Spurning

Ríkir enn eitthvað varnarsamstarf á milli Íslands og Bandaríkjanna eftir brottför varnarliðsins?

Spyrjandi

N.N.

Svar

Núverandi öryggis- og varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna byggist á tvíhliða varnarsamningi frá árinu 1951 auk sameiginlegrar samstarfsyfirlýsingar sem löndin skrifuðu undir árið 2006 í kjölfar brottfarar varnarliðsins sama ár. Síðan þá hefur þróunin í raun verið sú að varnarsamstarfið tekur til fleiri þátta en það gerði áður.

***

Ákvörðun Bandaríkjanna árið 2006 um að flytja orrustuþotur sínar og björgunarþyrlur burt frá Íslandi ásamt öllum liðsafla og leggja niður starfsemi sína á Keflavíkurflugvelli breytti varnarsamstarfi Íslands og Bandaríkjanna en afnam það ekki. Varnarskuldbindingar Bandaríkjanna gagnvart Íslandi á grundvelli varnarsamningsins frá árinu 1951 sem nær yfir varnir gegn hefðbundinni hernaðarógn á ófriðartímum stóðu óbreyttar þrátt fyrir breyttar aðstæður. Þar að auki skrifuðu bæði ríkin undir sameiginlega samstarfsyfirlýsingu sem kveður á um fjölþætt samstarf á sviði öryggis- og varnarmála.


Loftmynd af herstöðinni á Keflavíkurflugvelli árið 1982.

Eftir brottför Bandaríkjahers var samþykkt á vettvangi Atlantshafsbandalagsins (NATO) að flugsveitir frá herjum bandalagsríkjanna sinntu loftrýmisgæslu við landið fjórum sinnum á ári. Um er að ræða nokkurskonar vaktafyrirkomulag NATO-ríkjanna og Bandaríkin taka virkan þátt í þessari loftrýmisgæslu. Árið 2013 hafa Kanada, Ítalía og Bandaríkin staðið vaktina. Loftrýmisgæsla NATO gegnir ríku hlutverki fyrir Ísland í öryggislegu tilliti, enda mikilvægt að viðhalda þekkingu og vitund bandalagsríkja á aðstæðum á Íslandi sem og annars staðar í norðrinu svo þau geti brugðist hratt og skilvirkt við ef aðstæður krefjast þess. Einnig er mikilvægt að á Íslandi fyrirfinnist sú þekking og reynsla sem þarf til að taka á móti erlendum flugsveitum.

Varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna hefur á undanförnum árum þróast í þá átt að samstarfið tekur nú til mun fleiri þátta en það gerði áður. Þessi þróun kemur einkum til vegna samstarfsyfirlýsingarinnar frá árinu 2006 sem og breyttum áherslum Atlantshafsbandalagsins sem nú hefur dregið talsvert úr umfangsmiklum aðgerðum sínum í fjarlægum heimshlutum og fremur litið til ógna og áhættuþátta nærri heimahögum. Má þar nefna málefni norðurslóða, umhverfisöryggi, leit og björgun á hafi auk varna gegn netvá, hryðjuverkum og skipulagðri glæpastarfsemi. Þá telja Ísland og Bandaríkin sig til dæmis eiga mikilla sameiginlegra hagsmuna að gæta um þróun öryggismála á norðuslóðum og viðbrögð gegn slysum og umhverfishörmungum.

Heimildir og mynd:

Við þetta svar er engin athugasemd Fela