Spurning

Hvaða réttarstöðu hafa menntaðir nálastungulæknar í Evrópu?

Spyrjandi

Ríkharður Mar Jósafatsson

Svar

Evrópusambandið hefur gefið út tilskipun um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi og hefur hún verið innleidd í lög hér á landi á grundvelli EES-samningsins. Tilskipuninni er ætlað að tryggja að einstaklingar sem hafa aflað sér sérfræðiþekkingar eigi rétt á að nýta þá þekkingu og að hún sé viðurkennd í öðrum aðildarríkjum sambandsins. Tilskipunin skerðir þó ekki rétt aðildarríkjanna til þess að setja reglur um veitingu starfsleyfa og viðurlög við óábyrgri starfsemi í þeim tilgangi að vernda hagsmuni almennings. Evrópusambandið hefur enga sameiginlega löggjöf eða stefnu varðandi óhefðbundar lækningar en almennt eru nálastungur heimilaðar af heilbrigðisyfirvöldum í Evrópu sem viðurkennd meðferð við sársauka fremur en sem liður í lækningum sjúkdóma.

***

Nálastungumeðferð (e. acupuncture) er gömul kínversk lækningaaðferð þar sem nálum er stungið í gegnum húð sjúklings á vissum stöðum og þær annaðhvort hreyfðar eða látnar vera kyrrar í tiltekinn tíma. Þessi aðferð hefur verið notuð í Austurlöndum um margra alda skeið til þess að greina sjúkdóma, fyrirbyggja þá eða lækna. Dauðsföll hafa orðið í kjölfar nálastungumeðferða á Vesturlöndum en þau eiga rætur sínar að rekja til rangrar meðferðar í höndum leikmanna. Einkennast þessi slys af því að nálum hefur verið stungið inn í líffæri eða þá að stungurnar hafa leitt til blóðsýkingar sem dregið hafa veikt fólk til dauða. Nálastungumeðferð er umdeild á sviði læknavísinda.


Nálastungumeðferð er umdeild á sviði læknavísinda en er jafnan viðurkennd meðferð við sársauka.

Í tilskipun Evrópusambandsins um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi (nr. 2005/36/EB) er mælt fyrir um afnám hindrana á frjálsu flæði fólks og rétt einstaklinga til þess að stunda atvinnu. Tilskipunin, sem hefur verið innleidd hér á landi á grundvelli EES-samningsins, gildir bæði um sjálfstætt starfandi einstaklinga og þá sem ráðnir eru til starfa. Markmið tilskipunarinnar er að tryggja að einstaklingar sem hafa aflað sér sérfræðiþekkingar í einu aðildarríki eða samstarfsríki eigi rétt á að nýta þá þekkingu og hún sé viðurkennd á sama grundvelli í öðrum aðildarríkjum sambandsins. Hún mælir einnig fyrir um mótun annarra tilskipana sem auka eiga samræmi við viðurkenningu diplóma, vottorða og annars konar vitnisburðar um formlega menntun eða hæfni.

Tilskipunin skerðir þó ekki rétt aðildarríkjanna til þess að gera kröfur um að einstaklingar í ákveðnum starfsgreinum uppfylla tiltekin skilyrði, meðal annars um fagleg vinnubrögð, í þeim tilgangi að vernda hagsmuni almennings. Aðildarríkin ákveða einnig viðurlög við óábyrgri starfsemi.

Aðildarríki ESB hafa enga sameiginlega löggjöf eða stefnu varðandi óhefðbundar lækningar líkt og nálastungur. Evrópuþingið og ráðið hafa þó ályktað um nauðsyn þess að frekari rannsóknir séu gerðar á óhefðbundnum læknismeðferðum. Aðildarríki sambandsins hafa því ólík lög og reglur sem og eigin stofnanir sem halda utan um eftirlit og leyfisskráningar innlendra læknastétta sem veldur því að reglur um starfsréttindi nálastungulækna geta verið breytilegar frá einu landi til annars. Á heimasíðu framkvæmdastjórnarinnar er hægt að fá upplýsingar um viðurkenningu á faglegri menntun í einstökum ESB- og EFTA/EES-ríkjum.


Nálastungur er ævaforn kínversk lækningaaðferð.
Nálastungur eru viðurkenndar að einhverju leyti í innlendum lögum 12 aðildarríkja Evrópusambandsins sem sérstök læknismeðferð (e. distinct therapeutic system) samkvæmt því sem kemur fram í nýjustu skýrslu CAMDOCS-samtakanna (e. Comlementary and Alternative Medicine Doctors Alliance) frá árinu 2010. Þessi ríki eru Austurríki, Belgía, Búlgaría, Tékkland, Danmörk, Þýskaland, Grikkland, Ungverjaland, Lettland, Portúgal, Slóvenía og Spánn. Í þessum ríkjum er meðferðin viðurkennd við stoðkerfisvandamálum eða sem viðbót við aðrar viðurkenndar læknismeðferðir. Í Evrópu er almennt lögð rík áhersla á að þeir sem beita nálastungumeðferð þekki takmarkanir meðferðarinnar og hafi grunnþekkingu á líffræði, smitvörnum og sjúkdómsgreiningu svo forðast megi alvarleg óhöpp. Af þessum ástæðum hafa heilbrigðisyfirvöld mælt með því að þessi meðferð sé einungis stunduð af læknum sem hafa aflað sér sérþekkingar á sviði læknavísinda. Í sumum tilvikum hefur hjúkrunarfræðingum og sjúkraþjálfurum verið veitt leyfi til að beita nálastungum eftir sérstakt nám sökum þess hversu náið þessar starfstéttir vinna með læknum.

Í Danmörku eru nálastungur viðurkennd verkjameðferð en þó eru engar reglur um nálastungumeðferð í lækningarskyni. Dönsk löggjöf um réttindi annarra en löggiltra heilbrigðisstarfsmanna til að sjá um meðferð sjúklinga er mjög lík þeirri sem er í gildi hér á landi. Rétturinn til að stunda lækningar og kalla sig lækni á Íslandi er lögvarinn, samanber 1. gr. læknalaga nr. 53/1998. Meginreglan er sú að öllum er frjálst að taka sjúklinga til meðferðar en í lögum eru settar takmarkanir á það hver má taka hvaða sjúkdóma til meðferðar og hvers konar meðferð má veita. Annað mikilvægt ákvæði mælir fyrir um þær skorður sem löggiltum heilbrigðisstarfsmönnum eru settar og hvernig þeir mega auglýsa þá meðferð sem þeir bjóða.

Á Íslandi hafa tíðkast sömu viðmið og í Evrópu. Árið 1998 setti Landlæknisembættið reglur um nálastungumeðferðir og á grundvelli þeirra gaf embættið út leyfi til heilbrigðisstétta til þess að beita nálastungum. Í slíku leyfi kemur þó fram að viðkomandi hafi eingöngu heimild til þess að beita aðferðinni í meðferð við stoðkerfisvandamálum. Árið 2010 ályktaði Landlæknisembættið að útgáfa slíkra leyfa ætti sér enga stoð í lögum og hefur útgáfu þeirra því nú verið hætt. Nálastungur eru þó enn framkvæmdar hérlendis af læknum, hjúkrunarfræðingum og sjúkraþjálfurum sem aflað hafa sér sérþekkingar á sviði læknasvísinda.

Heimildir og myndir:

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur10.2.2012

Tilvísun

Þorvarður Kjerulf Sigurjónsson. „Hvaða réttarstöðu hafa menntaðir nálastungulæknar í Evrópu?“. Evrópuvefurinn 10.2.2012. http://evropuvefur.is/svar.php?id=61754. (Skoðað 9.9.2024).

Höfundur

Þorvarður Kjerulf Sigurjónssonalþjóðastjórnmálafræðingur og fyrrverandi verkefnastjóri hjá Evrópuvefnum

Við þetta svar er engin athugasemd Fela