Spurning

Gætu kínversk fyrirtæki fjárfest á Íslandi án sérstakra undanþága ef við göngum í ESB?

Spyrjandi

Evrópuvefur

Svar

Svarið er nei, að minnsta kosti ekki eins og staðan er í dag. Ekki hefur verið gerður fjárfestingasamningur milli Kína og Evrópusambandsins í heild sinni heldur hefur hvert aðildarríki, fyrir utan Írland, samið við Kína um tilhögun fjárfestinga á milli landanna. Því er líklegt að sem aðildarríki ESB gæti Ísland áfram stjórnað því hvernig fjárfestingum Kínverja á Íslandi væri hagað. ESB og Kína hafa þó í sameiningu ákveðið að taka fjárfestingasamband sitt til endurskoðunar, með það að markmiði að dýpka það. Í því felst meðal annars að skoða möguleikann á sameiginlegum fjárfestingasamningi milli allra ríkja ESB og Kína.

***

Samkvæmt lögum um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri (34/1991) eru erlendar fjárfestingar utan EES-svæðisins óheimilar nema með undanþágu frá innanríkisráðherra. Þegar þetta er skrifað í janúar 2012 fer fram endurskoðun á lögunum, með það að markmiði að efla erlenda fjárfestingu í íslensku atvinnulífi. Í desember 2011 lagði efnahags- og viðskiptaráðherra fram tillögu til þingsályktunar um stefnu um beina erlenda fjárfestingu og samkvæmt þingmálaskrá Alþingis er gert ráð fyrir að efnahags- og viðskiptaráðherra leggi fram frumvarp til breytinga á lögunum á vorþingi 2012.


Í apríl 2010 ákváðu fulltrúar ESB og Kína að kanna ítarlega möguleikana á því að auka fjárfestingar sín á milli og stuðla að vernd þeirra.

Ekki hefur verið gerður fjárfestingasamningur milli Kína og Evrópusambandsins í heild sinni heldur hefur hvert aðildarríki, fyrir utan Írland, samið við Kína um tilhögun fjárfestinga á milli landanna. Fyrirtæki ESB-ríkja standa því oft ekki jafnfætis þegar kemur að fjárfestingum í Kína, bæði hvað varðar aðgengi að mörkuðum og eins vernd fjárfestinga. Í apríl 2010 ákváðu fulltrúar ESB og Kína að kanna ítarlega möguleikana á því að auka fjárfestingar sín á milli og stuðla að vernd þeirra. Af því tilefni var myndaður sameiginlegur fjárfestingastarfshópur (Joint EU-China Investment Task Force) sem kannar nú möguleikana á dýpra samstarfi á sviði fjárfestinga, til að mynda hvað varðar sameiginlegan fjárfestingasamning milli allra ESB-ríkja og Kína.

Stjórnarsvið framkvæmdastjórnar ESB fyrir utanríkisviðskipti birti í maí 2011 skýrslu um fjárfestingasamband ESB og Kína. Vöruviðskipti milli ESB-ríkja og Kína hafa farið mjög vaxandi undanfarin ár en fjárfestingar hafa verið takmarkaðar í samanburði. Evrópusambandsríkin hafa undanfarin ár verið stærstu erlendu fjárfestarnir í Kína, með um 20% af öllum erlendum fjárfestingum þar í landi. Það jafngildir engu að síður aðeins 3% af heildarfjárfestingum ESB-ríkja í þriðju ríkjum. Á móti nema fjárfestingar Kínverja í ESB-ríkjum aðeins 1% af heildinni, þótt allt bendi til að þær muni fara vaxandi í nánustu framtíð. Sjá svar við spurningunni Eru Kínverjar að kaupa upp Evrópu?


Meginástæður þess að evrópskar fjárfestingar í Kína eru ekki umfangsmeiri eru viðskiptahömlur og ótraust viðskiptaumhverfi. Þá njóta kínversk fyrirtæki í ríkiseigu niðurgreiðslna sem veldur ójafnri samkeppni. Evrópsk fyrirtæki geta til að mynda einungis fjárfest á ákveðnum sviðum kínversks viðskiptalífs. Á þeim sviðum eru þar að auki oft margs konar hamlandi kröfur í gildi, til að mynda að reksturinn sé að hluta í kínverskri eigu og að efniviður í reksturinn komi frá staðbundnum fyrirtækjum. Einnig þurfa fjárfestar oft að uppfylla íþyngjandi kröfur til að fá nauðsynleg leyfi. Þá þurfa fjárfestar sem ætla að vera í formlegu samstarfi við kínversk fyrirtæki (e. joint ventures) að huga að öruggum flutningi tæknikunnáttu og vernd hugverkaréttar. Loks er talið að endurskoðun Kínverja á lagaramma fyrir samruna fyrirtækja sem og stefna þeirra um ríkisstyrki geti haft hamlandi áhrif á fjárfestingar.

Í áðurnefndri skýrslu ræðir framkvæmdastjórnin þrjár leiðir til að bæta fjárfestingasamstarf ESB og Kína. Sú fyrsta væri að setja á fót sameiginlegan fjárfestingasamning sem tæki bæði til aðgengis að mörkuðum og eins verndar þeirra fjárfestinga sem gerðar eru. Önnur leið væri að gera einungis samning um vernd fjárfestinga, sem tæki ekki til aðgengis að mörkuðum. Þriðja leiðin væri að halda áfram samstarfi með núverandi fyrirkomulagi. Þegar þetta er skrifað í janúar 2012 vinnur framkvæmdastjórnin að því að meta rækilega hvern möguleika fyrir sig, í samstarfi við hagsmunaaðila og almenning.

Heimildir og mynd:

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur 6.1.2012

Tilvísun

Vilborg Ása Guðjónsdóttir. „Gætu kínversk fyrirtæki fjárfest á Íslandi án sérstakra undanþága ef við göngum í ESB?“. Evrópuvefurinn 6.1.2012. http://evropuvefur.is/svar.php?id=61593. (Skoðað 19.4.2024).

Höfundur

Vilborg Ása Guðjónsdóttiralþjóðastjórnmálafræðingur og verkefnastjóri á Evrópuvef

Við þetta svar er engin athugasemd Fela