Spurning

Hver eru markmið Íslands á sviði sjávarútvegsmála í aðildarviðræðum við ESB?

Spyrjandi

Hrafn Arnarson

Svar

Sem stendur er unnið að mótun samningsmarkmiða í sjávarútvegsmálum fyrir aðildarviðræður Íslands við ESB. Helstu áherslur snúa að fullu forræði Íslendinga í stýringu veiða og skiptingu aflaheimilda innan íslenskrar efnahagslögsögu, þar sem byggt verði á ráðgjöf íslenskra vísindamanna; óbreyttu framlagi sjávarútvegsins til efnahagslífs landsins; víðtæku forsvari okkar í hagsmunagæslu í sjávarútvegi á alþjóðavettvangi; takmörkun á fjárfestingum erlendra aðila í íslenskum sjávarútvegi og skýrri aðkomu Íslendinga að mótun sjávarútvegsstefnu ESB.

***

Samningsmarkmiðin eiga að byggjast á greinargerð um meginhagsmuni Íslands í viðræðunum, sem birtist í 7. kafla nefndarálits meirihluta utanríkismálanefndar Alþingis frá árinu 2009, ásamt erindisbréfi samningahóps um sjávarútvegsmál. Meginatriðin eru þessi:

  • Gætt verði forræðis Íslendinga í stjórn veiða innan íslenskrar efnahagslögsögu og skiptingu aflaheimilda sem byggir á ráðgjöf íslenskra vísindamanna
  • Haft skal að leiðarljósi að Íslendingar hafi eins víðtækt forsvar í hagsmunagæslu í sjávarútvegi á alþjóðavettvangi og kostur er, þegar málefni lýtur að íslenskum hagsmunum
  • Halda verður í möguleika á að takmarka fjárfestingar erlendra aðila í íslenskum sjávarútvegi
  • Tryggja skal skýra aðkomu Íslendinga að mótun sjávarútvegsstefnu ESB og þess gætt að framlag sjávarútvegsins til efnahagslífs landsins haldist óbreytt

Í þessum áherslum birtast glöggt viðbrögð Alþingis við þeim ágöllum sem taldir eru vera á núverandi sjávarútvegsstefnu ESB, sjá svar við spurningunni Um hvað snýst umræðan um möguleg áhrif ESB-aðildar á sjávarútvegsstefnu Íslands?

Þótt einhverjum virðist kannski ekki nógu fast að orði kveðið er samt ljóst að í þessum áherslum felast málaleitanir um viðamiklar undanþágur eða frávik frá kerfi ESB eða um breytingar á því.



Sem stendur er unnið að mótun samningsmarkmiða í sjávarútvegsmálum fyrir aðildarviðræður Íslands við ESB.

Íslendingar hafa jafnframt beint tillögum um breytingar á sjávarútvegsstefnu ESB til sambandsins í tengslum við fyrirhugaða endurskoðun stefnunnar. Í þeim er bent á nauðsyn þess að taka sjávarútvegsstefnu ESB til gagngerrar endurskoðunar og nefndir þeir þættir sem Íslendingum þykir mest ábótavant. Þar er bent á nauðsyn þess að stunda sjálfbærar veiðar eftir leiðbeiningum frá vísindamönnum, afnám brottkasts og arðbærni. Einnig er fjallað um fýsileika aukinnar svæðavæðingar í fiskveiðistjórnun sambandsins en í því felst að ríki sambandsins hefðu fullt forræði í ákvarðanatöku um nýtingu staðbundinna fiskistofna í sínum efnahagslögsögum. Ísland sendi síðast inn tillögur árið 2010. Sjá nánar í svari við spurningunni Um hvað snýst endurskoðun á sjávarútvegsstefnu ESB?

Miðað við þær áherslur sem birtast í nefndaráliti meirihluta utanríkismálanefndar Alþingis er ljóst að íslensk stjórnvöld setja markið á að ná fram atriðum sem fela í sér allverulegar breytingar á núverandi sjávarútvegsstefnu ESB. Áherslurnar sem birtast í nýlegum tillögum framkvæmdastjórnar að endurskoðaðri sjávarútvegsstefnu sambandsins eru á hinn bóginn ekki svo fjarri því sem íslensk stjórnvöld leggja kapp á að ná fram. Hins vegar ber að hafa í huga að endurskoðun stendur nú yfir hjá báðum samningsaðilum, einmitt um leið og aðildarviðræður fara fram, og það eykur augljóslega flækjustigið í viðræðunum.

Heimildir og mynd:

Upphafleg spurning var: Hvaða áhrif mun aðild að ESB (líklega) hafa á fiskveiðistjórnun Íslands? Henni var svarað í þremur hlutum, sjá tengd svör hér að ofan til hægri.

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur29.7.2011

Tilvísun

Jóna Sólveig Elínardóttir. „Hver eru markmið Íslands á sviði sjávarútvegsmála í aðildarviðræðum við ESB?“. Evrópuvefurinn 29.7.2011. http://evropuvefur.is/svar.php?id=60121. (Skoðað 4.10.2024).

Höfundur

Jóna Sólveig Elínardóttiralþjóðastjórnmálafræðingur

Við þetta svar er engin athugasemd Fela