Spurning

Fjárfestingarbanki Evrópu

Spyrjandi

Evrópuvefur

Svar

Fjárfestingarbanki Evrópu (e. European Investment Bank, EIB) var stofnaður með Rómarsáttmálanum árið 1958 og hefur það hlutverk að lána fé til fátækari svæða í Evrópu, verðandi aðildarríkja og þróunarlanda en einnig til fyrirtækja og aðila í einka- og opinbera geiranum. Bankinn hefur aðsetur í Lúxemborg.

Í 309. grein sáttmálans um starfshætti ESB segir:

Hlutverk Fjárfestingarbanka Evrópu er að stuðla að jafnri og hnökralausri þróun innri markaðarins til hagsbóta fyrir sambandið og getur hann í þeim tilgangi leitað til fjármagnsmarkaðarins og nýtt eigið fjármagn. Bankinn skal í því skyni veita lán og ábyrgðir, án þess að leita hagnaðar, til að greiða fyrir fjármögnun eftirtalinna verkefna á öllum sviðum atvinnulífsins:

  1. uppbyggingar á landsvæðum sem eru á eftir í þróun,
  2. endurnýjunar eða aðlögunar í fyrirtækjum eða þróunar nýrrar starfsemi sem þörf verður á vegna stofnunar eða starfsemi innri markaðarins, ef verkefni þessi eru svo umfangsmikil eða þess eðlis að þau verða ekki að fullu fjármögnuð með þeim ólíku aðferðum sem eru tiltækar í einstökum aðildarríkjum,
  3. verkefna sem mörg aðildarríki hafa sameiginlega hagsmuni af en eru svo umfangsmikil eða þess eðlis að þau verða ekki að fullu fjármögnuð með þeim ólíku aðferðum sem eru tiltækar í einstökum aðildarríkjum.

Bankinn skal í störfum sínum greiða fyrir fjármögnun fjárfestingaráætlana sem njóta aðstoðar uppbyggingarsjóðanna og annarra fjármögnunarleiða sambandsins.

Hluthafar bankans eru öll aðildarríki Evrópusambandsins. Bankinn lýtur stjórn bankaráðs, bankastjórnar og stjórnarnefndar.

Bankaráðið er skipað ráðherrum sem aðildarríkin tilnefna og setur fram almenn fyrirmæli um lánastefnu bankans.

Bankastjórnin er skipuð tuttugu og níu stjórnarmönnum og nítján varamönnum. Þeir eru skipaðir af bankaráðinu til fimm ára í senn á grundvelli tilnefninga frá aðildarríkjunum og framkvæmdastjórninni. Bankastjórnin tekur ákvarðanir um að veita fé og um lánsfjáröflun og ákveður vexti á veittum lánum ásamt þóknun og öðrum gjöldum. Hún sér einnig til þess að bankinn sé vel rekinn og í lok fjárhagsárs leggur hún skýrslu fyrir bankaráðið.

Stjórnarnefndin er skipuð formanni og átta varaformönnum sem bankaráðið tilnefnir til sex ára að tillögu bankastjórnarinnar. Stjórnarnefndin fer með dagleg störf bankans undir stjórn formanns og eftirliti bankastjórnarinnar. Hún undirbýr ákvarðanir bankastjórnarinnar um lánsfjáröflun og veitingu fjár og sér til þess að ákvörðunum sé komið til framkvæmda. Núverandi formaður Fjárfestingarbanka Evrópu er Þjóðverjinn Werner Hoyer.

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur13.9.2013

Tilvísun

Evrópuvefur. „Fjárfestingarbanki Evrópu“. Evrópuvefurinn 13.9.2013. http://evropuvefur.is/svar.php?id=65872. (Skoðað 26.2.2024).

Höfundur

Evrópuvefur

Við þetta svar er engin athugasemd Fela