Spurning

Hvaða reglur gilda í Evrópusambandinu um notkun flugelda og sölu á þeim til almennings?

Spyrjandi

Kristján Blöndal

Svar

Reglur ESB um flugelda byggjast á tilskipun 2007/23/EB. Í tilskipuninni eru settar fram grunnkröfur til framleiðenda um öryggi sem flugeldavörur verða að uppfylla áður en þær eru settar á markað sem og aldurstakmörk fyrir sölu á flugeldavörum til neytenda. Þá fjallar tilskipunin um þá skyldu aðildarríkja að tryggja að eingöngu sé hægt að setja flugeldavörur sem uppfylla kröfur tilskipunarinnar á markað, og að aðildarríkjum sé ekki heimilt að banna, takmarka eða hindra að flugeldavörur sem uppfylla kröfur tilskipunarinnar séu settar á markað, né frjálsan flutning þeirra á innri markaðnum. Ákveðið hefur verið að fella tilskipun 2007/23/EB inn í EES-samninginn en sú ákvörðun bíður staðfestingar Alþingis. Með staðfestingu yrði tilskipunin einnig bindandi fyrir Ísland.

***

Tilskipun 2007/23/EB er ætlað að koma á frjálsum flutningum á flugeldavörum á innri markaði ESB jafnframt því að tryggja öfluga heilsuvernd manna og almannaöryggi sem og vernd og öryggi neytenda. Þá tekur hún einnig tillit til þátta sem varða umhverfisvernd. Tilskipanir ESB eru bindandi fyrir þau aðildarríki sem þeim er beint til, að því er markmið þeirra varðar, en yfirvöldum í hverju ríki er í sjálfsvald sett á hvern hátt og með hvaða leiðum þeim markmiðum er náð. Í málum sem varða innri markaðinn á þetta einnig við um EES og EFTA-ríkin Ísland, Noreg og Liechtenstein.


Tilskipun ESB um flugeldavörur setur meðal annars fram grunnkröfur um öryggi.

Samkvæmt áðurnefndri tilskipun flokkast skoteldar, flugeldavörur fyrir leikhús og flugeldavörur til tækninota, svo sem gasbúnaður í öryggispúðum eða sætisbeltastrekkjurum, sem flugeldavörur. Framleiðendur skulu sjá til þess að flugeldavörur sem settar eru á markað uppfylli grunnkröfur um öryggi sem taldar eru upp í fyrsta viðauka tilskipunarinnar. Þær snúa einna helst að efnainnihaldi, hönnun, smíði og virkni flugeldavara, prófunum, leiðbeiningum og merkingum, öryggisfjarlægðum, hámarkshávaðastigi og kveikjubúnaði. Ef framleiðandinn er ekki skráður innan ríkja ESB skal innflytjandinn tryggja að framleiðandinn hafi uppfyllt skyldur sínar samkvæmt tilskipuninni eða gangast sjálfur undir þær skyldur. Yfirvöld eða aðrir aðilar innan ESB kunna að draga innflytjanda til ábyrgðar vegna þessara skyldna. Dreifingaraðilar skulu þá gæta þess vandlega að farið sé að gildandi lögum ESB, þá einkum hvort flugeldavaran beri áfest samræmismerkið CE (fr. Conformité Européenne, e. European Conformity) sem staðfestir að framleiðandi hafi lýst því yfir að varan sé í samræmi við ákvæði tilskipunarinnar, og að henni fylgi þau skjöl sem krafist er.

Í tilskipuninni er því beint til framleiðenda að flokka flugeldavörur með hliðsjón af hættustigi þeirra hvað varðar notkun, tilgang og hávaðastig. Þá sé viðeigandi að mæla einnig fyrir um aldurstakmörk fyrir sölu þeirra til neytenda og notkunar þeirra, sjá 3. og 7. grein tilskipunarinnar. Aðildarríkjum er heimilt að hækka aldurstakmörk í rökstuddum tilvikum á grundvelli allsherjarreglu eða almannaöryggis, og lækka aldurstakmörk fyrir einstaklinga sem hafa hlotið starfsmenntun eða eru í slíkri starfsþjálfun.

Aðildarríki skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að eingöngu sé hægt að setja flugeldavörur á markað ef þær uppfylla kröfur tilskipunarinnar og bera áðurnefnt CE-merki. Að því er varðar öryggi í flutningum falla reglur um flutninga á flugeldavörum undir alþjóðasamþykktir og -samninga, þar á meðal tilmæli Sameinuðu þjóðanna um flutning á hættulegum farmi.


Tilskipun 2007/23/EB um flugeldavörur er ætlað að koma á frjálsum flutningum á flugeldavörum á innri markaði ESB jafnframt því að tryggja öfluga heilsuvernd manna og almannaöryggi sem og vernd og öryggi neytenda.

Aðildarríkjum er ekki heimilt að banna, takmarka eða hindra að flugeldavörur sem uppfylla kröfur tilskipunarinnar séu settar á markað. Aðgerðir sem réttlæta má með skírskotun til allsherjarreglu, almannaöryggis eða umhverfisverndar eru undanþegnar. Þá er aðildarríkjum almennt ekki heldur heimilt að banna, takmarka eða hindra frjálsan flutning á flugeldavörum ef grunnkröfum um öryggi er fullnægt, með fyrirvara um landslöggjöf aðildarríkjanna um leyfisveitingar fyrir framleiðendur, dreifingaraðila og innflytjendur, og ráðstafanir til að takmarka notkun eða sölu á tilteknum flokkum skotelda til almennings af ástæðum sem varða almannaöryggi.

Ef framleiðandi býr til skotelda til eigin nota vegna trúarlegra, menningarlegra eða hefðbundinna hátíðahalda og þeir eru samþykktir í aðildarríkinu, þá skulu þeir ekki teljast hafa verið settir á markað og þurfa því ekki að fara að tilskipuninni.

Aðildarríkjum ESB var gert að samþykkja tilskipun 2007/23/EB og birta nauðsynleg lög og stjórnsýslufyrirmæli til að fara að henni eigi síðar en 4. janúar 2010. Hvað varðar skotelda í fyrsta, öðrum og þriðja flokki (sjá 3. grein) tók tilskipunin gildi 4. júlí 2010 en fyrir aðrar flugeldavörur tekur hún gildi 4. júlí 2013. Aðildarríkin mæla sjálf fyrir um reglur um viðurlög við brotum gegn ákvæðum landslaga sem innleiða ákvæði tilskipunarinnar og tryggja framfylgd þeirra.

Á Íslandi er gildandi reglugerð nr. 952/2003 um skotelda. Þann 10. nóvember 2010 ákvað sameiginlega EES-nefndin, með ákvörðun nr. 119/2010, að fella inn í EES-samninginn tilskipun 2007/23/EB um flugeldavörur. Samkvæmt upplýsingum úr innanríkisráðuneytinu er stefnt að því að þingsályktunartillaga um staðfestingu á framangreindri ákvörðun EES-nefndarinnar verði lögð fyrir Alþingi á yfirstandandi löggjafarþingi 2011-2012. Innleiðing tilskipunarinnar kalli á breytingar á vopnalögum nr. 16/1998 og fyrirhugað sé að innanríkisráðherra leggi fram frumvarp til slíkra lagabreytinga á vorþingi 2012.

Heimildir og mynd:

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur16.12.2011

Tilvísun

Vilborg Ása Guðjónsdóttir. „Hvaða reglur gilda í Evrópusambandinu um notkun flugelda og sölu á þeim til almennings?“. Evrópuvefurinn 16.12.2011. http://evropuvefur.is/svar.php?id=61402. (Skoðað 27.4.2024).

Höfundur

Vilborg Ása Guðjónsdóttiralþjóðastjórnmálafræðingur og verkefnastjóri á Evrópuvef

Við þetta svar er engin athugasemd Fela