Spurning

Norðurskautsráðið

Spyrjandi

Evrópuvefur

Svar

Norðurskautsráðið (e. Arctic Council) er samstarfsvettvangur þeirra ríkja sem liggja að Norðurheimskautssvæðinu (norðurslóðum) og var stofnað árið 1996 með Ottawa-yfirlýsingunni. Samstarfið snýr að umhverfismálum, einkum loftslagsbreytingum, álitamálum varðandi nýtingu auðlinda og landakröfum á norðurslóðum.

Aðildarríki ráðsins eru átta talsins: Bandaríkin (Alaska) Danmörk (talar einnig fyrir hönd Færeyja og Grænlands), Finnland, Ísland, Kanada, Noregur, Rússland og Svíþjóð. Í ráðinu sitja einnig fastafulltrúar sex frumbyggjasamtaka á svæðinu og áheyrnarfulltrúar nokkurra ríkja utan norðurslóða (Bretlands, Frakklands, Hollands, Póllands, Spánar og Þýskalands), auk fulltrúa ýmissa samtaka. Aðildarríki ráðsins skiptast á að gegna formennsku. Svíþjóð gegnir formennsku í ráðinu til sumars 2013 en þá hafa öll ríkin gegnt formennsku og nýr hringur hefst með formennsku Kanada sumarið 2013.

Sex vinnuhópar starfa innan Norðurskautsráðsins sem samanstanda af fulltrúum frá sérsviðum ráðuneyta, starfsmönnum opinberra stofnana og vísindamönnum. Starf þeirra spannar vítt svið, allt frá því að stemma stigu við loftlagsbreytingum og koma á neyðaráætlunum á svæðinu. Starfsemi vinnuhópanna er skipt í eftirfarandi svið:

  1. Áætlanavarnir gegn mengun Norðurheimskautssvæðisins.
  2. Vöktunaráætlun og matsstarfsemi á norðurskautinu.
  3. Verndun gróðurs og dýralífs á norðurslóðum.
  4. Varnir, viðbúnaður og viðbrögð við umhverfisvá.
  5. Verndun á hafsvæðum norðurslóða.
  6. Sjálfbær þróun.

Vinnuhóparnir hafa umboð til að framkvæma verkefni og áætlanir Norðurskautsráðsins sem hafa verið samþykkt á ráðherrafundum ráðsins og eru skilgreind í ráðherrayfirlýsingum hverju sinni. Allar ákvarðanir Norðurskautsráðsins eru teknar með einróma samþykki.

Áhugi alþjóðasamfélagsins á Norðurheimskautssvæðinu hefur aukist undanfarin ár í kjölfar aukins mikilvægis auðlinda svæðisins, opnunar þess fyrir siglingum og þeirra hröðu umhverfisbreytinga sem fylgt hafa hlýnandi loftslagi. Þessi þróun hefur orðið til þess að norðurskautsríkin hafa átt í sífellt nánara samstarfi og haft meira samráð við ríki utan svæðisins. Þetta á einkum við um rannsóknir og aðgerðir vegna loftslagsbreytinga, alþjóðlegra siglingareglna og mengunar.

Breytingar á norðurheimskautinu hafa í för með sér ný tækifæri á sviði siglinga á nýjum og áður ófærum leiðum sem og á sviði auðlindanýtingar, meðal annars á olíu, gasi og málmum. Ísland er eina þjóðríkið sem liggur í heild sinni innan norðurskautssvæðisins eins og það er almennt skilgreint á alþjóðavettvangi og af Norðurskautsráðinu. Það liggur landfræðilega vel við úthafsleiðum á Norður-Atlantshafi og er af mörgum talið kjörinn staður til umskipunar á norðurskautsleiðinni. Málefni norðurslóða eru nú meðal helstu forgangsverkefna íslenskrar utanríkisstefnu.
Við þetta svar er engin athugasemd Fela