Spurning

Hvað eru uppbyggingarsjóðir ESB?

Spyrjandi

Halldór Karl Þórsson

Svar

Uppbyggingarsjóðir Evrópusambandsins eru þrír: Byggðaþróunarsjóður, Félagsmálasjóður og Samheldnisjóður. Þeir hafa það hlutverk að styðja við markmið byggðastefnu Evrópusambandsins um að auka efnahags- og félagslega samleitni milli svæða sambandsins. Samanlagt hafa uppbyggingarsjóðirnir yfir að ráða 347 milljörðum evra á fjárhagstímabilinu 2007 til 2013, eða um þriðjungi af heildarfjárlögum sambandsins á tímabilinu.

***

Uppbyggingarsjóðirnir eru notaðir til að framkvæma byggðastefnu Evrópusambandsins (einnig kölluð samheldnistefna). Tilgangur byggðastefnunnar er að draga úr efnahagslegum og félagslegum mun milli svæða sambandsins með því að bæta hag þeirra svæða sem eru verst sett. Nánar er fjallað um byggðastefnuna í svari við spurningunni Hver er byggðastefna Evrópusambandsins?

Stefnunni er framfylgt þannig að hvert aðildarríki mótar sér landsáætlun, sem er nokkurs konar rammaáætlun, og á grundvelli hennar er gerð ein eða fleiri framkvæmdaáætlanir fyrir hvern hinna þriggja sjóða. Því ferli eru gerð betri skil í svari við spurningunni Hvernig er byggðastefna ESB framkvæmd?

Á fjárhagstímabilinu 2007 til 2013 er 347 milljörðum evra (miðað við verðlag ársins 2008) varið til byggðastefnu Evrópusambandsins eða um það bil þriðjungi af heildarfjárlögum sambandsins á tímabilinu. Upphæðin skiptist þannig á milli uppbyggingarsjóðanna þriggja:

Byggðaþróunarsjóður Evrópu 201 milljarður evra
Félagsmálasjóður Evrópu 76 milljarðar evra
Samheldnisjóðurinn 70 milljarðar evra.
Heildarfjárframlög til byggðastefnunnar 347 milljarðar evra

Fastmótaðar reglur gilda um fjárhagslega meðferð, framkvæmd, eftirlit og skýrslugjöf og þá stjórnsýslu sem þarf að vera fyrir hendi til að framlög séu veitt úr uppbyggingarsjóðunum (reglugerð nr. 1083/2006/EC). Þannig ber sérhverju aðildarríki að koma upp stjórnunar- og eftirlitskerfi fyrir framkvæmdaáætlanir sínar með því að setja á fót stjórnunarstofu, vottunarstofu og endurskoðunarstofu. Þá þurfa aðildarríkin einnig að skilgreina hlutverk stofnananna og tryggja að grundvallarreglunni um aðskilnað á hlutverkum sé fylgt milli þeirra.

Stjórnunarskipulag uppbyggingarsjóðanna er því með nokkuð öðru sniði en skipulag annarra sjóða, svo sem þeirra sem heyra undir Menntaáætlunina eða Rannsóknaáætlunina, en fyrirkomulagið er mjög dreifstýrt. Þannig mótar Evrópusambandið umgjörðina um byggðastefnuna og hefur eftirlit með framkvæmdinni. Ábyrgðin á fjármunum og framkvæmd áætlana liggur hins vegar hjá aðildarríkjunum, á ýmsum stjórnsýslustigum, en framlög úr uppbyggingarsjóðunum eru aðeins veitt fyrir útlögðum kostnaði, það er eftir að hann er til fallinn en ekki fyrirfram.


Myndin sýnir hve háa fjárhæð hvert aðildarríki hefur til ráðstöfunar úr uppbyggingarsjóðunum þremur samanlagt á tímabilinu 2007 til 2013, í milljónum evra.

Ein meginregla byggðastefnunnar er samfjármögnun aðildarríkjanna og Evrópusambandsins. Fjármunum er úthlutað til hverrar framkvæmdaáætlunar og þar er hlutfall fjármögnunar milli ESB og aðildarríkisins tilgreint. Hlutur Evrópusambandsins getur verið frá 50% upp í 85% af kostnaði við áætlunina, allt eftir efnahagslegri stöðu svæðanna sem um ræðir. Að öllu meðtöldu er heildarverðmæti framkvæmdaáætlana byggðastefnunnar á tímabilinu 2007-2013 því nálægt 700 milljörðum evra.

Uppbyggingarsjóðirnir vinna að markmiðum byggðastefnunnar hver á sinn hátt.
  • Byggðaþróunarsjóður Evrópu: Fjármagnar styrkingu innviða, nýsköpun og fjárfestingar.
  • Félagsmálasjóður Evrópu: Fjármagnar meðal annars verkefni sem stuðla að endurmenntun, atvinnusköpun og þátttöku þeirra sem minna mega sín.
  • Samheldnisjóður: Úr honum er aðeins úthlutað til verkefna sem hafa bætt áhrif á umhverfið og ákveðinna samevrópskra samgönguverkefna, eingöngu í aðildarríkjum þar sem þjóðartekjur eru undir 90% af ESB-meðaltali.

Þeir sem meðal annars geta hlotið styrki úr uppbyggingarsjóðunum eru opinberir aðilar, sum einkafyrirtæki (einkum lítil fyrirtæki), háskólar, félagasamtök og sjálfboðaliðasamtök. Einstaklingar geta ekki hlotið beina fjárstyrki úr sjóðunum en styrkveitingar eiga þó að nýtast íbúum hvers svæðis, til dæmis sem notendum nýrra samgöngumannvirkja eða með kostnaðarlausri þátttöku á styrktum námskeiðum.

Til að komast að því hvort tilteknar verkefnahugmyndir séu styrkhæfar þurfa væntanlegir styrkþegar að ganga úr skugga um að verkefnið samræmist markmiðum og uppfylli fjárfestingarskilyrði framkvæmdaáætlunar þess svæðis sem um ræðir. Stjórnunarstofan sem tilgreind er í viðkomandi framkvæmdaáætlun veitir nánari upplýsingar en reglur þeirra um styrkveitingar og val á verkefnum eru mjög mismunandi milli landa og svæða. Sumar stjórnunarstofur haga málum þannig að hægt er að sækja um styrki fyrir hvers konar verkefni allt árið um kring en aðrar hafa fastmótaðar hugmyndir um hvernig verkefni þau vilja styrkja og bjóða þau út kannski einu sinni á ári. Víða vantar upp á að ferlið við veitingu styrkja úr uppbyggingarsjóðunum sé gagnsætt.

Heimildir:

Upprunaleg spurning:

Hvað eru uppbyggingarsjóðir ESB og hver er byggðastefna þess?

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur16.11.2012

Tilvísun

Þórhildur Hagalín. „Hvað eru uppbyggingarsjóðir ESB?“. Evrópuvefurinn 16.11.2012. http://evropuvefur.is/svar.php?id=63434. (Skoðað 12.10.2024).

Höfundur

Þórhildur HagalínEvrópufræðingur og fyrrverandi ritstjóri Evrópuvefsins

Við þetta svar er engin athugasemd Fela