Spurning

Gæti Evrópusambandið tekið upp á því að breyta umferðarlögum í aðildarríkjunum, til dæmis bannað hringtorg, bannað vinstri beygjur, sett 25 km hámarkshraða og breytt öllum umferðarskiltum?

Spyrjandi

Jón Helgi

Svar

Í stuttu máli er svarið nei. Evrópusambandið fer ekki með vald til að breyta umferðarreglum í aðildarríkjum sínum. Hins vegar getur Evrópusambandið mælt fyrir um ráðstafanir til að bæta umferðaröryggi sem heyrir undir stefnu sambandsins í samgöngumálum. Löggjöf ESB á því sviði hefur nánast undantekningarlaust verið tekin upp í EES-samninginn og innleidd í íslenskan rétt. Þær umferðaröryggiskröfur sem gerðar eru til aðildarríkja ESB eru því einnig gerðar til Íslands.

***

Í Evrópusambandinu hefur hvert aðildarríki sínar eigin umferðarreglur sem ökumenn þurfa að fara eftir. Umferðarreglur um vegvísa, hraðatakmarkanir og mörk áfengis í blóði, svo eitthvað sé nefnt, geta því verið mismunandi eftir löndum.

Þó er ýmislegt sem svipar milli aðildarríkjanna. Farþegum er skylt að nota öryggisbelti og farsímanotkun ökumanna án handfrjáls búnaðar er bönnuð í öllum aðildarríkjum ESB. Hægri umferð tíðkast í flestum aðildarríkjunum en í Bretlandi, á Írlandi, Kýpur og Möltu er vinstri umferð. Nánar er fjallað um hægri og vinstri umferð í svörum Vísindavefsins við spurningunum Af hverju keyra sumar þjóðir vinstra megin og aðrar hægra megin? og Hvort keyra fleiri bílar í heiminum hægra eða vinstra megin á götunni?


Auglýsing um umferðaröryggi fyrir utan höfuðstöðvar framkvæmdastjórnarinnar.

Mikið af löggjöf aðildarríkja ESB um umferð á vegum á uppruna sinn í efnahagsnefnd Sameinuðu þjóðanna fyrir Evrópu (e. United Nations Economic Commission for Europe, UNECE). Vínarsamningarnir um umferð á vegum annars vegar og um umferðarskilti og umferðarljós hins vegar frá 1968 samræma umferðarmerkja- og ljósakerfi um allan heim til að stuðla að auknu umferðaröryggi. Flest ríki Evrópusambandsins eru aðilar að þessum samningum. Umferðarskilti eru því nánast eins milli aðildarríkjanna fyrir utan hönnun myndtákna og lit þeirra. Ísland hefur ekki gerst aðili að ofangreindum samningum þegar þetta er skrifað í september 2013.

Í 91. grein sáttmálans um starfshætti Evrópusambandsins er sambandinu veitt heimild til að mæla fyrir um ráðstafanir til að bæta öryggi í flutningum (sbr. c-lið 91. gr. SSE). Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur þar af leiðandi síðan árið 1993 gefið út umferðaröryggisáætlanir með það fyrir augum að aðildarríkin samræmi reglur sín á milli hvað varðar öryggi á vegum og að draga úr fjölda látinna og alvarlegra slasaðra vegfarenda.

Helstu forgangsatriði umferðaröryggisáætlunar framkvæmdastjórnarinnar fyrir tímabilið 2011-2020 eru að:
  • Efla fræðslu og þjálfun ökumanna, svo sem með því að auka kröfur til þeirra sem fá ökuskírteini og ökukennara.
  • Framfylgja umferðarreglum betur.
  • Gera inniviði öruggari, til dæmis með því að auka kröfur til mannvirkja sem styrkt eru af Evrópusambandinu.
  • Gera ökutæki öruggari, eins og með árekstrarvörum og hraðatakmörkunum. Einnig með lásum sem skynja áfengisneyslu ökumanns.
  • Auka notkun upplýsingatækni til að auka umferðaröryggi.
  • Bæta neyðarþjónustu.

Sérstakur Evrópudagur um umferðaröryggi hefur verið haldinn árlega síðan 27. apríl 2007 til að vekja almenning til umhugsunar um málefnið.

Heimildir og mynd

Upprunaleg spurning:

Gæti Evrópusambandið breytt umferðarlögum í aðildarríkjum sínum, t.d. bannað hringtorg, bannað vinstri beygjur, sett 25 km hámarkshraða, breytt öllum umferðarskiltum, o.s.frv.

Ég er ekki að spyrja hvort Evrópusambandið myndi gera það, heldur hvort það gæti gert það, svona fræðilega séð.

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur13.9.2013

Flokkun:

Evrópumál > ýmislegt

Tilvísun

Brynhildur Ingimarsdóttir. „Gæti Evrópusambandið tekið upp á því að breyta umferðarlögum í aðildarríkjunum, til dæmis bannað hringtorg, bannað vinstri beygjur, sett 25 km hámarkshraða og breytt öllum umferðarskiltum?“. Evrópuvefurinn 13.9.2013. http://evropuvefur.is/svar.php?id=65725. (Skoðað 3.11.2024).

Höfundur

Brynhildur Ingimarsdóttiralþjóðastjórnmálafræðingur og fyrrverandi verkefnastjóri á Evrópuvefnum

Við þetta svar er engin athugasemd Fela