Spurning

Hvaða áhrif mundi innganga Íslands í ESB hafa á frelsi í viðskiptum með íslenskar sjávarafurðir?

Spyrjandi

Egill Almar Ágústsson

Svar

Engir tollar eru á milli aðildarríkja Evrópusambandsins. Ef Ísland yrði aðili að sambandinu yrði því fullt frelsi í viðskiptum með íslenskar sjávarafurðir við önnur aðildarríki. Núgildandi samningar Íslands við ESB tryggja að miklu leyti fríverslun með sjávarafurðir en 90% af útfluttum sjávarafurðum frá Íslandi til ESB bera enga tolla.

***

Evrópusambandið er tollabandalag sem þýðir að engir tollar eru á milli aðildarríkjanna og að tollar gagnvart ríkjum utan sambandsins eru alls staðar þeir sömu. Slíkt hið sama myndi gilda um Ísland ef það yrði aðili að sambandinu. Núverandi viðskipti Íslands og ESB fara að mestu leyti fram á grundvelli EES-samningsins og bókun 6 við fríverslunarsamninginn milli EFTA- og ESB-ríkjanna frá 1972. EES-samningurinn veitir Íslandi aðgang að innri markaði ESB en samningurinn kveður meðal annars á um frelsi í viðskiptum með vörur og fellur verslun með sjávarafurðir þar undir. Þar að auki sömdu Íslendingar við ESB um tollfrjálsan aðgang samkvæmt kvótum fyrir nokkrar mikilvægar vörutegundir í kjölfar stækkunar ESB. Innflutningur sjávarafurða frá ESB til Íslands er frjáls og án tolla.


Íslenski þorskurinn.
Um það bil 90% af útfluttum sjávarafurðum frá Íslandi til ESB bera enga tolla samkvæmt þeim skilyrðum sem samið var um í EES-samningnum. Bókun 9 við samninginn tryggir ennfremur að Ísland njóti 70% lægri tolla en fullur tollur kveður á um, á ýmsar tilgreindar vörur. Bókunin er í eðli sínu tvíþætt en hún felur annars vegar í sér ákvæði um afnám tolla af innflutningi mikilvægustu afurða Íslands til ESB og hins vegar tollalækkanir sem ná til flestra annarra sjávarafurða sem fluttar eru út frá Íslandi. Sökum þessa bera aðeins um 2% af þeim íslensku sjávarafurðum sem fluttar eru til ESB fulla tolla.

EES-samningurinn felur ekki í sér samræmingu á tollum eða viðskiptastefnum gagnvart öðrum ríkjum. Samningurinn kveður á um samræmingu á tæknilegum viðmiðum og margvíslegum vöruflokkum sem og bann við tollum og magntakmörkunum á viðskipti með tilteknar vörur og afurðir. Þó eru enn lagðir tollar á vissar afurðir líkt og fersk flök. Nákvæmt yfirlit yfir þær tegundir sjávarfangs sem enn sæta einhverjum tollum er hægt að nálgast á heimasíðu Íslandsstofu.

Evrópska efnahagssvæðið er stærsta markaðssvæðið sem Íslendingar hafa aðgang að. Samkvæmt tölum Hagstofu Íslands frá árunum 2009-2010 fer rúmlega 83% af öllum útflutningi frá Íslandi til landa á evrópska efnahagssvæðinu, einkum til Hollands, Bretlands og Þýskalands. Innflutningur frá löndum evrópska efnahagssvæðisins nam á sama tíma rúmlega 64% af öllum innflutningi til Íslands. Útflutningsverðmæti sjávarafurða á Íslandi árið 2010 var 220 milljarðar króna sem er um 39,3% af heildarverðmæti vöruútflutnings landsins. Evrópusambandið er einn stærsti markaður fyrir sjávarfang í heiminum enda er fiskneysla mikil í Evrópu eða að meðaltali 24,5 kg á mann á ári.


Fiskveiðibáturinn Egill SH 195 á veiðum við Breiðafjörð.

Samanlögð veiði aðildarríkja ESB er ein sú mesta í heiminum og hefur sambandið mótað sameignlega stefnu í sjávarútvegsmálum (e. common fisheries policy). Ísland stendur utan sameiginlegu sjávarútvegsstefnunnar en þrátt fyrir það getur ákvarðanataka á ýmsum sviðum innan sambandsins haft áhrif á skilyrði sjávarútvegs á Íslandi, einkum reglur um heilbrigði matvæla og markaðssetningu. Samkvæmt EES-samningnum hefur Ísland skuldbundið sig til að innleiða allar reglur ESB um hollustu, meðferð og vinnslu sjávarafurða án þess að hafa jafna aðkomu að ákvarðanatökuferlinu á við aðildarríki sambandsins. Innleiðing þessa regluverks gerir Íslandi kleift að flytja út sjávarafurðir án þess að þær þurfi að fara um tilteknar landamærastöðvar.

Sjávarútvegsstefna ESB er nú í endurskoðun og er áætlað að henni ljúki á þessu ári (2012) eins og fjallað er nánar um í svari við spurningunni um hvað snýst endurskoðunin á sjávarútvegsstefnu ESB sem nú stendur yfir? Ekki er að vænta breytinga sem gætu skert markaðsaðgengi Íslands að innri markaði ESB. Viðamikil tollskrá ESB getur hugsanlega orðið vaxandi hindrun á komandi árum en íslensk stjórnvöld hafa ávallt haldið á lofti kröfu um fullan og óheftan markaðsaðgang sem enn fæst eingöngu með fullri aðild að sambandinu.

Heimildir og myndir:
Við þetta svar er engin athugasemd Fela