Spurning

Úr hvaða sjóði ESB gæti íslensk björgunarsveit hugsanlega fengið styrk til að halda námskeið fyrir evrópskar björgunarsveitir á Íslandi?

Spyrjandi

Bragi Reynisson

Svar

Í fljótu bragði virðast geta verið tveir möguleikar í stöðunni: Almannavarnaáætlun ESB eða Grundtvig hluti menntaáætlunar ESB. Hvort verkefnið uppfylli hin nákvæmu skilyrði áætlananna verður ekki svarað í þessu stutta svari heldur vísað þangað sem nálgast má frekari upplýsingar.

***

Það er rétt að styrkjakerfi Evrópusambandsins er ekki einfalt í sniðum. Annars vegar starfrækir sambandið margvíslega sjóði og samstarfsáætlanir sem styrkja verkefni af öllu mögulegu tagi. Hins vegar eru skilyrðin sem verkefni þurfa að uppfylla til að vera styrkhæf í augum sambandsins alla jafna æði ströng, og oft og tíðum breytileg frá ári til árs. Það getur því borgað sig að vera ekki búinn að skipuleggja verkefni út í hörgul þegar hafin er leit að styrkjum heldur að hafa til staðar svigrúm til að sníða verkefnið að kröfum viðkomandi samstarfsáætlunar.


Frá almannavarnaæfingu á vegum Evrópusambandsins í Búlgaríu í mars 2013.

Fyrsti viðkomustaðurinn fyrir Íslendinga í leit að styrkjum frá Evrópusambandinu er vefsíðan Evrópusamvinna en þar er að finna yfirlit yfir allar þær samstarfsáætlanir sem Ísland tekur þátt í, á grundvelli EES-samningsins. Sú áætlun sem í fljótu bragði virðist helst koma til greina fyrir björgunarsveit í leit að styrk til að halda námskeið fyrir evrópska kollega sína er almannavarnaáætlun Evrópusambandsins (Civil Protection Financial Instrument):

Markmiðið með almannavarnaáætlun ESB er að fjármagna verkefni sem miða að því að vernda fólk, eignir, umhverfi og menningarminjar gegn náttúruvá eða váverkum af mannavöldum. Verkefni geta því tengst ógnum sem stafa af eldgosum, jarðskjálftum og snjóflóðum eða hryðjuverkum, tæknibilunum og umhverfisslysum, sem ógna ofangreindum þáttum. Um er að ræða styrki og framlög til æfinga, þjálfunar, vinnubúða og mótvægisaðgerða. Einnig er um að ræða þjónustusamninga til ákveðinna verkefna. Áhersla er lögð á viðbúnað og viðbragð aðildarríkjanna við að takast á við hættuástand. Hluti verkefnanna eru samstarfsverkefni.

Á heimasíðu Evrópusambandsins er að finna nánari upplýsingar um almannavarnaáætlunina. Meðal annars er hægt að skoða lista yfir styrkþega áætlunarinnar árið 2012 en það getur verið gagnlegt að skoða slíkar upplýsingar til að leggja mat á möguleika eigin verkefnis til að hljóta styrk. Fljótlegasta leiðin til að afla upplýsinga um möguleikann á styrk úr almannavarnaáætluninni er að hafa samband við tengilið áætlunarinnar á Íslandi hjá Almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra.

Annar hugsanlegur kostur í stöðunni er Grundtvig hluti menntaáætlunarinnar. Grundtvig undiráætlunin snýr að fullorðinsfræðslu og hefur það orð á sér að rúma allar tegundir fræðslu. Markmið áætlunarinnar eru tvö:
  • að gefa fullorðnu fólki möguleika á að bæta þekkingu sína og færni,
  • að ná til fullorðins fólks með litla menntun.
Í öllu falli sakar ekki að hafa samband við landsskrifstofu menntaáætlunarinnar og spyrjast fyrir um möguleikana.

Mynd:

Upprunaleg spurning:

Ég er meðlimur í Björgunarsveit Hafnarfjarðar. Við erum aðilar að Íslensku Alþjóðabjörgunarsveit Landsbjargar.

Við hefðum áhuga á að halda námskeið og eða æfingu hér heima sem reynir að samvinnu þætti fjarskiptamála á hamfarasvæðum. Að námskeiðinu eða æfingunni kæmu sveitir frá 2-3 öðrum aðildarlöndum sambandsins.

Nú er styrkjakerfi sambandsins ekki beint einfalt í sniðum. Er einhver sjóður sem þið getið bent okkur á að skoða og sækja styrk í frekar en annan?

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur 5.6.2013

Tilvísun

Þórhildur Hagalín. „Úr hvaða sjóði ESB gæti íslensk björgunarsveit hugsanlega fengið styrk til að halda námskeið fyrir evrópskar björgunarsveitir á Íslandi?“. Evrópuvefurinn 5.6.2013. http://evropuvefur.is/svar.php?id=65371. (Skoðað 20.7.2024).

Höfundur

Þórhildur HagalínEvrópufræðingur og fyrrverandi ritstjóri Evrópuvefsins

Við þetta svar er engin athugasemd Fela