Spurning

Stenst það 65. gr. stjórnarskrárinnar að sum fyrirtæki fái skattaafslátt umfram önnur?

Spyrjandi

Jón Helgi

Svar

65. gr. Stjórnarskrár lýðveldisins Íslands er svohljóðandi:

Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti.

Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna.

Þessi grundvallarregla um jafnræði og bann við mismunun er mikilvægasta undirstaða nútíma mannréttinda. Gegn greininni er brotið ef sambærileg tilvik hljóta mismunandi meðferð án þess að að hlutlægar og málefnalegar ástæður liggi að baki.


Ef einu fyrirtæki er veittur afsláttur umfram önnur án fullnægjandi rökstuðnings, er um mismunun og brot á samkeppnisreglum að ræða.

Þegar ríkið veitir ákveðnum aðilum skattaafslátt er það kallað ríkisaðstoð. Í ríkisaðstoð felst að ákveðnum aðilum eða hópum eru veitt einhvers konar fríðindi frá ríkinu. Reglur um ríkisaðstoð, líkt og aðrar samkeppnisreglur, koma frá Evrópusambandinu í gegnum aðild Íslands að EES-samningnum. Ríkisaðstoðin getur verið á formi skattaafsláttar en getur einnig átt við afslátt af vöru sem keypt er af ríkinu, styrki og aðrar niðurgreiðslur, lán á hagstæðari kjörum en almennt gerist og fjöldamargt annað. Skattaafsláttur er nokkuð algeng ríkisaðstoð. Ef rýnt er í tölur frá Evrópusambandinu sést að 42% allrar veittrar ríkisaðstoðar árið 2008 var á formi skattaafslátta og nam 19,8 milljörðum evra.

Ríkisaðstoð er í grunninn óheimil enda raskar hún samkeppni. Hún er þó heimil innan ákveðinna marka og í ákveðnum tilgangi. Inngrip ríkisins er stundum talið nauðsynlegt til að tryggja skilvirkt og sanngjarnt hagkerfi. Nánar má lesa um ríkisaðstoð og ESB í svari við spurningunni Hver er stefna ESB varðandi ríkisstyrki til einkafyrirtækja? Öll ríkisaðstoð er undir ströngu eftirliti. Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, hefur umsjón með eftirlitinu í EFTA-ríkjunum.

Með þessum rökum er hægt að segja að ríkisaðstoð á formi skattaafslátta sé ekki andstæð 65. gr. stjórnarskrárinnar, svo lengi sem hún er innan leyfilegra marka. Ef skattaaflátturinn fellur hins vegar utan þessara reglna, það er ef einu fyrirtæki er veittur afsláttur umfram önnur án fullnægjandi rökstuðnings, er um mismunun og brot á samkeppnisreglum að ræða.

Heimildir og mynd:

Við þetta svar er engin athugasemd Fela