Spurning

Samrýmast útboðsskilmálar Seðlabanka Íslands um kaup erlendra aðila á aflandskrónum ákvæðum EES-samningsins um frjálst flæði fjármagns og/eða reglum EES-réttar um jafnræði?

Spyrjandi

Ásta Sólveig Andrésdóttir

Svar

Skilja verður spurningu þessa sem svo, að með henni sé leitað svara við því hvort útboð Seðlabanka Íslands almennt séð falli að reglum EES-réttar um frjálst flæði fjármagns og/eða reglum EES-réttar um jafnræði.

Varðandi fyrra atriðið, um það hvort útboðin falli að reglum um frjálst flæði fjármagns, þá er því til að svara að EFTA-dómstóllinn hefur komist að þeirri niðurstöðu, í málinu nr. E-3/11, Pálmi Sigmarsson gegn Seðlabanka Íslands, að ráðstafanir í landsrétti sem hindra innflutning aflandskróna til Íslands samrýmast 2. og 4. mgr. 43. gr. EES-samningsins. Nánar tiltekið þýðir það að uppsetning gjaldeyrishafta, eins og þau eru á Íslandi, eru talin samrýmast ákvæðum EES-samningsins. Af því verður varla dregin önnur ályktun en sú, að aðgerðir sem miða að því að aflétta slíkum höftum, og eru þannig ívilnandi fyrir aðila, eins og útboð Seðlabanka Íslands á gjaldeyri sem lið í áætlun um losun gjaldeyrishafta, standist ákvæði EES-samningsins einnig, hvað varðar frjálst flæði fjármagns.


Seðlabanki Íslands.

Varðandi seinna atriðið, um það hvort útboðin falli að reglum EES-réttar um jafnræði, er ekki alveg ljóst hvað átt er við. Nema þá kannski ef í spurningunni er fólgin tilvísun til banns í EES-samningnum við mismunun á grundvelli ríkisfangs innan gildissviðs samningsins. Nú er það svo að útboðin eru liður í viðskiptum Seðlabanka Íslands, sem hann hefur lagaheimildir til að stunda, og sem farið er í á grundvelli opinberrar áætlunar um losun gjaldeyrishafta. Eins og áður segir hefur verið komist að því, að gjaldeyrishöftin stríði ekki gegn EES-samningnum, og þar með sé ekki unnt að líta svo á, að viðskipti til að aflétta þeim sömu höftum geri það heldur. Það að hvers konar afmörkuðum hópum Seðlabankinn beinir sjónum sínum í slíkum viðskiptum er grundvallað á efni áðurnefndrar áætlunar, og eru viðskiptin öllum opin sem uppfylla nánari skilyrði, eða sem falla að þeim ramma sem talið er óhætt að eiga viðskiptin innan út frá fyrirliggjandi opinberri áætlun. Í ljósi þess alls er ekki ljóst með hvaða hætti sé unnt að líta svo á að viðskiptin brjóti gegn því jafnræði sem EES-samningurinn mælir fyrir um.

Mynd:

Við þetta svar er engin athugasemd Fela