Spurning

Hvaða reglur gilda í ESB um bakstur og aðra matargerð í heimahúsum og sölu á afurðunum til góðgerðarstarfs eða annars?

Spyrjandi

G. Pétur Matthíasson

Svar

Um bakstur og matargerð í heimahúsum og sölu á slíkum afurðum gilda engar sérstakar reglur í Evrópusambandinu, nema matvælafyrirtæki sé beinlínis rekið í heimahúsi. Þvert á móti er starfsemi sem hvorki er samfelld né skipulögð, og fer til dæmis fram í tengslum við viðburði eins og þorpshátíðir eða kökubasara kvenfélaga, undanþegin reglum evrópsku matvælalöggjafarinnar, sem gildir á Íslandi vegna EES-samstarfsins. Um bakstur og matargerð í heimahúsum gilda þar af leiðandi landslög í þeim aðildarríkjum sem hafa sett þess konar lög eða reglur.

***

Ný matvælalöggjöf gekk í gildi í Evrópusambandinu árið 2006 og fjallar hún um eftirlit og hollustuhætti í matvæla- og fóðurframleiðslu. Reglugerð nr. 178/2002, oft nefnd hin almennu matvælalög ESB, myndar þann grunn sem matvælalöggjöf Evrópusambandsins byggir á en að auki hafa verið settar ýmsar afleiddar reglugerðir um hollustuhætti og eftirlit.

Evrópska matvælalöggjöfin var innleidd á Íslandi með lögum nr. 143/2009, þar sem sama löggjöf á að gilda um matvæli í öllum ríkjum á Evrópska efnahagssvæðinu (EES). Á Íslandi hafa allar reglugerðir Evrópusambandsins um hollustuhætti og eftirlit verið innleiddar orðréttar með sérstökum gildistökureglugerðum.Samkvæmt skilgreiningu almennu matvælalaganna er með orðinu „matvælafyrirtæki“ átt við fyrirtæki sem rekur starfsemi í tengslum við framleiðslu, vinnslu eða dreifingu matvæla á einhverju stigi, hvort sem það starfar í ágóðaskyni eður ei og hvort sem það er einkarekið eða opinbert (2.mgr. 3.gr. ESB reglugerðar nr. 178/2010, sjá íslenska reglugerð nr. 102/2010). Auk þess kemur fram að hin almennu matvælalög taki til framleiðslu, vinnslu og dreifingar matvæla og fóðurs á öllum stigum. Undanskilin er þó frumframleiðsla til einkanota sem og tilreiðsla, meðhöndlun og geymsla á matvælum til einkaneyslu (3.mgr. 1.gr. ESB-reglugerðar nr. 178/2010, sjá íslenska reglugerð nr. 102/2010).

Þetta er ítrekað í afleiddri reglugerð um hollustuhætti í matvælafyrirtækjum þar sem segir:

Reglur Bandalagsins gilda ekki um frumframleiðslu til einkanota á heimilum eða um vinnslu, meðferð eða geymslu matvæla á heimilum til einkaneyslu. Þær gilda auk þess aðeins um fyrirtæki sem búa við tiltekna samfellu í starfsemi og tiltekið skipulag (Svigi 9 í ESB reglugerð nr. 852/2004, sjá íslenska reglugerð nr. 103/2010).

Í leiðbeiningum um framkvæmd reglugerðarinnar um hollustuhætti, sem framkvæmdastjórnin hefur gefið út, er útskýrt nánar hvað átt er við með síðari setningunni sem hér er vitnað til. Þar kemur fram að sá sem meðhöndlar, tilreiðir, geymir eða framreiðir matvæli endrum og eins og í litlum mæli, á þorpshátíðum, í kirkjum, skólum eða á öðrum viðburðum, til dæmis til góðgerðastarfsemi, sem skipulagðir eru af sjálfboðaliðum, getur ekki talist vera „fyrirtæki“ og er því ekki bundinn af skilyrðum laga Evrópusambandsins um hollustuhætti í matvælafyrirtækjum.

Á Írlandi komst sá kvittur á kreik að matvælalöggjöf ESB myndi binda endi á kökukeppnir á landbúnaðarsýningum eins og hefð er fyrir þar í landi. Á heimasíðu skrifstofu framkvæmdastjórnarinnar í Írlandi er þessu mótmælt og tekin af öll tvímæli um að reglugerð ESB um hollustuhætti í matvælafyrirtækjum gildir ekki um slíka viðburði.

Þetta staðfesti einnig Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, í svari við fyrirspurn Sigurðar Inga Jóhannssonar alþingismanns um ákvæði laga og reglugerða um hollustuhætti sem varða matvæli:

Reglugerð (EB) nr. 852/2004 gildir ekki um einstaklinga sem framleiða mat, til dæmis vegna kökubasara sem eru einstakir viðburðir. Gert er ráð fyrir að ríki skuli setja reglur um þessa starfsemi en um slíka framleiðslu gilda ákvæði laga nr. 93/1995 og eftir atvikum aðrar reglugerðir settar samkvæmt þeim lögum.

Í svari ráðherrans segir ennfremur að lög (íslenska ríkisins) um matvæli nr. 93/1995 verði að skýra þannig að framleiðendur matvæla sem markaðssetja þau á reglulegum mörkuðum eða tilfallandi þurfi starfsleyfi eftirlitsaðila. Í frumvarpi sem lagt var fram um breytingar á lögum um matvæli var lagt til að ráðherra yrði heimilt að undanskilja aðila, sem ekki stunduðu starfsemi í ágóðaskyni frá starfsleyfis- eða tilkynningarskyldu. Í meðförum Alþingis var ákvæðið hins vegar þrengt þannig að það nær einungis til aðila sem halda búfé. Framleiðendur matvæla á mörkuðum eru því eftir sem áður eftirlitsskyldir samkvæmt íslenskum lögum um matvæli, og þurfa starfsleyfi.

Samkvæmt lögum um matvæli nr. 93/1995 er heimilt að binda leyfisveitingar ákveðnum kröfum til þess að tryggja að matvæli verði ekki fyrir skemmdum eða spillist á annan hátt (20. gr.). Skilyrði fyrir veitingu leyfis til framleiðslu og dreifingar matvæla voru sett í viðauka 3 við reglugerð nr. 522/1994. Þar er meðal annars kveðið á um að matvælafyrirtæki megi ekki vera í beinu sambandi við óskyldan atvinnurekstur eða íbúð. Við innleiðingu ESB reglugerðar nr. 852/2004 í íslensk lög árið 2010 var umrædd reglugerð þó felld úr gildi. Á heimasíðu Matvælastofnunar kemur fram að skilyrði fyrir leyfisveitingum í matvælaframleiðslu séu í vinnslu og verður því að telja að óvissa ríki um framtíð íslenskra kökubasara á meðan svo er. En það mál er sem sagt algerlega á forræði íslenska ríkisins.

Uppfært 20.10.2011:

Við upphaf þingárs 2011-2012 lagði Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, fram frumvarp um breytingu á lögum um matvæli. Breytingin felst í því að sniðin er undanþága utanum einstaklinga og félagasamtök sem matreiða og bjóða matvæli án endurgjalds eða annars ávinnings til sölu beint til neytenda í þágu góðgerðarstarfsemi. Í frumvarpinu er góðgerðastarfsemi ennfremur skilgreind sem starfsemi sem hefur það einasta markmið að verja hagnaði sínum til almenningsheilla, svo sem líknarmála, íþróttamála, félagsmála og vísinda- eða hjálparstarfsemi. Nái frumvarpið fram að ganga munu einstaklingar ekki lengur gerast brotlegir við lög með því að baka heima hjá sér fyrir árlegan kökubasar kvenfélagsins.

Heimildir og mynd:

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur12.8.2011

Tilvísun

Þórhildur Hagalín. „Hvaða reglur gilda í ESB um bakstur og aðra matargerð í heimahúsum og sölu á afurðunum til góðgerðarstarfs eða annars?“. Evrópuvefurinn 12.8.2011. http://evropuvefur.is/svar.php?id=60406. (Skoðað 22.5.2024).

Höfundur

Þórhildur HagalínEvrópufræðingur og fyrrverandi ritstjóri Evrópuvefsins

Við þetta svar er engin athugasemd Fela