Spurning

Hver er launamunur kynjanna í Sviss?

Spyrjandi

Ívar Daði Þorvaldsson

Svar

Nýjustu tölur Hagstofu Sviss sem birtar voru í lok árs 2012 sýna að launamunur kynjanna í Sviss mældist 18,4% að meðaltali árið 2010. Þrátt fyrir að reglan um sömu laun fyrir sömu störf hafi verið stjórnarskrárbundin í Sviss síðan árið 1981 og jafnréttislög í gildi frá 1996 minnkar launamunur kynjanna einungis lítillega milli ára. Árið 2000 var launamunur kynjanna til að mynda 21% í Sviss. Tíu árum síðar var munurinn rúmlega 18%. Með slíku áframhaldi er talið að um 66 ár muni líða þar til konur í Sviss fái greidd sömu laun fyrir sömu vinnu og karlar.

***

Síðustu rannsóknir Hagstofu Sviss varðandi launamun kynjanna voru gerðar árin 2008 og 2010. Helstu niðurstöður þeirra voru birtar í lok árs 2012 og ítarlegri útlistun á þeim vorið 2013. Samkvæmt þeim mældist launamunur kynjanna í einkageiranum að meðaltali 23,6% árið 2010 en 25% árið 2008. Launamunur kynjanna hjá hinu opinbera mældist að meðaltali 14,7% árið 2010 en 16,5% árið 2008.

Launamunurinn breikkar í takt við hækkandi kröfur í starfi og mikilvægi starfs. Launamunur kynjanna er einnig breytilegur eftir starfsstéttum. Í hótel- og veitingarekstri er launamunurinn til að mynda 8,2%, á meðan hann er 13,3% í efnaiðnaði, 20,9% í smásölu, 31,8% í textíliðnaði og 38,8% í fjármála- og tryggingastarfsemi.


Frá jafnlaunadeginum árið 2013 í Sviss. Á myndinni sjást konur og menn halda á skiltum sem á stendur: "Launajafnrétti árið 2079? Er ekki í lagi með ykkur?"

Hlutfall starfandi kvenna er hæst í láglaunastörfum. Árið 2010, voru konur 67% vinnuafls í láglaunastörfum, þar sem mánaðarlaun numu 3500 svissneskum frönkum eða minna fyrir skatt (um 450 000 íslenskum krónum miðað við núverandi gengi). Störf, þar sem mánaðarlaun numu yfir 8000 frönkum fyrir skatt (það er rúmlega milljón krónum), eru hins vegar að mestu unnin af körlum, eða um 78,1%. Einungis 13,4% þeirra sem vinna við hálaunastörf með meira en 16000 franka á mánuði fyrir skatt (það er rúmlega tvær milljónir króna) eru konur.

Verkalýðsfélag Sviss (fr. Union Syndicale Suisse, USS) hefur kallað eftir því að lágmarkslaun almennings í landinu verði hækkuð úr 3500 svissneskum frönkum í 4000. Mundi slík hækkun hagnast konum mest þar sem hlutfall þeirra er mest í láglaunastörfum.

Launamunur kynjanna í Sviss gerir það að verkum að konur verða af um 7,7 milljarða svissneskra franka á ári. Launamuninn er ekki hægt að skýra með nokkrum öðrum breytum en kynjuðum og fara konur á mis við þessa milljarða eingöngu vegna kynferði síns.

Jafnlaunadagurinn var haldinn hátíðlegur í Sviss 7. mars 2013 þar sem konur þurftu að vinna til þessa dags til að vinna sér inn jafn háum launum og karlar höfðu unnið sér inn 31. desember 2012.

Heimildir og mynd

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur19.7.2013

Tilvísun

Brynhildur Ingimarsdóttir. „Hver er launamunur kynjanna í Sviss?“. Evrópuvefurinn 19.7.2013. http://evropuvefur.is/svar.php?id=65554. (Skoðað 14.9.2024).

Höfundur

Brynhildur Ingimarsdóttiralþjóðastjórnmálafræðingur og fyrrverandi verkefnastjóri á Evrópuvefnum

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Við þetta svar er engin athugasemd Fela