Spurning

Hvaða reglur gilda í ESB um helgunarsvæði raflína?

Spyrjandi

Andrés Pétursson

Svar

Samkvæmt upplýsingum frá stjórnarsviði orkumála hjá framkvæmdastjórninni eru engar reglur um nýtingu lands í Evrópurétti þar eð aðildarríkin fara ein með þá valdheimild. Allar reglur um nýtingu lands fyrir verkefni á sviði almennrar orkuvinnslu eða rafmagnsflutninga svo og réttindi landeigenda í þessu tilliti falla því undir landslög aðildarríkjanna.


Evrópusambandið hefur engar reglur sett um helgunarsvæði raflína eða rétt landeigenda gagnvart nýtingu lands til orkuframleiðslu.

Hér á landi eru í gildi lög um öryggi raforkuvirkja (nr. 146/1996) og hefur Mannvirkjastofnun opinbert eftirlit með því að þeim sé framfylgt. Samkvæmt reglugerð nr. 678/2009 skal skilgreina lágmarksfjarlægðir háspennulína til annarra mannvirkja. Reglugerðin vísar til íslenskra staðla sem ákvarða svokallað helgunarsvæði meðfram háspennulínum.

Helgunarsvæði er einnig nefnt byggingarbannsvæði. Þetta er svæði meðfram háspennulínum og háspennustrengjum þar sem óheimilt er að reisa mannvirki. Þetta svæði er með öðrum orðum „helgað“ háspennulínunum. Helgunarsvæði eru misjafnlega breið en almennt gildir að því hærri sem spennan er á rafkerfinu því breiðara er helgunarsvæði línunnar eða byggingarbannsvæðið. Breiddina þarf þó að reikna út í hverju tilviki fyrir sig og er það gert með tilliti til ýmissa kennistærða línunnar, svo sem hæðar mastra og fjarlægðar milli þeirra sem og álags á línunni.

Nokkrar núverandi lagasetningartillögur framkvæmdastjórnar ESB snerta landnýtingu en innihalda þó engin nákvæm ákvæði er þetta varða. Tilskipunartillaga um orkunýtni (Proposal for a directive on energy efficiency) skyldar aðildarríkin þannig eingöngu til að taka tillit til sérstakra landsáætlana um hitun og kælingu (e. national heating and cooling plans) í staðbundnum og svæðisbundnum þróunaráætlunum, þar á meðal við svæðisskipulagningu þéttbýlis og dreifbýlis.

Tillaga að reglugerð um stækkun samevrópskra orkugrunnvirkja (Proposal for regulation on guidelines for trans-European energy infrastructure) inniheldur ákvæði um að leyfisveitingarferli verkefna í samevrópska þágu sé hraðað og þeim veittur forgangur. Ekki er þó tekið sérstaklega á neinum spurningum varðandi helgunarsvæði raflína. Í ilskipun (2009/28/EC) um að auka notkun orku frá endurnýjanlegum orkulindum er ennfremur aðeins almenna ráðlegging um að ferli svæðisskipulagninar séu samræmd milli hlutaðeigandi yfirvalda og afmörkuð í tíma.

Heimildir og mynd:
  • Svar Hildar Hrólfsdóttur hjá Landsneti við fyrirspurn Evrópuvefsins, dags. 29.8.11.
  • Svar Jean-Arnold Vinois hjá stjórnarsviði orkumála hjá framkvæmdastjórninni við fyrirspurn Evrópuvefsins, dags. 14.12.11.
  • Mynd sótt á heimasíðu Sambands íslenskra sveitarfélaga, 22.12.11.

Upprunaleg spurning:

Hvað reglur gilda í Evrópusambandinu um helgunarsvæði raflína? Á ensku er stundum talað um power line right of way, easement of way eða bara land use. Hvaða rétt eiga landeigendur þegar yfirvöld ákveða að nýta land til orkuframleiðslu?

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur27.12.2011

Tilvísun

Þórhildur Hagalín. „Hvaða reglur gilda í ESB um helgunarsvæði raflína?“. Evrópuvefurinn 27.12.2011. http://evropuvefur.is/svar.php?id=60173. (Skoðað 9.9.2024).

Höfundur

Þórhildur HagalínEvrópufræðingur og fyrrverandi ritstjóri Evrópuvefsins

Við þetta svar er engin athugasemd Fela