Spurning

Eru Kínverjar að kaupa upp Evrópu?

Spyrjandi

Evrópuvefur

Svar

Í stuttu máli er svarið nei. Beinar fjárfestingar kínverskra fyrirtækja, þar á meðal frá Hong Kong, í ríkjum Evrópusambandsins voru aðeins 5,23% af erlendum fjárfestingum innan sambandsins árið 2010. Þá er heildarvirði fjárfestinga (Foreign Direct Investment Stock) Kínverja í ESB-ríkjum aðeins 0,49% af heildarvirði erlendra fjárfestinga innan sambandsins. Fjárfestingar kínverskra fyrirtækja í ríkjum ESB hafa hins vegar aukist mikið og verður árið 2011 metár í því sambandi. Þá fjárfesta Kínverjar töluvert í gegnum skattaskjól sem gerir það að verkum að mjög erfitt er að greina nákvæmlega umfang beinna erlendra fjárfestinga á vegum Kínverja.

***

Ekki hefur verið gerður fjárfestingasamningur milli Kína og Evrópusambandsins í heild sinni, heldur hefur hvert aðildarríki um sig (fyrir utan Írland) samið við Kína um tilhögun fjárfestinga. Það getur leitt til þess að fyrirtæki ESB-ríkja standi ekki jöfnum fæti þegar kemur að fjárfestingum í Kína. Í umræðunni er að ESB stofni til sameiginlegs fjárfestingasamnings við Kína. Sjá nánar í svari við spurningunni Gætu kínversk fyrirtæki fjárfest á Íslandi án sérstakra undanþága ef við göngum í ESB?


Á leiðtogafundi ESB og Kína árið 2010, frá vinstri: Wen Jiabao, forsætisráðherra Kína, Herman Van Rompuy, forseti leiðtogaráðs ESB og José Manuel Barroso forseti framkvæmdastjórnar ESB.

Kínversk fyrirtæki fjárfesta mest í öðrum ríkjum Asíu, því næst í Suður-Ameríku og þá í Evrópu. Beinar erlendar fjárfestingar Kínverja í Evrópusambandsríkjum námu um 13 milljörðum evra árið 2010 en þar af námu fjárfestingar frá Hong Kong, sérstöku sjálfstjórnarhéraði í Kína, 11,3 milljörðum evra. Fjárfestingar Kínverja voru þó aðeins 5,23% af erlendum fjárfestingum í heild innan sambandsins það ár. Til samanburðar var bein fjárfesting bandarískra fyrirtækja í ríkjum ESB 12,3% af heildinni árið 2010. Heildarvirði fjárfestinga Kínverja í ESB-ríkjum er þá aðeins 0,49% af heildarvirði erlendra fjárfestinga í ESB-ríkjum. Hlutfall Bandaríkjanna er 20%. Fjárfestingar Kínverja í ESB-ríkjum eru þó að aukast mikið en árið 2009 námu þær einungis 100 milljónum evra.

Í þessu sambandi er einnig vert að hafa í huga að stór hluti beinnar erlendrar fjárfestingar frá Kína er skráður í gegnum skattaskjól, svo sem Cayman-eyjar og Bresku jómfrúreyjar. Þá ber upplýsingum frá kínverskum stjórnvöldum og Hagstofu ESB um umfang fjárfestinga Kínverja í ESB-ríkjum ekki saman. Kínverjar telja fjárfestingarnar meiri en ESB gerir. Að sögn sérfræðinga gæti skýringin legið í mismunandi skilgreiningavenjum milli menningarsvæða. Í þessu svari er gengið út frá mati Hagstofu ESB. Af öllu þessu leiðir að erfitt er að greina nákvæmlega umfang beinnar erlendrar fjárfestingar frá Kína.

Mikill meirihluti kínverskra fjárfestinga er á vegum stórra fyrirtækja í ríkiseigu sem eru í leit að auðlindum, nýjum mörkuðum og þekkingu. Þá kemur lítill hluti fjárfestinga frá fyrirtækjum í einkaeign sem vilja starfa á nýjum mörkuðum og eru í leit að þekkingu, til dæmis á stjórnun fyrirtækja. Innan Evrópusambandsins hafa Kínverjar aðallega fjárfest í Frakklandi, Þýskalandi, Ítalíu, Spáni, Hollandi og Bretlandi. Nýverið hefur þó verið mikil aukning í fjárfestingum í Mið- og Austur-Evrópu. Þá keypti kínverski bílaframleiðandinn Geely sænsku bílaverksmiðjurnar Volvo árið 2010 og tveir aðrir kínverskir bílaframleiðendur reyndu að gera tilboð í sænska bílaframleiðandann Saab á árinu 2011. Samkvæmt BBC vildi General Motors, einn af eigendum Saab, hins vegar ekki að kínverskir bílaframleiðendur kæmust með kaupunum yfir ýmis tæknileyfi (technology licenses) og því varð ekki af kaupunum. Saab varð í kjölfarið gjaldþrota.

Kínverskar fjárfestingar beinast iðulega að sviðum þar sem kínversk framleiðsla stendur höllum fæti í samkeppni og þörf er á tækniþróun sem helst í hendur við næstu 5 ára áætlun kínverskra stjórnvalda. Meirihluti kínverskra fjárfestinga er í þjónustu og framleiðslu. Í framleiðsluiðnaði er lögð áhersla á fjárfestingar í upplýsinga- og samskiptatækni svo og bílaframleiðslu. Þó svo að hvert ríki innan ESB hafi laðað að sér ýmsar tegundir fyrirtækja, þá er skýr tilhneiging til að fjárfesta í þeim geirum sem viðkomandi ríki hefur sérstöðu í, til dæmis í vélaframleiðslu í Þýskalandi og hönnun á Ítalíu.


Þrátt fyrir stórauknar fjárfestingar árið 2011 bendir fátt til þess að Kínverjar séu að kaupa upp Evrópu. Hlutfall beinnar fjárfestingar kínverskra fyrirtækja er enn lítill hluti heildarfjárfestinga innan Evrópusambandsins eins og áður kom fram og hefur ekki haft mikil áhrif. Það kemur meðal annars til af því að meirihluti fjárfestinganna er í geirum sem krefjast ekki mikils mannafla og áhrifin á vinnumarkaðinn eru því hverfandi. Þá hafa margar af þessum fjárfestingum ekki gengið vel. Kínverskum fyrirtækjum gengur oft illa að fóta sig á markaðnum, meðal annars vegna þess hversu vanþróuð þau eru sem og vegna skorts á reynslu og getu til að standast samkeppni á alþjóðlegum mörkuðum. Loks mæta þau oft neikvæðum viðhorfum og eiga erfitt með að aðlagast siðum og venjum í því landi sem fjárfest er í.

Hvað sem því líður má gera ráð fyrir að beinar erlendar fjárfestingar frá Kína fari ört vaxandi á heimsvísu næstu 10 árin. Með aukinni reynslu og þekkingu er líklegt að fjárfestingar Kínverja innan ríkja Evrópusambandsins aukist jafnt og þétt. Viðhorfin til þessarar þróunar hafa bæði verið jákvæð og neikvæð. Þeir sem fagna fjárfestingunum benda á að þær geti til að mynda þýtt ný tækifæri fyrir evrópsk fyrirtæki í fjárhagsvanda, skapað kærkomna innspýtingu fjármagns í bankakerfið og stuðlað að endurskipulagningu iðnaðar innan ESB. Andstæðingar benda á að um ósanngjarna samkeppni sé að ræða, bæði í ljósi þess að kínversk fyrirtæki í ríkiseigu njóti niðurgreiðslna og að erfiðara sé fyrir evrópsk fyrirtæki að fjárfesta í Kína en öfugt, sökum viðskiptahindrana og ótrausts viðskiptaumhverfis. Þá sé einnig hætta á iðnaðarnjósnum sem hafi í för með sér ólöglegan flutning á evrópskri tækniþekkingu til Kína.

Ákveðinn titringur ríkir innan Evrópusambandsins vegna aukinna fjárfestinga kínverskra fyrirtækja innan ríkja sambandsins og í EES/EFTA-ríkinu Noregi, sérstaklega í ljósi þess að þrjár stærstu fjárfestingar Kína í Evrópu á árinu 2011 hafa hver um sig numið hærri upphæð en öll fjárfesting samanlagt á árinu 2010. Hér er um að ræða kaup á 40% hlut í brasilískri einingu spænska olíufélagsins Repsol fyrir 5,4 milljarða evra, ungverska efnafyrirtækinu Borsod-Chem fyrir 1,3 milljarða evra og kísilframleiðslueiningu norska fyrirtækisins Elkem AS, sem rekur meðal annars járnblendiverksmiðjuna á Grundartanga, fyrir 1,53 milljarða evra.

Heimildir og mynd:

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur28.12.2011

Tilvísun

Arnar Steinn Þorsteinsson og Vilborg Ása Guðjónsdóttir. „Eru Kínverjar að kaupa upp Evrópu?“. Evrópuvefurinn 28.12.2011. http://evropuvefur.is/svar.php?id=61468. (Skoðað 13.10.2024).

Höfundar

Arnar Steinn ÞorsteinssonBA í kínversku,MA-nemi í alþjóðasamskiptum við Háskóla ÍslandsVilborg Ása Guðjónsdóttiralþjóðastjórnmálafræðingur og verkefnastjóri á Evrópuvef

Við þetta svar er engin athugasemd Fela