Spurning

Hver er afstaða ESB í kjarnorkumálum og gagnvart nýtingu hennar?

Spyrjandi

Ívar Daði Þorvaldsson

Svar

Kjarnorka er notuð í mörgum aðildarríkjum Evrópusambandsins sem orkugjafi og hefur framkvæmdastjórn ESB strangt eftirlit með notkun hennar á grundvelli kjarnorkubandalagssáttmálans (e. Euratom Treaty). Hverju ríki er þó frjálst að ákveða hvort það noti kjarnorku. Um þriðjungur raforku innan ESB kemur frá kjarnorkuverum. Kjarnorkuframleiðslu fylgir afar lítil losun gróðurhúsalofttegunda og hún er því mun vistvænni en rafmagn sem framleitt er með bruna jarðefnaeldsneytis. Í kjarnorkuverum er keðjuverkandi kjarnaklofnun notuð til að framleiða gufu sem síðan er látin knýja hverfla sem búa til rafmagn. Kjarnorkuverum fylgir hins vegar áhætta vegna mögulegrar geislamengunar. Ef kjarnorkuver bila þá geta afurðir kjarnaklofnunar borist út í umhverfið og þeir sem komast í tæri við þær verða fyrir geislun. Sum aðildarríki ESB telja ókosti kjarnorkunnar vega þyngra en kostina og eru því andsnúin nýtingu hennar.

***

Hverju aðildarríki Evrópusambandsins er frjálst að ákveða hvort það vilji nýta kjarnorku. Í dag eru 132 kjarnaofnar í notkun í 14 löndum Evrópusambandsins. Langflestir kjarnaofnanna eru í Frakklandi, eða 58 ofnar í 19 kjarnorkuverum, og næstflestir í Bretlandi, það er 16 kjarnaofnar í 10 kjarnorkuverum. Í Frakklandi koma 77,7% raforku frá kjarnorkuverum. Hér að neðan má sjá lista yfir þau ESB-ríki sem starfrækja kjarnorkuver og fjölda virkra kjarnaofna í þeim:

Land Fjöldi virkra kjarnaofna og kjarnorkuvera
Belgía 7 ofnar í 2 kjarnorkuverum
Bretland 16 ofnar í 10 kjarnorkuverum
Búlgaría 2 ofnar í 1 kjarnorkuveri
Finnland 4 ofnar í 2 kjarnorkuverum
Frakkland 58 ofnar í 19 kjarnorkuverum
Holland 1 ofn í 1 kjarnorkuveri
Rúmenía 2 ofnar í 1 kjarnorkuveri
Slóvakía 4 ofnar í 2 kjarnorkuverum
Slóvenía 1 ofn í 1 kjarnorkuveri
Spánn 8 ofnar í 6 kjarnorkuverum
Svíþjóð 10 ofnar í 3 kjarnorkuverum
Tékkland 6 ofnar í 2 kjarnorkuverum
Ungverjaland 4 ofnar í 1 kjarnorkuveri
Þýskaland 9 ofnar í 12 kjarnorkuverum

Um þriðjungur raforku og 15% allrar orku í ESB-ríkjunum koma frá kjarnorkuverum. Stofnun Kjarnorkubandalags Evrópu árið 1957 lagði grunninn að notkun kjarnorku í Evrópu. Stefna Evrópusambandsins í kjarnorkumálum byggist á kjarnorkubandalagssáttmálanum (e. Euratom Treaty). Sáttmálinn á að tryggja að notkun kjarnorku innan ESB sé með öruggum og sjálfbærum hætti og að ríki utan sambandsins fái aðstoð til að gera slíkt hið sama. Eftirlit framkvæmdastjórnarinnar er þríþætt:

  • Öryggi, það er eftirlit með kjarnorkuverum, meðal annars hvað varðar geislavirkni og úrgang.
  • Öryggisráðstafanir sem eiga að tryggja að kjarnorka sé einungis notuð í þeim tilgangi sem henni er ætlaður.
  • Öryggisgæsla sem stendur vörð um kjarnorku og kjarnorkuver ef reynt er að nota þau til skaðlegra verka.

Eftir kjarnorkuslysið í Tsjernobyl árið 1986 var komið á fót viðbragðskerfi sem sendir boð til allra stjórnvalda í aðildarríkjunum ef neyðartilvik verða vegna geislavirkni. Þá lagði framkvæmdastjórnin í júní 2013 til breytingar á gildandi tilskipun um kjarnorku sem á að herða öryggi á þessu sviði enn frekar.


Kjarnorkuver í Frakklandi

Framkvæmdastjórnin hefur uppi áform um að veita ríkisaðstoð til framleiðslu kjarnorku. Ríkisaðstoð er fjárhagslegt inngrip ríkisins í markaðinn og er aðeins leyfileg ef hún er nauðsynleg til að tryggja sanngjarnt og skilvirkt hagkerfi og ekki til þess fallin að raska samkeppni. Rökin fyrir því eru að sporna gegn gróðurhúsaáhrifum þar sem afar lítil losun koltvíildis (koltvíoxíðs, CO2) fylgir kjarnorkuverum. Ríkisaðstoðin kæmi þá frá ESB og hafa áformin verið gagnrýnd á þeim grundvelli að ekki eru öll ríki sammála um ágæti kjarnorku sem orkugjafa. Þýskaland, Ítalía og Austurríki eru til að mynda mótfallin kjarnorkuverum og fjölgun þeirra. Þýskaland hefur stöðvað notkun fjölda kjarnaofna í kjölfar kjarnorkuslyssins í Japan árið 2011 og áætlar að vera búið að loka öllum kjarnorkuverum sínum árið 2020. Frakkland, Bretland og Tékkland eru á hinn bóginn dæmi um ríki sem líta jákvæðum augum á notkun kjarnorku.

Heimildir og mynd

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur18.10.2013

Tilvísun

Lena Mjöll Markusdóttir. „Hver er afstaða ESB í kjarnorkumálum og gagnvart nýtingu hennar?“. Evrópuvefurinn 18.10.2013. http://evropuvefur.is/svar.php?id=65965. (Skoðað 20.5.2024).

Höfundur

Lena Mjöll Markusdóttirlaganemi og verkefnastjóri á Evrópuvefnum

Við þetta svar er engin athugasemd Fela