Spurning

Alþjóðabankinn

Spyrjandi

Evrópuvefur

Svar

Alþjóðabankinn (e. World Bank) var stofnaður árið 1944, ásamt Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, í kjölfar Bretton Woods fundarins þar sem 49 af ríkustu löndum heims komu sér saman um leikreglur í alþjóðaviðskiptum. Endurskipurleggja þurfti fjármálakerfi heimsins og tryggja heilbrigð viðskipti á milli þjóða á grundvelli frjáls og trausts gjaldeyriskerfis. Hlutverk Alþjóðabankans var að stuðla að efnahagslegri uppbyggingu í Evrópu með lánveitingum til opinberra framkvæmda en hlutverk Alþjóðagjaldeyrissjóðsins var að stuðla að stöðugu gengi gjaldmiðla og greiða fyrir frjálsum gjaldeyrisviðskiptum.

Hlutverk Alþjóðabankans í dag er að stuðla að efnahagslegri og félagslegri uppbyggingu í þróunarlöndum. Bankinn starfar með stjórnvöldum hlutaðeigandi ríkja og veitir þeim aðstoð í formi lána, styrkja og ráðgjafar. Bankinn starfar þó einnig á öðrum sviðum svo sem með tryggingar.

Alþjóðabankinn samanstendur af fimm stofnunum:

  • Alþjóðabanki til enduruppbyggingar og framþróunar (e. International Bank for Reconstruction and Development, IBRD).
  • Alþjóðaframfarastofnunin (e. International Development Association, IDA).
  • Alþjóðalánastofnunin (e. International Finance Corporation, IFC).
  • Fjölþjóðlega fjárfestingarábyrgðarstofnunin (e. Multilateral Investment Guarantee Agency, MIGA).
  • Alþjóðastofnunin um lausn fjárfestingardeilna (e. International Center for Settlement of Investment Disputes, ICSID).

Til að gerst aðili að Alþjóðabankanum þurfa ríki einnig að gerast aðilar að Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. 187 ríki eiga nú aðild að bankanum. Aðildarríkin leggja til fjárframlög til bankans eftir stærð ríkjanna á heimsmarkaði. Stærð framlaganna ræður einnig atkvæðavægi hver ríkis í stjórn Alþjóðabankans. Ríkustu lönd heims hafa því mest vægi innan bankans. Aðildarríkin geta einnig veitt frjáls framlög. Seðlabanki Íslands er fjárhagslegur aðili að Alþjóðabankanum fyrir hönd íslenska ríkisins.

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur 7.9.2012

Tilvísun

Evrópuvefur. „Alþjóðabankinn“. Evrópuvefurinn 7.9.2012. http://evropuvefur.is/svar.php?id=63186. (Skoðað 9.9.2024).

Höfundur

Evrópuvefur

Við þetta svar er engin athugasemd Fela