Spurning

Eru vísitölutengd skuldabréf ekki afleiður og falla þar með undir lög um verðbréfaviðskipti?

Spyrjandi

Guðmundur Ásgeirsson

Svar

Vísitölutenging skuldabréfa breytir þeim ekki í afleiður. Skuldabréf er ein tegund verðbréfa, og verðbréf og afleiður eru ólíkar tegundir fjármálagerninga. Lög um verðbréfaviðskipti ná ekki yfir lán sem veitt eru með þeim hætti að viðskiptavinur gefur út skuldabréf þar sem hann skuldbindur sig til að endurgreiða lánið með tilteknum skilmálum, til dæmis um vísitölutengingu.

***

Samkvæmt lögum um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007 eru skuldabréf ein tegund verðbréfa, hvort sem þau eru verðtryggð eða ekki. Verðbréf eru ein tegund fjármálagerninga en undir það hugtak falla einnig afleiður. Hér á landi eru verðtryggð skuldabréf algeng en samkvæmt lögum um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 er heimilt að verðtryggja lán ef grundvöllur verðtryggingarinnar er vísitala neysluverðs. Ekki hefur verið litið á verðtryggð skuldabréf sem afleiðu þó að því megi halda fram að þau líkist að nokkru leyti ákveðnum tegundum skuldabréfa sem hafa innbyggða afleiðu. Vísitölutenging breytir skuldabréfum ekki í afleiður, þau teljast eftir sem áður til verðbréfa, sem eru undirflokkur fjármálagerninga.


Kauphöllin í London (London Stock Exchange) er sú fjórða stærsta í heiminum og sú stærsta í Evrópu.

Lögin um verðbréfaviðskipti gilda um þá þjónustu sem talin er upp í 1. grein laganna:
  1. Móttöku og miðlun fyrirmæla frá viðskiptavinum um einn eða fleiri fjármálagerninga.
  2. Framkvæmd fyrirmæla fyrir hönd viðskiptavina.
  3. Viðskipti með fjármálagerninga fyrir eigin reikning.
  4. Eignastýringu.
  5. Fjárfestingarráðgjöf.
  6. Sölutryggingu í tengslum við útgáfu fjármálagerninga og/eða útboð fjármálagerninga.
  7. Umsjón með útboði verðbréfa án sölutryggingar.
  8. Rekstur markaðstorgs fjármálagerninga (MTF).
Lögunum verður ekki beitt um aðra þjónustu en að ofan er getið. Með nokkurri einföldun má segja að með verðbréfaviðskiptum sé átt við þjónustu sem fjármálafyrirtæki veita viðskiptavinum sínum í tengslum við viðskipti þeirra með fjármálagerninga. Sem dæmi má nefna viðskiptavin sem kemur í fjármálafyrirtæki og óskar eftir að það hafi milligöngu um kaup hans á hlutabréfum tiltekins fyrirtækis sem skráð eru í kauphöll. Fjármálafyrirtækið tekur á móti beiðninni og framkvæmir viðskiptin í kauphöll en í því felst að finna rétt magn hlutabréfanna til sölu á sem hagstæðustu verði. Um þjónustu sem þessa gilda ítarleg ákvæði verðbréfaviðskiptalaga en þau byggjast meðal annars á tilskipun Evrópusambandsins um markaði með fjármálagerninga (nr. 2004/39/EB) sem í daglegu tali er kölluð MiFID tilskipunin (Markets in Financial Instruments Directive) en hún gildir á Íslandi á grundvelli EES-samningsins (sjá reglugerð 995/2007). Það sama á við þegar viðskiptavinur óskar eftir að fjármálafyrirtæki hafi milligöngu um kaup eða sölu hans á verðtryggðu skuldabréfi. Fjármálafyrirtækinu ber þá að fara að verðbréfaviðskiptalögum.

Annað á þó við þegar fjármálafyrirtæki veitir viðskiptavini lán með þeim hætti að viðskiptavinurinn gefur út skuldabréf þar sem hann skuldbindur sig til að endurgreiða lánið með tilteknum skilmálum. Sem dæmi má nefna að viðskiptavinur tekur verðtryggt lán hjá fjármálafyrirtæki til fasteignakaupa. Slíkar lánveitingar falla ekki undir verðbréfaviðskiptalögin þar sem fjármálafyrirtækið er þar með ekki að veita neina þá þjónustu sem talin er upp í 1. grein verðbréfaviðskiptalaganna.

Of langt mál er að gera tæmandi grein fyrir réttarvernd viðskiptavina fjármálafyrirtækja samkvæmt þessum reglum. Sem dæmi má nefna að þegar fjármálafyrirtæki veitir viðskiptavini þjónustu í formi verðbréfaviðskipta ber því að gera skriflegan samning við hann, halda ítarlegar skrár yfir alla þjónustu sem honum er veitt, senda honum yfirlit, varðveita fjármuni hans tryggilega, gera ráðstafanir til að koma í veg fyrir að hagsmunaárekstrar skaði hann, veita honum ítarlegar upplýsingar og leitast við að ná sem hagstæðastri niðurstöðu fyrir hann þegar viðskipti eru framkvæmd.

Einnig má nefna að þegar fjármálafyrirtæki veitir þjónustu í formi verðbréfaviðskipta ber því að afla sér fullnægjandi upplýsinga um viðskiptavininn til að geta metið hvaða verðbréfaviðskipti henti honum. Upplýsingaöflunin er mismikil eftir því um hvers konar viðskipti er að ræða en hún getur meðal annar náð til upplýsinga um þekkingu og reynslu viðskiptavinar á sviði verðbréfaviðskipta, fjárhagsstöðu hans og markmið með fjárfestingunni. Á þessu eru þó ýmsar undantekningar og í sumum tilvikum er fjármálafyrirtækjum heimilt að framkvæma viðskipti með verðbréf án þess að afla nokkurra upplýsinga um viðskiptavin.

Mynd:

Upprunaleg spurning:

Sé gengið út frá því að vísitölutengd skuldbréf séu afleiður, falla þau þá ekki undir lög um verðbréfaviðskipti, og tilskipun 2004/39 um fjárfestavernd (MiFID)? Hver er réttarvernd viðskiptavina fjármálafyrirtækja samkvæmt þeim reglum?

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur16.12.2011

Tilvísun

Haraldur Örn Ólafsson. „Eru vísitölutengd skuldabréf ekki afleiður og falla þar með undir lög um verðbréfaviðskipti?“. Evrópuvefurinn 16.12.2011. http://evropuvefur.is/svar.php?id=61061. (Skoðað 9.9.2024).

Höfundur

Haraldur Örn Ólafssonlögmaður

Við þetta svar er ein athugasemd Fela athugasemd

Einar Einarsson 1.10.2012

Hverjir mega stunda afleiðuviðskipti, þ.e á almennum markaði?

Þarf að vera skráður fagfjárfestir?