er vísað til sjónarmiða um friðhelgi þar sem öðru kyninu er gert kleift að æfa sig hispurslaust án þess að hafa áhyggjur af hinu kyninu.

Tilskipunin var tekin upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar árið 2009 (nr. 147/2009). Frumvarp til innleiðingar hennar í íslensk jafnréttislög var síðast lagt fyrir 141. löggjafarþing (2012-2013) en var þó ekki afgreitt. Þegar þetta er skrifað í lok september 2013 á Ísland því eftir að innleiða tilskipunina í íslenskan rétt.

Heilsuræktarstöðvar sem einungis eru ætlaðar öðru kyninu er að finna víða í heiminum en Baðhúsið er dæmi um heilsulind ætlaða konum á Íslandi. Spurningin um hvort þjónusta af þessu tagi standist jafnréttislög hefur oft komið til umræðu en það er ekkert einhlítt svar við henni þar sem meta þarf hvert tilvik fyrir sig.

Nýlega komst jafnréttisstofa Belgíu að þeirri niðurstöðu að heilsuræktarstöð þar í landi sem áður var ætluð báðum kynjunum en var breytt í heilsuræktarstöð fyrir konur þann 1. september síðastliðinn, brjóti í bága við ákvæði belgískra jafnréttislaga sem byggir á ofangreindu ákvæði tilskipunar ESB. Aðferðin til að ná þessu markmiði, það er að segja upp öllum samningum sem karlar gerðu við stöðina án þess að veita þeim aðra sambærilega þjónustu, telst til að mynda ekki viðeigandi og ekki hægt að réttlæta þessa mismunun á grundvelli undanþáguákvæðisins.

Fyrr á árinu kærði maður í Bretlandi líkamsræktarstöð þar sem hann æfir fyrir það að veita einungis konum aðgang að stöðinni á ákveðnum tímum vikunnar. Karlar sem eru í áskrift hjá þessari stöð fá því hlutfallslega minni aðgang að stöðinni en þurfa samt að greiða sama meðlimagjald og konur. Niðurstaða hefur ekki fengist í málinu en það hefur vakið athygli þar í landi.

Borgaryfirvöld í Reykjavík ræddu nú fyrir stuttu þá hugmynd að hafa sérstaka kvennadaga í sundlaugum, þar sem sundlaugar yrðu eingöngu opnar konum og körlum meinaður aðgangur. Á grundvelli ákvæðisins sem hér hefur verið fjallað um þyrfti að rökstyðja þá ákvörðun sérstaklega svo hún stangist ekki á við efni tilskipunarinnar.

Heimildir og mynd:

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur20.9.2013

Tilvísun

Brynhildur Ingimarsdóttir. „Standast heilsuræktarstöðvar sem einungis eru ætlaðar öðru kyninu lög og reglur Evrópusambandsins um jafnrétti kynjanna?“. Evrópuvefurinn 20.9.2013. http://evropuvefur.is/svar.php?id=65916. (Skoðað 25.4.2024).

Höfundur

Brynhildur Ingimarsdóttiralþjóðastjórnmálafræðingur og fyrrverandi verkefnastjóri á Evrópuvefnum

Við þetta svar er engin athugasemd Fela