Spurning

Er það rétt að Evrópusambandið vilji takmarka kanil í sætabrauði og ef það er rétt af hverju vill sambandið gera það?

Spyrjandi

G. Pétur Matthíasson

Svar

Kassíukanill frá Kína er sú kaniltegund sem notuð er hvað mest í matargerð en hún inniheldur töluvert mikið magn af efninu kúmarín sem talið er hafa skaðleg áhrif á starfsemi lifrar sé þess neytt í miklu magni. Evrópusambandið hefur því samþykkt reglugerð sem takmarkar magn kúmaríns í bakstursvörum.

Reglugerð Evrópusambandsins um bragðefni og tiltekin innihaldsefni matvæla (nr. 1334/2008) kveður á um að takmarka eigi notkun á efninu kúmarín sem finna má í mismiklum mæli í kanil. Samkvæmt reglugerðinni mega bakstursvörur ekki innihalda meira en 15 mg af kúmaríni. Hefðbundnar og árstíðarbundnar bakstursvörur mega þó innihalda allt að 50 mg af kúmaríni.


Kanilsnúðar.

Frá því hefur verið sagt í íslenskum fjölmiðlum (sjá umfjöllun DV, mbl og Vísi) síðustu daga að vegna löggjafar Evrópusambandsins sé hætta á því að kanilsnúðar frá Danmörku verði bannaðir á næstunni. Eftir því sem Evrópuvefurinn kemst næst er þó ólíklegt að til þess komi þar sem tvær leiðir eru færar.

Annars vegar getur Danmörk flokkað kanilsnúðana sína sem hefðbundna eða árstíðarbundna bakstursvöru og þar með fengið undanþágu frá 15 mg takmarkinu á kúmarín sem ofangreind ESB-reglugerð kveður á um. Svíþjóð hefur til að mynda ákveðið að fara þá leið. Hins vegar geta bakarameistarar í Danmörku skipt út kassíukanil fyrir Ceylon-kanil frá Srí Lanka sem þykir hollari og inniheldur mjög lítið magn af kúmaríni. Hann er þó mun dýrari en kassíukanillinn og mundi verð á kanilsnúðum þar með hækka.

Heimildir og mynd:

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur30.12.2014

Tilvísun

Brynhildur Ingimarsdóttir. „Er það rétt að Evrópusambandið vilji takmarka kanil í sætabrauði og ef það er rétt af hverju vill sambandið gera það?“. Evrópuvefurinn 30.12.2014. http://evropuvefur.is/svar.php?id=66533. (Skoðað 25.6.2024).

Höfundur

Brynhildur Ingimarsdóttiralþjóðastjórnmálafræðingur og fyrrverandi verkefnastjóri á Evrópuvefnum

Við þetta svar er engin athugasemd Fela