Spurning

Hverjar eru nýjustu breytingarnar á landbúnaðarstefnu Evrópusambandsins?

Spyrjandi

N.N.

Svar

Í júní 2013 voru nýjustu endurbæturnar á sameiginlegri landbúnaðarstefnu Evrópusambandsins kynntar. Þar með lauk löngu viðræðuferli landbúnaðarráðherra sambandsins og írsk stjórnvöld önduðu léttar, enda mikill þrýstingur á þeim að klára viðræðurnar áður en formennskutímabili þeirra í ráðinu lyki. Nýju endurbæturnar snúa aðallega að sanngjarnari skiptingu fjárstuðningsins, umhverfisvænni landbúnaði og skilvirkni og gagnsæi landbúnaðarstefnunnar. Gagnrýnt hefur verið að nýju breytingarnar séu ekki nógu áhrifamiklar og að ekki hafi tekist að leysa helstu þrætueplin í landbúnaðarmálum.

***

Sameiginleg landbúnaðarstefna Evrópusambandsins gekk í gildi árið 1962. Eftir að hafa sætt harðri gagnrýni á áttunda áratug síðustu aldar náðist samkomulag um fyrstu róttæku endurskoðun stefnunnar árið 1992 og segja má að hún hafi verið í sífelldri endurskoðun síðan. Lesa má um þær endurbætur sem gerðar hafa verið á síðustu árum í svari við spurningunni Er endurskoðun landbúnaðarstefnu Evrópusambandsins sem samið var um 1992 enn ólokið? Árleg útgjöld vegna landbúnaðarstefnunnar nema 40% af heildarfjárlögum Evrópusambandsins og eru þar með stærsti einstaki kostnaðarliður sambandsins.

Í lok júní 2013 voru nýjustu breytingarnar kynntar til sögunnar. Þar með lauk 20 mánaða samningaviðræðum landbúnaðarráðherra sambandsins um endurbætur á stefnunni. Nýju breytingarnar verða formlega teknar upp síðar á árinu og stefnt er að því að þær taki gildi 1. janúar 2014.


Frá blaðamannafundi sem haldinn var 26. júní 2013 þegar nýjustu breytingarnar á landbúnaðarstefnunni voru kynntar.

Samkvæmt fréttatilkynningu frá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins er nýju breytingunum ætlað að mæta þörf á umbótum er snerta fæðuöryggi, loftslagsbreytingar og þróunar- og atvinnumöguleika í dreifbýlum. Þannig á landbúnaðarstefnan að gegna lykilhlutverki í átt að sjálfbærri þróun. Fjárstuðningur við greinina verður í kringum 40 milljarðar evra á ári eins og verið hefur og felast endurbæturnar aðallega í skiptingu fjárins. Í fréttatilkynningunni segir að skiptingin verði sanngjarnari milli aðildarríkja, landsvæða og einstakra bænda. Sem dæmi má nefna að með því að veita hærri styrki fyrir fyrstu hektara lands, í stað jafnra greiðslna á hvern hektara, eiga ríki að geta stutt betur við lítil og meðalstór bóndabýli. Þá verða auknir styrkir veittir til ungra bænda svo þeir eigi auðveldara með að hefja búskap.

Hingað til hafa styrkir til bænda í eldri aðildarríkjum ESB, það er í Vestur-Evrópu, verið mun hærri en til starfsbræðra þeirra í nýrri aðildarríkjum í austri. Þetta fyrirkomulag hefur verið gagnrýnt þar sem ríkustu aðildarríkin fái hæstu styrkina í stað þess að fjárhæðinni sé hlutfallslega skipt miðað við stærð landbúnaðar sem atvinnuvegar í hverju ríki. Nýju breytingarnar miða að því að jafna út þennan mismun.

Stóraukin áhersla verður á umhverfisvænan landbúnað. Á árunum 2014 til 2020 er stefnt að því að verja 100 milljörðum evra til umhverfisverndar á sviði landbúnaðar. Stefnt er að því að gera bændur betur í stakk búna til að takast á við mál líkt og varðveislu gæða vatns og jarðvegar, viðhald líffræðilegs fjölbreytileika og loftslagsbreytingar.

Að endingu á landbúnaðarstefnan að vera gagnsærri og skilvirkari. Meira fjármagn verður sett í rannsóknir og nýsköpun á sviði landbúnaðar. Samkvæmt áðurnefndri fréttatilkynningu á landbúnaðarstefnan nú einnig að vera sveigjanlegri þannig að tekið sé meira mið af fjölbreytileika aðildarríkjanna.


Landbúnaður í Evrópu.

Það var mikið fagnaðarefni fyrir írsk stjórnvöld, sem fara með formennsku í ráðinu um þessar mundir, að ljúka viðræðum um endurbæturnar á landbúnaðarstefnunni. Þrýstingur var á þau að ljúka verkinu áður en formennskutímabili þeirra lyki og útlit var fyrir að það mundi ekki takast. Því hefur verið haldið fram að samningar um endurbætur á landbúnaðarstefnunni hafi aðeins náðst vegna þess að helstu þrætuepli landbúnaðarstefnunnar voru lögð til hliðar í viðræðunum. Þetta voru meðal annars málefni sem snertu ytri samleitni og flutning fjármagns frá einni stoð (e. pillar) til annarrar. Af því leiðir að þær endurbætur sem nú voru gerðar séu ekki mjög afgerandi eða áhrifaríkar. Nýju breytingarnar feli því aðeins í sér fínstillingu á þeim viðmiðum sem nú þegar voru til staðar.

Landbúnaðarstefnan í heild sinni hefur síður en svo verið laus við gagnrýni. Margir vilja meina að of miklu fjármagni sé varið í hana þar sem tekjur af landbúnaði séu aðeins 1,6% af vergri framleiðslu Evrópusambandsins og skapi einungis atvinnu fyrir 5% íbúa þess. Fénu ætti heldur að verja í að gera ríki Evrópusambandsins samkeppnishæfari á sviði vísindalegra rannsókna og tækniþróunar sem sé sérstaklega mikilvægt í ljósi efnahagslegrar lægðar í álfunni á undanförnum árum.

Stuðningsmenn landbúnaðarstefnunnar vilja hins vegar meina að án fjárstyrkja til bænda mundu fáir endast í geiranum og þeir séu því mikilvægir til að viðhalda atvinnugreininni. Einnig séu styrkirnir nauðsynlegir til að hægt sé að mæta ströngum kröfum neytenda um gæði landbúnaðarafurðanna.

Þrátt fyrir þessar gagnrýnisraddir þykir líklegt að fjárstuðningurinn haldist að mestu óbreyttur á næstu árum og að landbúnaðarstefnan verði áfram ríkjandi útgjaldaliður Evrópusambandsins.

Heimildir og myndir:

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur12.7.2013

Tilvísun

Lena Mjöll Markusdóttir. „Hverjar eru nýjustu breytingarnar á landbúnaðarstefnu Evrópusambandsins?“. Evrópuvefurinn 12.7.2013. http://evropuvefur.is/svar.php?id=65542. (Skoðað 21.5.2024).

Höfundur

Lena Mjöll Markusdóttirlaganemi og verkefnastjóri á Evrópuvefnum

Við þetta svar er engin athugasemd Fela