Spurning

Hvernig vitum við að ESB mundi ekki bara ráðast á auðlindir okkar ef við göngum í ESB?

Spyrjandi

Haukur Ingi Hilmarsson

Svar

Evrópusambandið og aðildarríkin fara sameiginlega með valdheimildir í orkumálum, sbr. 4. grein sáttmálans um starfshætti Evrópusambandsins (SSE), en valdmörkin eru nánar skilgreind í 194. grein SSE. Þar er kveðið á um að Evrópuþingið og ráðið skuli ákveða nauðsynlegar ráðstafanir til að ná markmiðum orkustefnu sambandsins um að:
  • tryggja starfsemi orkumarkaðarins,
  • tryggja öryggi í orkuafhendingu í sambandinu,
  • auka orkunýtni og orkusparnað og stuðla að þróun nýrra og endurnýjanlegra orkugjafa og
  • stuðla að samtengingu orkuneta.

Slíkar ráðstafanir séu þó „með fyrirvara um rétt aðildarríkis til að ákvarða með hvaða skilyrðum orkulindir þess eru nýttar, hvaða orkugjafa það velur og almenna tilhögun orkuafhendingar [...]“ (2. mgr. 194. gr. SSE).

Ríki sem ganga í Evrópusambandið hafa því eftir sem áður sjálfsákvörðunarrétt um nýtingu orkuauðlinda í sinni eigu, svo sem olíu, gass og vatns. Þannig hafa til dæmis Bretar og Hollendingar full yfirráð yfir olíuauðlindum sínum í Norðursjó, Finnar ráða yfir finnskum skógum og Ungverjar yfir jarðhitaauðlindum sínum. Það verður því ekki annað séð en að sjálfsákvörðunarréttur Íslands yfir auðlindum í efnahagslögsögu landsins, í jörðu og á hafsbotni, haldist óskertur komi til aðildar að Evrópusambandinu.


Virkjun Orkuveitu Reykjavíkur á Nesjavöllum.

Reglur Evrópusambandsins, einkum á sviði umhverfismála og innri markaðar, geta þó í sumum tilvikum haft áhrif á nýtingu og meðferð auðlinda. Til dæmis hafa reglur sambandsins um útblástursheimildir á gróðurhúsalofttegundum haft áhrif á það hvernig aðildarríkin hafa samræmt reglur sínar um hvernig orka skuli notuð til hitunar á húsnæði. Þá hafa reglur innri markaðarins valdið breytingum á því hvernig orka er flutt á milli landa og hvernig dreifikerfi aðildarríkjanna eru starfrækt, í því skyni að bæta orkunýtingu meðal ESB-ríkjanna. Að meginreglu til lúta reglur sambandsins hins vegar ekki að eignarhaldi auðlinda, nýtingu þeirra eða því hvernig andvirði þeirra er ráðstafað.

Hvað auðlindir sjávar varðar þá veitir sameiginleg sjávarútvegsstefna ESB (e. Common Fisheries Policy, CFP) öllum aðildarríkjum jafnan aðgang að hafsvæðum hvers annars. Jöfnum aðgangi að hafsvæðum fylgir þó ekki jafn aðgangur að veiðum. Ákvarðanir um heildarafla og veiðiheimildir einstakra aðildarríkja eru teknar af landbúnaðar- og sjávarútvegsráðinu á grundvelli reglunnar um hlutfallslegan stöðugleika. Reglan byggist fyrst og fremst á veiðireynslu og er talin geta reynst íslenskum útgerðum hagstæð, ef til aðildar kemur, því hún ætti að tryggja Íslendingum áfram sama hlutfall veiðiheimilda í þeim fiskistofnum sem þeir veiða nú. Á hinn bóginn á reglan um hlutfallslegan stöðugleika sér stoð í afleiddum rétti ESB og henni væri hægt að breyta með auknum meirihluta í ráðinu ef pólitískur vilji væri til þess innan sambandsins.

Ljóst er að íslensk lög um fiskveiðar stangast á við löggjöf Evrópusambandsins að mörgu leyti. Að svo stöddu er erfitt er að spá fyrir um hver afdrif auðlindarinnar yrðu, komi til aðildar Íslands, þar sem viðræður um sjávarútvegskaflann hafa enn ekki hafist og samningsafstaða Íslands ekki verið birt. Ítarlega umfjöllun um sameiginlega sjávarútvegsstefnu ESB og möguleg áhrif hennar á íslenskan sjávarútveg komi til aðildar Íslands að ESB er að finna í svörum við eftirfarandi spurningum:

Heimildir og myndir:
Við þetta svar er engin athugasemd Fela