Spurning

Hvernig eru jólin haldin víðs vegar um Evrópu?

Spyrjandi

N.N.

Svar

Orðið jól hefur ekki sama uppruna í öllum Evrópuríkjum. Sem dæmi má nefna að hið franska Noël kemur frá latneska orðinu natalis sem merkir fæðing. Enska orðið Christmas vísar til messu Krists sem haldin var af bresku lútherstrúarfólki í desember. Á þýsku er notað orðið Weihnacht sem merkir hin heilaga nótt. Jólin eru ekki haldin hátíðlega á sama hátt í Evrópu og ríki hafa haldið sínum hefðum og venjum. Persónur og lykildagsetningar eru til að mynda ekki alltaf þær sömu.


Jólasveinninn er ekki sá sami í ríkjum Evrópu. Í Hollandi er aðfararnótt 6. desember mikilvægari en jólin sjálf, því þá kemur sankti Nikulás á gufuskipi ásamt aðstoðarmanni sínum Svarta Pétri og gefur þægum börnum gjafir. Þeir ferðast yfir húsþök og skila gjöfunum í gegnum skorsteininn. Þessi saga er vel þekkt víða um heim í ýmsum myndum. Talið er að heilagur Nikulás hafi verið biskup í Mýru í Litlu-Asíu (Tyrklandi) á 4. öld. Um líf og störf Nikulásar er fátt vitað en hann er þó einn af vinsælustu dýrlingum bæði rómversk-kaþólsku kirkjunnar og þeirrar grísk-kaþólsku. Ýmsar óstaðfestar sagnir eru til um hann þar sem honum eru eignuð hin ýmsu kraftaverk. Samkvæmt þessum sögnum var hann örlátur mjög sem er væntanlega rótin að hugmyndinni um Nikulás sem jólasvein sem gefur börnum gjafir. Dagur sankti Nikulásar er haldinn hátíðlegur víða í Evrópu, svo sem í Austurríki, Belgíu og Þýskalandi. Jólasveinninn sem við þekkjum flest í dag skaut fremur seint upp kollinum í engilsaxneskum þjóðsögum og nefnist þar Father Christmas. Hann er byggður á sögunum um sankti Nikulás, enda er hann í enskumælandi löndum gjarnan kallaður Santa Clause. Jólasveinninn gefur góðum börnum gjafir að kvöldi 24. desember. Ólíkt sankti Nikulási býr hann þó í Norður-Finnlandi ásamt fleygum hreindýrum.

Á Grikklandi og í Kýpur er það ekki jólasveinn sem gefur börnum gjafir heldur öllu hóflegri persóna í þunnum klæðnaði að nafni sankti Basil. Á Spáni er komu vitringanna þriggja þann 6. janúar beðið með mikilli eftirvæntingu, enda koma þeir hlaðnir gjöfum fyrir börnin. Í suðurhluta Ítalíu er 6. janúar einnig haldinn hátíðlegur, en þar er það nornin Befana sem kemur með gjafirnar, fljúgandi á kústskafti. Sagan segir að nornin Befana hafi fengið fréttir af komu Jesú frá vitringunum þremur, en ekki ratað til Betlehem. Síðan hefur hún reikað um í leit að Jesúbarninu og skilur eftir gjafir hjá hverju sofandi barni sem verður á vegi hennar, í þeirri von að um sé að ræða Jesús sjálfan. Af þessu sést að sögurnar tengjast margar hverjar milli Evrópuríkja þrátt fyrir að þær séu ekki alveg eins.

Þó svo ríki haldi jólin hátíðlega á ólíkan máta hafa nokkrar hefðir og venjur breiðst út. Til dæmis má nefna aðventukransinn sem kom fyrst til sögunnar í Þýskalandi áður en sá siður breiddist út til Norðurlandanna og síðar annars staðar í Evrópu. Jóladagatalið er annar siður sem upphaflega kom frá Þýskalandi árið 1851. Dagatölin, sem ætluð eru börnum til að stytta biðina til jóla, innihéldu áður fyrr kristilegar myndir en í dag er þó iðulega um að ræða súkkulaðidagatöl. Jólatréð er einnig hefð sem á uppruna sinn að rekja til Þýskalands. Á 18. öld breiddist út sú hefð að setja upp jólatré og nánast öll Evrópuríki hafa tileinkað sér þann sið. Sum ríki, eins og Grikkland og Spánn, voru þó lengi treg til að taka upp þá hefð. Á Grikklandi er í staðinn sett upp rós sem gengur undir nafninu „Hellebore“. Skreytingarnar á jólatrjám geta einnig verið mismunandi eftir löndum. Í Ungverjalandi er tréð til að mynda skreytt með kexkökum og sælgæti sem borðað er af trénu.


Jólatré við Evrópuþingið í Brussel í Belgíu

Helgileikurinn um fæðingu Jesúbarnsins á uppruna sinn að rekja til Ítalíu og varð allt frá 13. öld útbreidd jólavenja meðal kaþólskra ríkja í Suður-Evrópu, eins og Portúgal og Spáni, en einnig í Frakklandi og Suður-Þýskalandi. Á miðöldum byrjuðu menn einnig að setja upp sérstaka jólamarkaði en sú hefð hófst upprunalega í Vín í Austurríki og München í Þýskalandi. Á slíkum mörkuðum gefst fólki tækifæri til að kynna sér mismunandi matarsérkenni um jólin og jólaskreytingar. Hefðin að gefnar séu gjafir á jólunum kemur svo frá Rómverjum sem voru vanir að gefa gjafir þegar „Saturnales“ gekk í garð, en það var hátíð Satúrnusar þegar vetrarsólstöður áttu sér stað.

Að lokum bendum við áhugasömum á skemmtilega vefslóð þar sem hægt er að lesa sér til um hvernig segja má gleðileg jól á öllum opinberum tungumálum Evrópusambandsins. Króatía var ekki orðið aðildarríki ESB þegar þessi listi var settur saman en við hjá Evrópuvefnum bætum upp fyrir það og um leið óskum við lesendum okkar gleðilegra jóla og farsæls komandi árs eða eins og Króatar mundu segja: Sretan Božić i sretna Nova godina!

Heimildir og myndir:
Við þetta svar er engin athugasemd Fela