Spurning

Hverjar eru nýjustu breytingarnar á stefnu Evrópusambandsins í tóbaksvarnarmálum?

Spyrjandi

N.N.

Svar

Hátt hlutfall reykingamanna sem og fjöldi dauðsfalla af völdum reykinga hafa verið Evrópusambandinu hugleikin málefni. Sambandið hefur gripið til ýmissa aðgerða til að reyna að fækka reykingamönnum og voru nýjustu aðgerðirnar samþykktar 10. júlí 2013. Þær fela í sér breytingar á gildandi tilskipun um tóbaksvörur sem verða þess valdandi að vöruframboð minnkar til muna. Með breytingunum er sérstaklega reynt að sporna við því að ungmenni byrji að reykja. Breytingarnar munu taka gildi hér á landi á grundvelli EES-samningsins.

***

Reykingar draga árlega um 700 þúsund manns til dauða innan Evrópusambandsins. Þrátt fyrir tilraunir sambandsins til úrbóta er fjöldi reykingamanna nokkuð mikill, en um þriðjungur íbúa ESB reykja að staðaldri. Fyrsta tilskipunin um tóbaksvarnir tók gildi árið 1989. Reglurnar voru hertar með nýrri tilskipun árið 2001 um framleiðslu, kynningu og sölu tóbaksvara (nr. 2001/37/ESB). Þá var meðal annars gerð sú breyting að tóbaksumbúðir yrðu að hafa áletranir sem vara við heilsuspillandi áhrifum sígaretta. Mörgum hefur þótt vöntun á uppfærslu tilskipunarinnar í takt við breytt vöruframboð á markaði, enda rúmur áratugur liðinn frá síðustu breytingum.


Nýju reglurnar eiga að fækka ungum reykingamönnum.

Lýðheilsunefnd Evrópuþingsins samþykkti þann 10. júlí 2013 tillögur frá heilbrigðisráðherrum ESB að nýjum reglum. Megináhersla er lögð á að fækka ungum reykingamönnum, en fyrir liggur að flestir byrja snemma að reykja. Átta af hverjum tíu byrja að reykja fyrir 19 ára aldurinn og 94% fyrir 25 ára. Hér verða taldar upp helstu breytingar sem gerðar verða á tilskipuninni.

Í fyrsta lagi má nefna að svokallaðar raf-sígarettur (e. e-cigarettes) skulu seldar sem lyf. Hingað til hafa þær verið seldar sem almennar neysluvörur í þeim aðildarríkjum þar sem þær eru leyfðar. Þessi breyting hefur verið gagnrýnd þar sem þær séu mikið notað tól til að hætta að reykja. Í yfirlýsingu frá lýðheilsunefndinni kemur þó fram að aðildarríkin eigi að sjá til þess að þær verði víða aðgengilegar, ekki aðeins í apótekum. Þá verða raf-sígaretturnar ekki lyfseðilsskyldar. Framleiðendum raf-sígaretta þykir að sér vegið með breytingunni þar sem hún hefur í för með sér að það verður kostnaðarsamara og strangara ferli að markaðssetja þær. Afstaða aðildarríkjanna til raf-sígaretta er misjöfn. Í Danmörku eru þær til að mynda bannaðar en í Bretlandi eru þær seldar á almennum markaði.

Í öðru lagi eiga viðvörunarmerkingar í máli og myndum að ná yfir 75% af umbúðunum. Merkingar skulu vera á öllum hliðum umbúðanna. Þá mega merkingar á umbúðunum ekki gefa til kynna að varan sé á einhvern hátt hollari en aðrar sambærilegar tóbaksvörur, svo sem að hún sé lífræn.

Í þriðja lagi verða mjóar sígarettur og sígarettur með bragði bannaðar með öllu þar sem þær höfði frekar til ungs fólks, og þá sérstaklega ungra kvenna, en aðrar sígarettur. Undir bannið falla meðal annars sígarettur með mentól bragði sem njóta nokkurra vinsælda meðal reykingamanna. Mentól sígarettur eru með um 5% markaðshlutdeild innan Evrópusambandsins en til samanburðar má geta að á Íslandi er markaðshlutdeildin um 20%. Stuðningsmenn breytinganna vilja meina að sígarettur séu meira fráhrindandi ef þær bragðast eins og tóbak en ekki eins og vanilla, jarðarber eða mentól. Margir, þar á meðal danskir stjórnmálamenn, hafa mótmælt þessu og segja bann á mentól sígarettum missa marks. Þeir sem reyki mjóar sígarettur með mentól-bragði séu ekki unga kynslóðin heldur einkum sú eldri.

Aðildarríki Evrópusambandsins sem framleiða sígarettur, svo sem Búlgaría, Pólland og Rúmenía, hafa einnig mótmælt breytingunum á þeim grundvelli að margir framleiðendur munu verða gjaldþrota og að svartur markaður muni skapast með þær vörur sem til stendur að banna.

Formleg atkvæðagreiðsla innan Evrópuþingsins um hvort nýju tillögurnar taki gildi verða á aðalfundi þess í Strassborg þann 10. september 2013. Á grundvelli EES-samningsins munu breytingarnar einnig taka gildi hér á landi.

Heimildir og mynd:

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur19.7.2013

Flokkun:

Evrópumál > ýmislegt

Tilvísun

Lena Mjöll Markusdóttir. „Hverjar eru nýjustu breytingarnar á stefnu Evrópusambandsins í tóbaksvarnarmálum?“. Evrópuvefurinn 19.7.2013. http://evropuvefur.is/svar.php?id=65580. (Skoðað 18.4.2024).

Höfundur

Lena Mjöll Markusdóttirlaganemi og verkefnastjóri á Evrópuvefnum

Við þetta svar er engin athugasemd Fela