Spurning

Er það rétt að ESB verndi hagsmuni erlendra auðhringja á kostnað neytenda innan ESB, með því að leyfa framleiðendum að einoka innflutning?

Spyrjandi

Einar Steingrímsson

Svar

Tilskipun Evrópusambandsins um samræmingu á lögum aðildarríkja um vörumerki veitir framleiðendum leyfi upp að vissu marki til að stýra innflutningi á vöru og þjónustu til sambandsins. Vörumerkjarétti er meðal annars ætlað að tryggja eigendum vörumerkja, sem alla jafna hafa varið miklum fjármunum og tíma í þróun hinnar vernduðu vöru eða þjónustu, ágóðann af markaðssetningu vörunnar eða þjónustunnar. Tilgangi verndar gegn óheimilli markaðssetningu eða sölu er hins vegar náð þegar rétthafinn hefur sjálfur sett vöruna/þjónustuna á markað gegn gjaldi. Í kjölfarið tapast öll frekari réttindi þar að lútandi og er í því samhengi talað um tæmingu réttinda. Misjafnt er eftir löndum hvort reglur um vernd vörumerkja kveði á um landsbundna, svæðisbundna eða alþjóðlega tæmingu réttinda. Reglur aðildarríkja EES-samningsins hafa verið samræmdar þannig að markaðssetning tiltekinnar vöru/þjónustu í einu aðildarríki nægir til tæmingar réttinda á öllu EES-svæðinu.

***

Vörumerkjaréttur er einkaréttur, en í honum felst að aðrir en eigandi vörumerkis mega ekki heimildarlaust nota í atvinnustarfsemi tákn sem eru eins eða lík vörumerki hans ef notkunin tekur til eins eða svipaðrar vöru eða þjónustu og vörumerkjarétturinn nær til og hætt er við ruglingi, þar með talið að tengsl séu með merkjunum (sbr. 4. gr. vörumerkjalaga nr. 45/1997).


Vörumerkið Levi Strauss & Co. var fyrst skráð í Bandaríkjunum árið 1873.

Að því tilskildu að notkun sé í samræmi við góða viðskiptahætti getur eigandi vörumerkis ekki bannað öðrum að nota í atvinnustarfsemi nafn sitt, nafn fasteignar eða heiti á atvinnustarfsemi sinni, né lýsingar á tegund vöru eða þjónustu, ástandi, magni, notkun, verði, uppruna, hvenær vara er framleidd eða þjónusta boðin fram eða á öðrum eiginleikum vöru eða þjónustu (sbr. 1. mgr. 6 gr. vörumerkjalaga). Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að hafi eigandi vörumerkis markaðssett vöru eða þjónustu sem nýtur vörumerkjaréttar eða heimilað slíkt innan Evrópska efnahagssvæðisins getur hann ekki síðar hindrað notkun, sölu, leigu, innflutning, útflutning eða annars konar dreifingu vörunnar eða þjónustunnar á því svæði. Það að rétthafi missi þennan rétt yfir vörunni/þjónustunni sem slíkri eftir að hún hefur verið sett á markað innan svæðisins hefur verið nefnt tæming réttinda.

Á vörumerkjalögum voru gerðar breytingar árið 2009 (sbr. breytingarlög nr. 117/2009) þegar orðalag 2. mgr. 6. gr. laganna var tekið til endurskoðunar í kjölfar dóms EFTA-dómstólsins.1 Með breytingarlögunum var ákvæði 2. mgr. 6. gr. vörumerkjalaga samræmt ákvæði 1. mgr. 7. gr. tilskipunar (nr. 89/104/EBE) um samræmingu á lögum aðildarríkja um vörumerki, sbr. núgildandi tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2008/95/EB, en ákvæði tilskipunarinnar kveður á um tæmingu réttinda. Sömu reglur um tæmingu réttinda gilda þar af leiðandi hér á landi og innan Evrópusambandsins/EES-svæðisins.

Á tæmingu réttinda reynir þegar vara eða þjónusta sem nýtur vörumerkjaréttar er sett á markað, ýmist af rétthafa sjálfum eða með hans samþykki. Við markaðssetningu vöru eða þjónustu missir rétthafinn ákveðin réttindi yfir vörunni/þjónustunni sem slíkri þótt hann haldi réttinum til vörumerkisins. Eigi markaðssetning sér hins vegar stað án atbeina hans glatar hann ekki réttindum yfir þeirri vöru eða þjónustu sem um ræðir.

Það skiptir því meginmáli hvort vara eða þjónusta sem varin er rétti til vörumerkis er sett á markað með samþykki eigandans eða ekki. Hafi rétthafi ekki sjálfur markaðssett vöru eða þjónustu á EES-svæðinu og ekki gefið samþykki sitt til þess, getur hann stöðvað markaðssetningu vörunnar/þjónustunnar innan svæðisins á grundvelli vörumerkjalaga eða ofangreindrar tilskipunar. Reglur sem þessar eru þó ekki eingöngu bundnar við Evrópusambandið eða EES-svæðið, heldur byggja þær á alþjóðlegum samningum sem meirihluti ríkja heims eru aðilar að. Mismunandi er hins vegar hvaða reglur gilda á hverju svæði, það er hvort um landsbundna, svæðisbundna eða alþjóðlega tæmingu er að ræða.

1 Dómur EFTA dómstólsins frá 8. júlí 2008 í málum nr. E-9/07 og E-10/07, L'Oréal Norge AS og L'Oréal SA gegn Per Aarskog AS, Nille AS og Smart Club AS.

Mynd:

Upprunaleg spurning:

Verð á Levi's gallabuxum er miklu hærra innan ESB en í BNA. Samkvæmt þessari grein virðist það vera vegna þess að ESB veitir framleiðandanum leyfi til að einoka innflutning á vörunni til ESB-landa. Er þetta rétt skilið? Ef svo er, hver er tilgangur ESB með því að vernda hagsmuni erlendra auðhringja á kostnað neytenda innan ESB?
Við þetta svar er engin athugasemd Fela