Spurning

Af hverju eru ekki allar þjóðir innan ESB með evru sem gjaldmiðil?

Spyrjandi

Valgerður

Svar

Ellefu af 28 aðildarríkjum Evrópusambandsins eru ekki hluti af evrusamstarfinu eða evruhópnum, eins og evruríkin eru oft nefnd. Tvö þeirra hafa varanlega undanþágu frá upptöku evru en hin níu eru skuldbundin til upptökunnar. Þau eru þó mislangt á veg komin með að uppfylla skilyrðin fyrir upptöku hins sameiginlega gjaldmiðils (Maastricht-skilyrðin) og stefna mishratt að því.

***

Tólf af aðildarríkjum Evrópusambandsins, sem þá voru fimmtán talsins, tóku upp evru sem lögeyri þegar hún var tekin í notkun 1. janúar 2002. Þetta voru Austurríki, Belgía, Finnland, Frakkland, Grikkland, Holland, Írland, Ítalía, Lúxemborg, Portúgal, Spánn og Þýskaland. Þrjú ríki kusu að standa utan evrusamstarfsins.


Evrumyntir.

Danir og Bretar sömdu um varanlegar undanþágur frá upptöku evru vegna þess að ekki var vilji fyrir þátttöku í myntbandalaginu heima fyrir (sjá bókun 15 og 16 við sáttmálann um starfshætti Evrópusambandsins). Í Svíþjóð má segja að þátttöku í evrusamstarfinu hafi verið hafnað einhliða. Formlega eru Svíar enn skuldbundnir til að taka upp evru en frá því að meirihluti þjóðarinnar kaus gegn því í þjóðaratkvæðagreiðslu árið 2003 hafa slík plön legið á ís. Nánar má lesa um þetta í svari við spurningunni Hvaða Norðurlönd hafa evru sem gjaldmiðil?

Af þeim tólf löndum sem gengu í ESB við stækkanirnar árið 2004 og 2007 hafa fimm ríki þegar uppfyllt Maastricht-skilyrðin og tekið upp evru sem gjaldmiðil. Þetta eru Eistland, Kýpur, Malta, Slóvakía og Slóvenía. Evruríkin eru því 17 talsins í dag. Hin átta aðildarríkin eru, líkt og Svíþjóð, skuldbundin til þátttöku í evrusamstarfinu en eru mislangt á veg komin með að uppfylla skilyrðin fyrir upptöku sameiginlega gjaldmiðilsins. Þau eru Búlgaría, Króatía, Lettland, Litháen, Pólland, Rúmenía, Tékkland og Ungverjaland.

Nánar má lesa um evrusamstarfið og upptöku evru í svörum við spurningunum hér til hliðar.

Mynd:

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur 2.5.2013

Tilvísun

Þórhildur Hagalín. „Af hverju eru ekki allar þjóðir innan ESB með evru sem gjaldmiðil?“. Evrópuvefurinn 2.5.2013. http://evropuvefur.is/svar.php?id=65200. (Skoðað 6.12.2024).

Höfundur

Þórhildur HagalínEvrópufræðingur og fyrrverandi ritstjóri Evrópuvefsins

Við þetta svar er engin athugasemd Fela