Spurning

Þyrftum við að keyra allt rusl frá Hornafirði til Reykjavíkur og urða það þar ef við göngum í ESB?

Spyrjandi

Arnar Sigurðsson

Svar

Á grundvelli EES-samstarfsins innleiðir Ísland alla löggjöf á sviði umhverfismála sem falla innan sviðs þess. Það á einnig við um úrgangsmál sem lúta algerlega regluverki ESB. Ef Ísland gengi í Evrópusambandið mundi það eitt ekki leiða til breytinga á reglum um sorpvinnslu á Íslandi þar sem reglurnar eru nú þegar í gildi. Eftir því sem Evrópuvefurinn kemst næst gilda engar reglur um að keyra þurfi allt rusl frá Hornafirði til Reykjavíkur. Á komandi árum er stefnt að því að minnka urðun sops til muna á Íslandi í samræmi við stefnu ESB og jafnvel útrýma henni fyrir árið 2025. Meðal annars á að fækka urðunarstöðum sem þýðir að hugsanlega þurfi að keyra lengri vegalengd með ruslið.

***

Aðild Íslands að EES-samningnum gerir það af verkum að landinu ber að innleiða löggjöf frá Evrópusambandinu sem fellur innan sviðs samningsins. EES-samstarfið felur meðal annars í sér samvinnu á sviði umhverfismála og á íslensk umhverfislöggjöf nær eingöngu rætur að rekja til reglugerða og tilskipana Evrópusambandsins. Úrgangsmál lúta algerlega regluverki ESB. Staðreyndin er því sú að þar sem Ísland hefur nú þegar innleitt löggjöf Evrópusambandsins um förgun úrgangs mundi innganga í sambandið ekki breyta neinu er hana varðar. Eftir því sem Evrópuvefurinn kemst næst eru engar reglur þess efnis að keyra skuli rusl frá Hornafirði til Reykjavíkur í gildi.


Urðunarstaður sorps.

Meiri velmegun í Evrópu hefur leitt til meiri úrgangs. Íbúar Evrópusambandsins henda samtals 3 milljörðum tonna af rusli á hverju ári en það samsvarar 6 tonnum af sorpi á hvern einstakling á hverju ári. Stefna Evrópusambandsins er að brenna sem mest af óendurvinnanlegu sorpi á öruggan hátt. Að mati sambandsins er urðun sísta aðferðin við sorpvinnslu. Á urðunarstöðum sorps myndast meðal annars metan við niðurbrot á lífrænum úrgangi en metan eykur gróðurhúsaáhrif umtalsvert. Auk þess sígur mengað sigvatn undan úrganginum og blandast við jarðveg og getur mengað grunnvatn. Báðar aðferðir eru þó skaðlegar umhverfinu og sorpvinnsla þarf að mati ESB að vera undir ströngu eftirliti. Því til stuðnings hefur sambandið nýlega samþykkt tvær tilskipanir, eina sem setur ströng skilyrði fyrir urðun úrgangs og aðra um leyfilegt magn útstreymis frá brennsluofnum.

Á Íslandi gilda lög um meðhöndlun úrgangs (nr. 55/2003) og einnig er að finna nokkrar reglugerðir á þessu sviði þar sem ákvæði laganna eru nánar útfærð.

Ísland urðar óendurvinnanlegan úrgang sinn að mestu leyti. Hlutfall úrgangs sem er urðaður hefur þó lækkað á síðustu árum og var um 31% af heildarúrgangi árið 2011 en hlutfallið var 79% árið 1995. Í nýrri landsáætlun um meðhöndlun úrgangs sem gildir fyrir árin 2013-2024 eru leiddar að því líkur að urðun geti heyrt sögunni til árið 2025. Urðunarstöðum hefur fækkað töluvert á síðustu árum, meðal annars vegna hertra krafna um mengunarvarnir og vegna aukinnar samvinnu sveitarfélaga.

Hluti úrgangs er brenndur, en starfræktar eru fjórar brennslustöðvar. Sú aðferð hefur einnig í för með sér hættu á mengun vatns og lofts og ströng krafa er gerð um búnað til hreinsunar á útblæstri og frárennsli. Aðferðin er dýr en á móti kemur að hægt er að nýta brennsluna til að búa til orku, til dæmis til húshitunar.

Heimildir og mynd:

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur20.9.2013

Flokkun:

Evrópumál > ýmislegt

Tilvísun

Lena Mjöll Markusdóttir. „Þyrftum við að keyra allt rusl frá Hornafirði til Reykjavíkur og urða það þar ef við göngum í ESB?“. Evrópuvefurinn 20.9.2013. http://evropuvefur.is/svar.php?id=65803. (Skoðað 9.9.2024).

Höfundur

Lena Mjöll Markusdóttirlaganemi og verkefnastjóri á Evrópuvefnum

Við þetta svar er engin athugasemd Fela