Spurning

Er Ísland nálægt því að uppfylla Maastricht-skilyrðin fyrir upptöku evru?

Spyrjandi

G. Pétur Matthíasson

Svar

Ísland uppfyllir ekki Maastricht-skilyrðin og í sögulegu tilliti hefur Íslandi tekist illa að halda sig innan marka þeirra. Frá árinu 1998 hefur Ísland einungis uppfyllt verðbólgumarkmiðið fimm sinnum og þá yfirleitt í fremur stuttan tíma. Ísland uppfyllti skilyrðin um opinber fjármál á árunum 2000 og 2005 en eftir að fjármálakreppan skall á varð mikill halli á rekstri hins opinbera og í kjölfarið hækkuðu skuldir ríkisins verulega. Þá hafa langtímavextir á Íslandi að jafnaði verið hærri en í ESB-ríkjunum en Ísland hefur á tímum uppfyllt það skilyrði, nú síðast árið 2011. Það var þó ekki síst vegna þess að vextir hafa farið hækkandi í Evrópu í kjölfar fjármálakreppunnar. Ítarlegri umfjöllun um hvort Ísland uppfylli skilyrðin er að finna í svari vefsins við spurningunni Uppfyllir Ísland Maastricht-skilyrðin núna?


Seðlabanki Íslands áætlar að Ísland muni uppfylla Maastricht-skilyrðin á komandi árum.
Í skýrslu Seðlabanka Íslands um valkosti Íslands í gjaldmiðils- og gengismálum frá árinu 2012 kemur fram að líklega muni Ísland uppfylla flest skilyrðin fyrir upptöku evru á komandi árum. Áætlanir gera ráð fyrir að Ísland muni geta uppfyllt skilyrðin um verðstöðugleika og afkomu hins opinbera en að það muni hins vegar taka talsvert lengri tíma að uppfylla skilyrðin um skuldir hins opinbera og gengisstöðugleika. Í sjálfu sér er það eftirsóknarvert markmið fyrir íslenskt efnahagslíf að uppfylla Maastricht-skilyrðin, óháð því hvort stefnt er að aðild að Evrópusambandinu eða ekki.

Evrópuvefurinn bendir sérstaklega á eftirfarandi svör við spurningum um Maastricht-skilyrðin:

Heimildir og mynd:

Upprunaleg spurning:
Er Ísland ekki nálægt því á þessari stundu að uppfylla Maastricht-skilyrðin fyrir upptöku evru? Þ.e.a.s. sé tekið mið af fréttum um skuldastöðuna, lækkandi verðbólgu og verður ekki að vænta þess að ný ríkisstjórn stefni á að hallinn á fjárlögum verði minni en í ár, eða undir þremur prósentum?

Við þetta svar er engin athugasemd Fela