Spurning
Byggðaþróunarsjóður Evrópu
Spyrjandi
Evrópuvefur
Svar
Byggðaþróunarsjóður Evrópu (e. European Regional Development Fund, ERDF) er stærstur uppbyggingarsjóða Evrópusambandsins. Honum var komið á fót árið 1975 samfara inngöngu fátækari landa í ESB, eins og Írlands, Spánar, Portúgals og Grikklands. Byggðaþróunarsjóður fjárfestir í smærri og meðalstórum fyrirtækjum með það að markmiði að skapa ný störf og efla samkeppnishæfni. Hann fjármagnar rannsóknir og nýsköpun og styrkir uppbyggingu innviða svo sem fjarskipti og samgöngur. Sjóðurinn er einn af uppbyggingarsjóðunum, ásamt Félagsmálasjóði og Samheldnisjóði, sem hafa það hlutverk að framkvæma byggðastefnu Evrópusambandsins. Í sáttmálanum um starfshætti Evrópusambandsins segir:Byggðaþróunarsjóði Evrópu er ætlað að vinna að því að ráða bót á helsta ójafnvægi milli svæða innan sambandsins með þátttöku í þróun og endurskipulagningu atvinnuskilyrða á svæðum sem dregist hafa aftur úr og með uppbyggingu nýrra atvinnuvega í iðnaðarhéruðum þar sem hnignunar gætir (176. gr.).Á fjárhagstímabilinu 2007-2013 hefur Byggðaþróunarsjóðurinn yfir að ráða rúmlega 200 milljörðum evra eða tæpum 60% af heildarfjárframlögum til byggðastefnunnar á tímabilinu. Ein meginregla byggðastefnunnar er sú að peningar úr uppbyggingarsjóðum ESB eigi ekki að koma í staðinn fyrir útgjöld af hálfu aðildarríkjanna til ákveðinna verkefna heldur eiga þeir að vera viðbót við þau. Önnur meginregla, sem leiðir af þeirri fyrri, er að framkvæmdaáætlanir byggðastefnunnar skuli fjármagnaðar sameiginlega af aðildarríkjunum og Evrópusambandinu.
Um þessa spurningu
Dagsetning
Útgáfudagur 5.4.2013
Flokkun:
Tilvísun
Evrópuvefur. „Byggðaþróunarsjóður Evrópu“. Evrópuvefurinn 5.4.2013. http://evropuvefur.is/svar.php?id=65046. (Skoðað 9.12.2024).
Höfundur
Prenta
Senda
Við þetta svar er engin athugasemd
Fela