Spurning

Bolognaferlið

Spyrjandi

Evrópuvefur

Svar

Bolognaferlið (e. Bologna process) byggir á Bologna-yfirlýsingunni (e. Bologna Declaration) um samanburðarhæfni háskólamenntunar sem var undirrituð af fulltrúum 29 Evrópuríkja, þar á meðal Íslands, 19. júní 1999. Með yfirlýsingunni var miðað að því að skapa evrópskt menntasvæði á háskólastigi til að auðvelda nemendum, kennurum og fræðimönnum að flytja sig á milli Evrópulanda og nema og starfa utan heimalands síns.

Í gegnum Bolognaferlið er unnið að gagnkvæmri viðurkenningu menntunar á háskólastigi og hefur ferlið leitt til stöðlunar námskrafna og námsgráða á háskólastigi innan Evrópu. Staðlaðar námseiningar (e. European Credit Transfer System, ECTS) hafa til að mynda verið teknar í notkun sem veita Erasmus-nemendum tækifæri til að halda áfram að mennta sig í öðru samstarfsríki án hindrana.

Í dag eru 47 ríki aðilar að Bolognaferlinu. Menntamálaráðherrar samstarfsríkjanna koma saman á tveggja ára fresti á sérstökum ráðstefnum þar sem framgangur Bolognaferilsins er ræddur og næstu skref ákveðin. Þegar þetta er skrifað í lok árs 2013 hafa verið haldnar sjö ráðstefnur síðan Bologna-yfirlýsingin var undirrituð. Næsta ráðstefna verður haldin í Yerevan í Armeníu árið 2015.

Allir háskólar á Íslandi hafa markmið Bolognaferlisins að leiðarljósi.

Við þetta svar er engin athugasemd Fela