Spurning

Getið þið útskýrt fyrir mér hvernig landsþingin fjögur í Bretlandi virka?

Spyrjandi

Hekla Finnsdóttir

Svar

Hið sameinaða konungsríki Stóra-Bretlands og Norður-Írlands, hér eftir nefnt Bretland, samanstendur af Englandi, Skotlandi, Wales og Norður-Írlandi. Breska þingið, sem staðsett er í Westminster-þinghúsinu í London, setur ríkinu lög og ákveður skatta og álögur. Þingið starfar í tveimur deildum og skiptist í neðri deild og lávarðadeild. Árið 1998 var komið á aukinni heimastjórn í Skotlandi, Wales og á Norður-Írlandi og var sérstökum þingum komið þar á fót sem hafa löggjafarvald um tiltekin málefni. Þingin þrjú starfa öll í einni þingdeild. Breska þingið fer áfram með utanríkismál, varnarmál og öryggisgæslu ríkisins í heild.

***

Bretland er ríki sem á sér langa sögu. Kjarni þess var enska konungsdæmið sem lagði undir sig Wales, Írland og Skotland. Árið 1801 voru þessi gömlu ríki formlega sameinuð undir heitinu United Kingdom, sem við köllum Bretland. Árið 1916 gerðu Írar uppreisn og stofnuðu í kjölfarið eigið lýðveldi árið 1921. Í sex héruðum á Norður-Írlandi var meirihluti íbúa mótmælendatrúar og höfnuðu þeir því að hverfa úr breska konungsríkinu. Norður-Írland varð því áfram hluti af Bretlandi þrátt fyrir stofnun írska lýðveldisins.

Stjórnskipun Bretlands er með þeim hætti að breska þingið setur ríkinu lög og ákveður skatta og álögur. Ríkisstjórnin og ráðherrar verða að njóta stuðnings meirihluta þingmanna og ráðherrar koma úr þeirra röðum. Breska þingið hefur aðsetur í London og kallast þinghúsið Westminster. Það skiptist í neðri deild (e. House of Commons) og lávarðadeildina (e. House of Lords). Ekki er kosið um sæti í lávarðadeildinni og hefur hún takmörkuð völd. Þingmenn í neðri deildinni eru kjörnir með einfaldri meirihlutakosningu en Bretlandi er skipt í um það bil 650 einmenningskjördæmi sem ná einnig til Skotlands, Wales og Norður-Írlands.


Westminster-þinghúsið í London að kvöldi til.

Árið 1997 ákvað ný ríkisstjórn Verkamannaflokksins að hrinda í framkvæmd áætlun um að koma á aukinni heimastjórn (e. devolution) í Skotlandi og Wales til að koma betur til móts við lýðræðisvitund íbúanna. Ári síðar voru lög þessa efnis samþykkt. Norður-Írland fylgdi í kjölfarið eftir að loks var samið um frið milli mótmælenda og katólikka í landinu árið 1998. Með lögunum var komið á fót sérstökum þingum fyrir Skotland, Wales og Norður-Írland sem var falið að sinna málaflokkum í nærumhverfi íbúanna. Þingin fengu ekki vald til að leggja á skatta og koma fjárveitingar til opinberra verkefna því áfram frá breska þinginu og skattfé íbúanna rennur í ríkissjóð Bretlands. Skoska þingið, sem er valdamest af þingunum þremur, hefur þó leyfi til að hnika ákvörðunum breska þingsins um tekjuskatt, um allt að þremur prósentustigum, til að fjármagna skosk sérverkefni. Undir skoska þingið heyra til að mynda landbúnaður og fiskveiðar, mennta- og umhverfismál, dómstólar, sveitarstjórnarmál, samgöngumál og fleira. Svipuð mál heyra undir þingin í Wales og á Norður-Írlandi.

Þingin þrjú velja sér ráðherra til að fara fyrir þeim málaflokkum sem þau sjá um og mynda ráðherrarnir heimastjórnir landanna. Vegna langvinnra átaka milli mótmælenda og katólikka á Norður-Írlandi, og viðvarandi tortryggni milli fylkinganna, gildir sú regla þar að enginn ræður í krafti einfalds meirihluta. Flestir flokkar eiga þess vegna aðild að heimastjórninni og um allar ákvarðanir þarf að ríkja víðtæk samstaða (e. power sharing). Þetta á hins vegar ekki við í Skotlandi eða Wales þar sem sú hefðbundna regla gildir að meirihlutinn ræður.

Þingin í Edinborg, Cardiff og Belfast starfa öll í einni þingdeild. Notast er við sambland einmenningskjördæma og hlutfallskosningakerfis í Skotlandi og Wales en opna lista (e. single transferable vote) á Norður-Írlandi þar sem kjósendur raða frambjóðendum.

Skoski þjóðernisflokkurinn (Scottish National Party), sem nú hefur meirihluta á skoska þinginu, hefur samþykkt að haustið 2014 skuli fara fram þjóðaratkvæðagreiðsla í Skotlandi um hvort landið skuli verða sjálfstætt ríki. Nýjustu skoðanakannanir benda ekki til þess að tillagan verði samþykkt en líklegra þykir að Skotar fái í kjölfarið enn meiri völd frá bresku stjórninni til að ráða málum sínum sjálfir. Sem fullvalda ríki mundu Skotar sjálfir gera samninga við önnur ríki, fá vald til að leggja á opinbera skatta og gjöld, gefa út sína eigin mynt, halda úti her og ákveða að öllu leyti sjálfir umfang hins opinbera. Skotar mundu einnig gera kröfu til þess að vinnslusvæði olíu og gass undan ströndum Skotlands kæmu í þeirra hlut. Þeir sem tala fyrir sjálfstæði Skotlands telja að landinu mundi reiða ágætlega af sem sjálfstæðu aðildarríki í Evrópusambandinu og í NATO. Forystumenn ESB hafa hins vegar sagt að sem nýtt sjálfstætt ríki yrði Skotland að sækja um aðild að sambandinu og ganga í gegnum viðræðuferli eins og önnur umsóknarríki.

Breytingarnar sem hafa fylgt aukinni heimastjórn einstakra svæða í Bretlandi hafa þótt færa Bretland nær því að vera sambandsríki. Laga- og stjórnmálakerfi Bretlands hefur hins vegar ekki enn náð að laga sig fyllilega að þessari þróun.

Heimildir og mynd:

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur12.10.2012

Tilvísun

Stefanía Óskarsdóttir. „Getið þið útskýrt fyrir mér hvernig landsþingin fjögur í Bretlandi virka?“. Evrópuvefurinn 12.10.2012. http://evropuvefur.is/svar.php?id=63257. (Skoðað 19.3.2024).

Höfundur

Stefanía Óskarsdóttirprófessor í stjórnmálafræðideild við HÍ

Við þetta svar er engin athugasemd Fela