Spurning

Ætlar ESB að setja verndartoll á innflutning sólarrafhlaða frá Kína til að vernda þennan iðnað heima fyrir?

Spyrjandi

Gunnar Geir Kristjánsson

Svar

Já, það er rétt að Evrópusambandið hefur síðastliðið rúmt ár haft í hyggju að setja verndartolla á innfluttar sólarrafhlöður og sólskildi frá Kína til að verja evrópskan iðnað. Iðnaðarsamtökin EU ProSun lögðu inn kvörtun í júlí 2012 vegna undirboðs kínverskra framleiðenda. Kínverskar sólarrafhlöður, sem eiga um 65% hlutdeild á innri markaði ESB, voru seldar á allt að 88% lægra verði en sambærileg evrópsk framleiðsla.

Framkvæmdastjórnin ákvað því að hefja tvær rannsóknir vegna undirboðs og niðurgreiðslu á kínverskum rafhlöðum og sólskjöldum í september og nóvember árið 2012. Í byrjun júní 2013 tilkynnti framkvæmdastjórnin að lægri bráðabirgðatollur upp á 11,8%, sem mundi gilda í tvo mánuði, yrði lagður á kínverskar sólarrafhlöður og sólskildi. Þá mundu hærri tollar, milli 37,3% og 67,9% eftir því hvaða kínverska fyrirtæki ætti í hlut, taka gildi 6. ágúst 2013. Samningar náðust hins vegar milli framkvæmdastjórnarinnar og kínverskra stjórnvalda áður en tollurinn var lagður á eftir að kínversk stjórnvöld og framleiðslufyrirtæki féllust á ákveðið lágmarksverð og innflutningstakmarkanir.


Sólskjöldum komið fyrir.

Þar með var málinu þó ekki lokið og rannsóknir bæði vegna undirboðs kínverskra framleiðenda og niðurgreiðslna kínversku ríkisstjórnarinnar héldu áfram. Framkvæmdastjórnin lauk rannsóknum sínum síðla árs 2013 og birti niðurstöðurnar öllum málsaðilum til umfjöllunar. Hún gaf svo út endanlegar niðurstöður í báðum rannsóknum þegar búið var að greina og taka tillit til þeirra athugasemda sem henni bárust. Ráð ESB hafði fram til 5. desember 2013 til að ákvarða hvort settir yrðu á varanlegir verndartollar á kínverskar sólarrafhlöður og sólskildi.

Hinn 2. desember 2013 staðfesti ráðið tillögur framkvæmdastjórnarinnar um að leggja varanlega verndartolla á sólarrafhlöður og sólskildi sem fluttir eru inn á innri markaðinn af tilteknum kínverskum fyrirtækjum næstu tvö árin. Samningarnir sem náðust í ágúst um lágmarksverð og innflutningstakmarkanir gilda áfram fyrir um 75% kínverskra fyrirtækja sem flytja inn sólarrafhlöður til Evrópusambandsins og ekki er lagður sérstakur verndartollur á þau fyrirtæki.

Samkvæmt ákvörðuninni eru eftirfarandi verndartollar lagðir á kínversk fyrirtæki sem sömdu ekki sérstaklega við Evrópusambandið:
  • Almennur tollur upp á 47,7% er lagður á kínversk fyrirtæki sem tóku fúslega þátt í rannsóknum framkvæmdastjórnarinnar.
  • Tollur upp á 64,9% er lagður á sólarrafhlöðuvörur þeirra kínverskra fyrirtækja sem voru ekki samvinnufús í rannsóknum framkvæmdastjórnarinnar.

Tollarnir samanstanda af tollum vegna undirboðs annars vegar og niðurgreiðslu hins vegar.

  • Varanlegir tollar vegna undirboðs milli 27,3% og 64,9% eru lagðir á þau fyrirtæki sem voru samvinnuþýð á meðan rannsóknum stóð, á meðan eftirstæður tolllur upp á 53,4% er lagður á sólarrafhlöður þeirra fyrirtækja sem tóku ekki þátt í rannsóknunum.
  • Varanlegir tollar vegna niðurgreiðslu kínverska ríkisins milli 0% (fyrir fyrirtæki á borð við Delsolar) og 3,5% og 11,5% verða lagðir á fyrirtæki sem tóku þátt í rannsóknum framkvæmdastjórnarinnar, á meðan eftirstæður tollur upp á 11,5% er lagður á þau fyrirtæki sem tóku ekki þátt í rannsóknunum.

Gert er ráð fyrir að tollarnir, ásamt samningum um lágmarksverð og innflutningstakmarkanir, muni koma í veg fyrir áframhaldandi verðhrun á sólarrafhlöðum. Þar sem framleiðsla á sólarrafhlöðum er ekki stunduð á Íslandi munu engar sambærilegar aðgerðir eiga sér stað hér á landi en verð á innfluttum sólarrafhlöðum gæti hækkað, eða þar til fríverslunarsamningur Íslands og Kína verður fullgiltur á Alþingi.

Heimildir og mynd:

Upprunaleg spurning:

Ég las að ESB hyggist setja verndartoll á innflutning sólarrafhlaða frá Kína. - Þetta er sagt til að verja þennan iðnað í ESB-ríkjunum. Er það rétt?, og megum við búast við sambærilegu hérlendis?

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur13.12.2013

Tilvísun

Arnar Steinn Þorsteinsson. „Ætlar ESB að setja verndartoll á innflutning sólarrafhlaða frá Kína til að vernda þennan iðnað heima fyrir?“. Evrópuvefurinn 13.12.2013. http://evropuvefur.is/svar.php?id=65005. (Skoðað 6.10.2024).

Höfundur

Arnar Steinn ÞorsteinssonBA í kínversku,MA-nemi í alþjóðasamskiptum við Háskóla Íslands

Við þetta svar er engin athugasemd Fela